Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Víkari vikunnar | 13.8.2012 09:00:49 |
Víkari vikunnar : María Þ. Helgadóttir

Sæl!
María heiti ég og er mið dóttir Helga Birgis og Stínu Sæm. Eldri systir mín heitir Helga Svandís og sú yngri heitir Birgitta Elín. Fyrst eftir að ég flutti vestur, nokkra ára gömul bjó ég á Vitastígnum en flutti svo upp í Ljósalandið þar sem ég bjó alla tíð. Eftir grunnskólann fór ég einn vetur í Menntaskólann á Ísafirði en flutti svo suður til ömmu og afa (Bigga málara og Helgu Helga) og fór í Fjölbraut við Ármúla. Eftir einn vetur þar var ég komin með smá námsleiða og ákváð því að breyta aðeins til og gerast au-pair á eyjunni Jersey (Channel Island) sem er staðsett rétt fyrir utan Frakkland. Þar upplifði ég 10 frábæra mánuði, kynntist nýrri menningu, eignaðist margar skemmtilegar vinkonur og öðlaðist lífsreynslu sem ég bý enn að.

Ég kom heim í ágúst 1997, flutti vestur, fór að vinna og ætlaði svo aldeilis að skella mér aftur suður í skóla, en námið mátti bíða aðeins lengur því ári seinna eignaðist ég frumburð okkar Ómars (Skúla og Sjafnar), sem skírður var Friðrik Snær. Eftir nokkra mánuði í fæðingarorlofi og svo nokkra mánuði í vinnu var ég flutt aftur suður, farin að leigja í Seljahverfinu og komin aftur í nám við FÁ þar sem ég útskrifaðist sem stúdent af heilbrigðisbraut vorið 2002.

Enn og aftur flutti ég heim og vann um sumarið á sjúkraskýlinu en var svo flutt aftur suður um haustið og fljótlega hófum við Ómar sambúð og keyptum okkar fyrstu íbúð í Grafarvoginum. Ég fór svo að vinna á Hjúkrunarheimilinu Eir þangað til að við eignuðumst mið barnið okkar, hana Katrínu Maríu í mars 2005. Haustið eftir skellti ég mér svo í háskólanám og útskrifaðist sem þroskaþjálfi vorið 2009. Eftir að hafa unnið einn vetur sem þroskaþjálfi á leikskóla, seldum við íbúðina okkar og villtumst upp á Akranes þar sem við leigðum hús í eitt ár. Þar fæddist svo minnsta skottið okkar, hún Kristín Sjöfn sem verður 2 ára í nóvember. Nú erum við sest að hér á Akranesi, búin að kaupa okkur hús og líður bara mjög vel hér enda svolítið líkt Bolungarvík eins og hún var þegar við vorum að alast upp. Planið er svo að finna eitthvað áhugavert og spennandi framhaldsnám en þangað til ætla ég að vinna sem þroskaþjálfi á leikskóla hérna á Skaganum.

Þó svo að ég sé flutt suður er ég og mun alltaf verða Bolvíkingur. Sem betur fer á ég enn ættingja fyrir vestan sem við reynum að heimsækja reglulega. Var t.d. í minni þriðju heimsókn í ár núna í lok júlí þar sem m.a. var farið á ættarmót, á bryggjuna að veiða (nema hvað) og svo lét ég loks verða af því að labba upp að Ufsir í fyrsta skipti á ævinni ásamt því að tína bestu aðalbláber í heimi [:)]

Ég tel það hafa verið forréttindi að fá að alast upp í Bolungarvík enda erum við best og flest (erum allsstaðar)

Bið að heilsa heim  :)

Nafn: María Þórunn Helgadóttir
Aldur: 34
Maki: Ómar Skúlason
Börn: Friðrik Snær 14 ára, Katrín María 7 ára og Kristín Sjöfn 20 mánaða
Draumabíllinn: Væri alveg til í flottan BMW en læt Pattann duga núna
Draumahúsið: Er í draumahúsinu með draumagarðinum
Draumastarfið: Er enn að ákveða mig
Fallegasti staðurinn: Skálavík í góðu veðri
Færir þú í teygjustökk: ehhh.... NEI
Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks: Misjafnt, eftir því hvert ég horfi:)
Lífsmottó: Margur er knár þótt hann sé smár :)


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.