Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Víkari vikunnar | 30.7.2012 21:42:11 |
Víkari vikunnar - Ólafur Örvar Ólafsson

Það er alltaf gaman að fá fréttir af brottfluttum Bolvíkingum. Víkari gerir sitt í að grafa þá brottfluttu upp og flytja ykkur, lesendum, fréttir af þeim. Víkari vikunnar að þessu sinni er Óli Örvar Óla eða Ólafur Örvar Ólafsson.

Ég, sonur Óla Páls og Línu Ara, bróðir Ara Hjörvars flutti vestur í Bolungarvík er ég var fjögurra ára gamall, árið 1982. Eftir sjö búferlaflutninga í Víkinni var loks sest að, Höfðastígur nr. 18 var mitt aðalheimili í Víkinni. Eftir að hafa slitið barnaskónum í Víkinni með mörgum félögum, Valdimari, Viktori, Sigurjóni, Andra og fleirum þá var haldið á Akranes í Fjölbrautaskóla Vestrlands. Bjuggum saman þar við Jón Steinar og sóttum námið eins og enginn væri morgundagurinn.

Eftir þrjú ár á Skaganum var haldið til Keflavíkur en þanngað voru foreldrar mínir fluttir, reynt var að klára námið í Keflavík en sökum anna í íþróttum, dansiböllum og almennu partýstandi hafðist það ekki. Reyndi að klára það fyrir tveimur þremur árum en fótbrotnaði svo að ég þurfti að vera “gipsaður” frá nára og niður að tá, þannig að námið bíður enn á hakanum. Árið 2003 fór ég í lögregluskólann og útskrifaðist þaðan sama ár. Árið 2004 komst ég í Víkingasveitina og var þar í næstum fimm ár, á tímabili vorum við þrír saman Víkararnir í Víkingasveitinni sem taldi 42 menn og sá fjórði var víst nýhættur er ég byrjaði. Greinilega naglar sem koma úr Víkinni. Eftir að hafa sagt skilið við sérsveitina þá hef ég starfað sem rannsóknarlögreglumaður í Keflavík, hvort sem er um að ræða í almennum rannsóknum eða fíkniefnarannsóknum.

Mínar heimsóknir vestur hafa verið af skornum skammti því miður, fyrir utan vinnuferðir þangað í tvígang þá hef ég mætt þangað í brúðkaup hjá Jóni Steinari, einu sinni í frí og tvisvar á fermingarmót. Maður skammast sín fyrir að segja frá þessu. Stefni að því að gera betur í þessum málum í framtíðinni. Þó hittir maður nú nánast alltaf einhversstaðar Víkara, var að vinna um daginn eina helgi á Hvolsvelli og í einni eftirlitsferðinni upp í sveit þá rakst maður á Stínu Gangó, hápunkturinn á helginni, vægast sagt. Kom síðast vestur nú í júní síðastliðnum, þá var haldið fermingarmót hjá ´78 árganginum, sem endaði með balli í félagsheimilinu. Vel heppnuð helgi og vil ég þakka Sossu fyrir að hafa tekið vel á móti okkur.

Læt þetta duga, kveðja vestur frá Keflavík.
Óli Örvar

Nafn: Ólafur Örvar Ólafsson.
Aldur: 34 ára, ´78 árgangur.
Maki: Hildur Björnsdóttir, Valdimar Víðisson hagar sér þó oft eins og maki minn, frekar afskiptasamur greyið.
Börn: Tailleur 14 ára, Kristinn Arnar 4 ára og Birnir Ingi 2 ára.
Draumabíllinn: er ennþá að bíða eftir bílnum sem eyðir 0,5 á hundraðið.
Draumahúsið: er á góðum stað hér í Keflavík, væri til í sumarhús í Víkinni líka.
Draumastarfið: er í því, mjög gefandi að vera lögreglumaður. Væri hinum meginn við línuna ef starfið hefði ekki bjargað mér.
Fallegasti staðurinn: Bolungarvík, séð frá Óshlíðinni, með miðnætursólina þér við hlið.
Færir þú í teygjustökk: Búinn að því, minna mál en fólk heldur, láta sig bara vaða.
Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks? Nú, útlitið á því.
Lífsmottó: Láta ekki minn uppeldis og besta félaga, Valdimar Víðisson, gera mig sturlaðan með þessum leiðinlegum statusum sínum og vonlausu bíódómum á facebook. Honum er þó að takast verkið svei mér þá.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.