Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Víkari vikunnar | 16.7.2012 13:23:35 |
Jóhann Frímann Rúnarsson

Jóhann Frímann Rúnarsson er víkari vikunnar að þessu sinni. Hann er búsettur í Reykjavík en það má með sanni segja að hjarta hans slái í Víkinni fögru. Jói, eins og hann er oftast kallaður, deilir með okkur hvað á daga hans hefur drifið frá útskrift úr Menntaskólanum á Ísafirði.


Ég útskriftaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Ísafirði vorið 2007 og ég var nú ekkert alveg með niðurneglt lífsplan á þeim tímapunkti, en ég ákvað að flytja til Reykjavíkur og skráði mig í líffræði í Háskóla Íslands.  Þetta nám reyndist vera líka svona blússandi skemmtilegt og útskrifaðist ég með BS-gráðu í líffræði frá HÍ vorið 2010.  Ekki nóg með það að ég hafi fengið gráðuna í hendurnar eftir þessi þrjú ár, heldur eignaðist ég stórkostlega frábæra vini svona í leiðinni, alls ekki verra.  Vitaskuld hef ég lagt mitt af mörkum við að breiða út fagnaðarerindið með því að taka þessa vini með mér vestur endrum og eins, til þess að koma því inn í hausinn á þeim hvað Vestfirðirnir eru frábærir – og Bolungarvík náttúrulega alveg sér á báti.  En þegar BS-gráðan var komin í hús ákvað ég bara að halda áfram í námi svona fyrst ég var ennþá í gírnum.  Þá hóf ég mastersnám í líf- og læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands, en ég er einmitt í því námi núna og hyggst ljúka því í febrúar næstkomandi.  Mastersverkefnið mitt snýst um stofnfrumurannsóknir og finnst mér það vera forréttindi að fá að leggja mitt af mörkum í svona þörfum (og að mínu mati ofurtöffaralegum) rannsóknum.

Bolungarvíkin er yndisleg út í gegn og eflaust hefur hver einasti Víkari vikunnar frá upphafi tekið þetta fram, en það var alveg best í heimi að alast upp í þessum fallega bæ.  Frelsið var þvílíkt og maður þekkti svo til alla.  Eins og ég hef verið ánægður með lífið í Reykjavík undanfarin ár er alltaf jafn stjörnugott og endurnærandi að koma heim í Víkina.  Ég er einmitt nýkominn að vestan eftir vel heppnaða markaðshelgi þar sem vantaði aldeilis ekki fjörið í mannskapinn.  Takk fyrir mig elsku Bolungarvík, ég hlakka óendanlega mikið til að kíkja aftur heim í sæluna seinna í sumar

Nafn: Jóhann Frímann Rúnarsson

Aldur: Akkúrat kvartaldargamall í dag

Maki: Enginn

Börn: Engin ennþá, en ég þykist þó eiga slatta í börnum systra minna

Draumabíllinn: Bjarni fósturpabbi er búinn að ala upp voðalega Benzhrifningu í mér, þannig að ætli ég verði ekki að segja einhverskonar Merecedez Benz fólksbíll.  Ég ætla ekki að blekkja neinn með því að segjast hafa mikið vit á bílum þannig að ég reyni ekki einu sinni að nefna einhverja ákveðna týpu.

Draumahúsið: Ekkert eitt ákveðið sem mér dettur í hug

Draumastarfið: Fjölbreytt og skemmtilegt (og ekki verra ef það er vel launað) starf hjá öflugu líftæknifyrirtæki

Fallegasti staðurinn: Skálavíkin góða, það er engum blöðum um það að fletta

Færir þú í teygjustökk: Ég segi já núna, en ég þori engu að lofa um hvort ég myndi leggja í það þegar á hólminn væri komið

Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks: Brosið, útgeislun hefur svo mikið að segja

Lífsmottó: Maður er alveg með nokkur á bak við eyrað, en ætli ég segi ekki “maður uppsker eins og maður sáir”. 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.