Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Fréttir | 18.7.2018 11:21:24 |
Skemmtileg markaðshelgi

Aðsókn að markaðshelginni í Bolungarvík var með mesta móti í ár. 

 

Yfir tuttugu söluaðilar voru á markaðstoginu á laugardeginum og hafa ekki verið fleiri í langan tíma. Allur matur seldist upp og mikið af alls kyns varningi. 

 

Heimboð var í listaskála Kampa á fimmtudeginum þar sem hægt var að skoða þá aðstöðu sem listamenn geta fengið aðgang að til að vinna að list sinni í Bolungarvík en aðalrýmið hentar einkar vel fyrir gerð stærri listaverka. Unnið er að standsetningu íbúðar sem fylgja mun rýminu. Um kvöldið voru tónleikar KK Bands í boði í Félagsheimili Bolungarvíkur. 

 

Á föstudeginum var Kjörbúðin með grillveislu og markaðsdagsmótið í golfi fór fram á Syðridalsvelli. Leikfyrirkomulag var Texas Scramble, eða tveir í liði, og má sjá yfirlit yfir úrslitin á vefsíðu Golfklúbbs Bolungarvíkur. Um kvöldið var skrúðganga litanna og brekkusöngur og bál í gryfjunni við Hreggnasa. Gummi Hjalta skemmti síðan gestum Einarshús með dyggri aðstoð tilfallandi skemmtikrafta.

 

Á laugardeginum voru ísfirsk hefðarmenni fyrst á svið sem léku á harmonikkur og fleiri hljóðfæri með þá Villa Valla og Baldur Geirmunds fremsta í flokki. Þeir vissu ekki hvað þeir áttu að spila lengi þannig að þeir spiluðu bara áfram þar til þeim var sagt að nú væri komið að næsta atriði. 

 

Img_7587

Vestfirskt dragspil

 

Næst á sviðið var ísfirsk snót sem heitir Árný Margrét Sævarsdóttir sem lék á gítar og söng. Góður rómur var gerður að tónlist hennar og vonandi verður meira af slíku. Á eftir henni kom Between Mountains og átti góðan leik eins og við var að búast fyrir fullu félagsheimili.

 

Img_7608

Árný Margrét Sævarsdóttir

 

Hans og Grétar komu frá Sirkus Íslands og slógu í gegn og var greinilegt að ungir jafnt sem aldnir skemmtu sér vel. 

 

Img_7667

Hans og Grétar frá Sirkus Íslands

 

Lokaatriðið á svið var leikritið Karíus og Baktus og mátti sjá ungmenni koma stormandi út úr félagsheimilinu í miklu uppnámi yfir þeim félögum. Var þá ekki tekið í mál að fara inn aftur nema í fylgd fullorðinna. 

 

Img_7684

Karíus og Baktus

 

Á bíla- og tækjasýningunni fyrir utan voru einir níu Scania vörubílar sem sýndu þróunina í framleiðslu vörubíla hjá sænska fyrirtækinu Scania. Sá elsti var frá 1971 en sá yngsti frá 2017 og fleiri tæki og bílar voru til sýnis, þar á meðal einn sem var heimasmíðaður. 

 

Img_7634

Bolvísk heimasæta

 

Þá var einnig boðið uppá að fara á hestbak og krakkamót í Mýrarbolta var haldið í fyrsta sinn sem heppnaðist vel. Tunnulestin var svo vinsæl að sum barnanna slepptu því að fara í hoppukastalana en tóku sér þess í stað far eins og fínt fólk með hinni bolvísku borgarlínu. 

 

Img_7598

Borgarlína Bolungarvíkur

 

Síðdegis gátu gestir sótt sýningu Kómedíuleikhúsins á Einars leik Guðfinnssonar í Einarshúsi en einleikurinn var sérstaklega saminn í tilefni af 120 ára fæðingarafmæli Einars Guðfinnssonar þann 17. maí síðast liðinn.  

 

Hljómsveitin Made-In Sveitin lék svo á barnaballi eftir kvöldmat og fullorðisballi fram á rauða nótt. 

 

Það voru sælir söluaðilar og þreytt börn sem sofnuðu að áliðnum degi.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.