Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Víkari vikunnar | 20.8.2012 10:06:20 |
Víkari vikunnar - Kristín Ketilsdóttir

Ég heiti Kristín Ketilsdóttir og er dóttir Ingu Vagns heitinnar og Ketils Helgasonar, en saman áttu þau mig, Birnu (f.1987) og Ívar (f.1993). Ég bjó í Bolungarvík þar til ég hóf nám við Menntaskólann á Akureyri ef undanskildir eru 7 mánuðir í kínversku borginni Dalian árið 2000.

Ég á yndislegar minningar úr Bolungarvík.

Ég man fyrst eftir mér á Holtastíg 9 eða Ömmuhúsi. Þar sé ég pabba fyrir mér spilandi Bítlana, Billy Joel og David Bowie í stofunni sem var alltaf kalt í eða mömmu vera gera jólin tilbúin með því að setja rautt límband á eldhúsgluggann og skreyta hann svo með gervisnjó.
Við Birna systir, sem Stína Karvels kallaði/kallar alltaf Snuðru og Tuðru, eyddum öllum stundum saman út á lóð. Á sumrin settum við brauð á Krummastein og biðum eftir því að það kæmu krummar til að borða það eins og mamma sagði að þeir hefðu gert þegar hún var lítil. Ég beið aldrei nógu lengi til að athuga hvort þetta fengi staðfest heldur hljóp alltaf þegar enginn sá til og borðaði það því það var svo gaman að sjá Birnu skellihlæjandi af gleði yfir því að hún hefði gefið krumma að borða.

Á veturnar gerðum við snjókalla í garðinum eða renndum okkur í lautinni með Sveinborgu Hafliða. Allan ársins hring vorum við svo sendar niður í Bjarnabúð þar sem enginn þekkti okkur systurnar í sundur svo við vorum alltaf kallaðar Kristín og Birna, sama þótt við færum einar.
Ég man eftir að hafa fengið að labba með Danna og Halldóru Hallgríms í skólann í fyrsta bekk, ótrúlega áægð með mig. Svo leyfði Stína Halldórs mér að fara með sér á bókasafnið þar sem ég fékk allar bækur um Millý Mollý Mandý lánaðar.

Þegar Ívar var kominn úr vöggu fluttum við af Holtastígnum upp á Heiðarbrún í appelsínugula húsið. Ævintýraveröld sem það hús var með bílskúr, sánabaði og hangandi rólu inn á baði. Þar komum við Kristín Gríms og Sveinborg okkur upp skrifstofu þar sem fréttir fyrir bekkjarblaðið okkar voru skrifaðar; ein fyrirsögnin var á þá leið að það hefði sést til nemanda reykja í skólahlaupinu. Okkur fannst það ekki lítið sjokkerandi. Aðallega man ég samt eftir okkur borðandi sítrónubúðingsduft beint úr pakkanum.

Svo var það að við fluttumst á Holtastíg 11, en það er ekkert hús í þessum heimi sem mér þykir vænna um. Þar fengum við systurnar í fyrsta skipti okkar eigið herbergi. Mitt var málað rautt og Birnu grænt. Ég fékk að bjóða krökkunum í heimsókn hvenær sem ég vildi svo neðri hæðin varð að hálfgerðri félagsmiðstöð. Það voru ófá kvöldin sem við krakkarnir sátum inn í herbergi að hlusta á Puff Daddy og Creed. Stundum stálust stelpurnar fram til að kyssa strákana en ég var svo skotin í frænda mínum sem ég var viss um að ég mætti ekkert gera með að ég lét allt svoleiðis vera. Það var ekki fyrr en seinna að Birna Hjaltalín afsannaði það fyrir mér með því að eignast með honum barn.

Ég æfði sund öll grunnskólaárin, fór á snjóbretti, lærði á píanó í 10 ár og reyndi að spila fótbolta sem er alls ekki mín íþrótt.
Árin í Bolungarvík voru sem sagt, eins og ég sagði í byrjun, yndisleg. Það var með þau í fararnesti, og tímann í Kína, sem ég fluttist til Akureyrar eftir grunnskólann. Þar eignaðist ég mína bestu vini og útskrifaðist af náttúrufræðibraut MA árið 2007.

Þá fór ég til Kína og hér hef ég meira og minna verið síðan. Allt frá því ég kom hingað fyrst 15 ára gömul hefur þetta land haft sterk tök á mér og mér liðið eins og heima hjá mér. Af 33 héruðum hef ég komið til 25, sem segir eitthvað til um hvað ég hef ferðast mikið hérna. Ég líka alveg elska Kínverja.
Ég bjó í eitt ár út í sveit þar sem ég kenndi í hverri viku 1500 nemendum ensku. Súrrealískt komandi frá Bolungarvík. Pabbi gaf mér afnot af hjóli á meðan ég var þar og ég eyddi öllum frístundum mínum á því.
Fyrir tveimur árum fluttist ég til Shenzhen sem er borg við landamæri Hong Kong þar sem ég bý enn í dag og gæti hugsað mér að búa alltaf. Ég vinn við að undirbúa nemendur í að taka stöðupróf í ensku sem þeir verða að ná til að geta stundað nám í enskumælandi löndum. Ég æfi líka þríþraut á hverjum degi og hef verið að keppa út um allt Kína í sumar og gengið vel. Lenti í fyrsta sæti í síðustu keppni svo það verður spennandi að sjá hvernig gengur í næsta viku en þá er næst keppt.

Lífið er sem sagt gott. Það væri samt gaman að hafa Bolungarvík nær og fólkið þar sem mér þykir svo vænt um, en þá er gott að hafa síður eins og þessa. Ástarkveðja á alla heima! Sérstaklega Sossu frænku, Binnu ömmu og uppáhaldanna minna á Skýlinu.

 

Nafn: Kristín Ketilsdóttir
Aldur: 26 ára, fædd 1986
Maki: Enginn
Börn: Nei takk
Draumabíllinn: S-Works McLaren Venge frá Specialized
Draumahúsið: Húsið okkar á Holtastíg 11 sem mömmu minni tókst að gera að fallegasta heimili sem ég veit um
Draumastarfið: Gerir mig glaða og líf fólks betra
Fallegasti staðurinn: Ég á hann enn eftir
Færir þú í teygjustökk: Já
Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks: Hvort það er hærra en ég
Lífsmottó: Hamingja er valkostur - suma daga er erfiðara að vera glaður heldur en aðra og þá þarf maður að taka meðvita ákvörðun um að brosa


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.