Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Víkari vikunnar | 23.7.2012 15:52:54 |
Víkari vikunnar: Birgitta Kristjánsdóttir

Við fengum víkaragelluna hana Birgittu Kristjánsdóttur til þess að vera Víkari vikunnar að þessu sinni. Það eru nokkur ár frá því hún og fjölskylda hennar fluttust frá Bolungarvík en einu sinni víkari - ávallt víkari á alltaf við.

 

Ég er dóttir Drífu Gústafsdóttur og Kristjáns Jóns (sonur Gumma bakk og Únnu). Ég á tvö systkini, þau Írisi Björk og Guðmund. 
Ég bjó í Bolungarvík frá því að ég var tæplega 2 þar til ég var 11 ára , en við fjölskyldan fluttum í Kópavog árið 1995. Nú hef ég því búið lengur í Kópavogi en í Bolungarvík en þrátt fyrir það er ég og verð Víkari í gegn.

Fyrir sunnan fór ég í Smáraskóla og lauk þaðan grunnskólaprófi. Að grunnskóla loknum lá leið mín í Verzlunarskóla Íslands og ég útskrifaðist þaðan af málabraut árið 2005. Ég útskrifaðist ári á eftir jafnöldrum mínum þar sem ég fór í skiptinám til Ekvador í S-Ameríku. Sú ákvörðun að fara í skiptinám er ein sú besta sem ég hef tekið. Ég lærði nýtt tungumál, kynntist nýrri og framandi menningu, eignaðist góða vini og öðlaðist reynslu sem ekki verður metin til fjár.

Að menntaskóla loknum ákvað ég að vinna í ár á meðan ég ákvæði hvað ég vildi læra. Að þessu ári loknu var ég engu nær. Eftir mikla umhugsun ákvað ég að prófa lögfræði og áður en ég vissi af var ég komin með BA-gráðu. Þá tók meistaranámið við. Ég ákvað að skella mér í skiptinám til Árósa í Danmörku en endaði svo á því að skipta alfarið yfir í Árósaháskóla. Um jólin tók ég svo (skyndi)ákvörðun um að flytja heim og nú er ég stödd í Víkinni að skrifa meistararitgerðina sem ég mun skila innan skamms -og þar með ljúka meistaranáminu. Hvað tekur við í framhaldi af því er óráðið enn.   

Þrátt fyrir að hafa flutt suður ung hef ég sem betur fer alltaf haldið tengslunum við Víkina. Hið árlega Víkarablót fyrir sunnan á þar stóran þátt en þó ber ekki síst að þakka „hinni heilögu þrenningu“ en það eru þeir frændur mínir Aron (#sjöbalamaðurinn), Elmar og Þröstur. Það hafa oftast verið skemmtilegustu partýin þegar maður hittir Víkara og rifjar upp gamlar sögur, því iðulega er mikið hlegið. Mér finnst alltaf jafn gott að koma vestur í kyrrðina og hitta ættingja og vini og ég vonast til þess að koma töluvert meira á komandi árum.

Nafn: Birgitta Kristjánsdóttir

Aldur: 27 ára

Maki: Enginn

Börn: Á engin sjálf. Ég er hins vegar nýlega orðin móðursystir og er agalega hamingjusöm með litla frænda minn.

Draumabíllinn: 1965 árgerð af Mustang finnst mér mjög flottur en ég er samt frekar nægjusöm þegar kemur að bílum.

Draumahúsið: Ófundið enn.

Draumastarfið: Ég veit það barasta ekki ennþá.

Fallegasti staðurinn: Galapagos eyjar.

Færir þú í teygjustökk: Mig langar miklu frekar í fallhlífarstökk. Það er á 5 ára planinu. 

Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks: Það er misjafnt. Oftast er það þó útgeislunin.

Lífsmottó: Ekkert eiginlegt mottó, svosem. Reyni bara að brosa sem mest og hafa gaman af lífinu. 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.