Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Fréttir | 28.4.2020 09:13:48 |
Tilkynning frá aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum

Á undanförnum vikum hafa takmarkanir á samkomum verið viðhafðar á Vestfjörðum umfram það sem auglýst hefur verið á landsvísu vegna hópsýkingar af völdum Covid-19 í Bolungarvík og á Ísafirði. Árangurinn af þessum aðgerðum er sá að tekist hefur að hemja hópsýkinguna. Engin ný smit hafa komið upp síðustu fjóra daga, engu að síður er mikilvægt að núverandi aðgerðum verði aflétt hægt.

 

Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum átti í morgun fund með landlækni, sóttvarnalækni og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra um næstu skref í aðgerðum gegn útbreiðslu Covid-19 á norðanverðum Vestfjörðum. Var niðurstaða fundarins sú að sóttvarnalæknir legði til við heilbrigðisráðherra að auglýsing ráðherra frá 21. apríl , með gildistöku 4. maí nk., gildi fyrir norðanverða Vestfirði, þ.e. Súðarvíkurhrepp, Bolungarvíkurkaupstað og Ísafjarðarbæ, með eftirfarandi takmörkunum tímabilið 4. maí kl. 00:00 til 10. maí 2020 kl. 23:59.

 

  • Í stað 50 manna samkomubanns, eins og verður á öðrum stöðum á landinu frá og með 4. maí, verði 20 manna samkomubann, einnig fyrir börn í leik- og grunnskólum.
  • Starfsemi sem krefst snertingar eða mikillar nálægðar milli fólks verði áfram óheimil.

 

Að svo stöddu er ekki unnt að greina nánar frá fyrirhuguðum takmörkunum, en ætla má að auglýsing heilbrigðisráðherra verði birt á allra næstu dögum. Auglýsingunni verður fylgt eftir með íbúafundi aðgerðastjórnar á Facebook, sbr. síðari tilkynningu þar um.

 

Í þessu felst að á norðanverðum Vestfjörðum verða tekin tvö skref inn á landslínuna varðandi samkomubann, annars vegar 4. maí og hins vegar 11. maí nk., að því gefnu að útbreiðsla sjúkdómsins verði okkur hagstæð og ekki komi til bakslags.

 

Aðgerðastjórn 27. apríl 2020


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.