Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Víkari vikunnar | 3.9.2012 17:20:59 |
Víkari vikunnar - Berglind Halla Elíasdóttir

Ég heiti Berglind Halla Elíasdóttir og er dóttir Kristínar Guðrúnar Gunnarsdóttur (Disdu) og Elías Jónatanssonar. Ég á tvö systkini, þau Gunnar Má, fæddur 1986 og Ernu Kristínu sem var fædd 2000 og það 29. febrúar. Ég hef búið í Bolungarvík alla mína ævi, að undanskildu einu skiptinámsári í Frakklandi. Ég útskrifaðist úr Glaðheimum árið 1998, Grunnskóla Bolungarvíkur 2008 og kláraði stúdentspróf við Menntaskólann á Ísafirði nú í vor, 2012. 

Það má vel vera að ég sé Bolvíkingur í húð og hár en ég eyddi þó miklum tíma hjá ömmu og afa á Ísafirði. Að fara þangað var eins og að fara á 5 stjörnu hótel á Spáni.


Á mínum uppeldisárum var ég límd við Ingibjörgu Snjólaugu, dóttur Guðnýjar á Miðdal og Jóa Hákonar. Við gerðum ótrúlegustu hluti saman, svo sem ''skreyttum'' bílinn minn með steinakroti, máluðum okkur með naglalakki og varalitunum hennar mömmu, hoppuðum fram af hæðinni í garðinum hennar Ingibjargar með handklæði á öxlunum - vissar um að við værum að svífa og pissuðum í klósettið hennar Ingibjargar á sama tíma, bak í bak! Áttum óteljandi handabönd með lögum sem við bjuggum til, 2 leynistaði og álfastein upp í skógrækt. Það sem við gerðum ekki saman er líklega hægt að telja upp með einni hendi. Ég bjó svo meira og minna heima hjá ömmu og afa yfir sumrin og fannst ég alltaf vera missa af öllu þannig ég passaði mig að kynnast örugglega öllum börnum sem ég sá þar, úti að leika. Þegar ég var hjá þeim var vel passað upp á að til væri nóg af frostpinnum sem með fylgdu límmiðar, piparkökur og popp. Ég fékk svo að eyðileggja útlitið á ískáps- og frystishurðinni með límmuðum sem fylgdu íspökkunum. Amma kallaði mig allskyns nöfnum, allt frá því að vera gullmoli og prinsessa í að vera kölluð bumbulína og litla poppkornið. Í dag er ég samt fiðrildið. Ég held ég hafi verið svona 5 ára þegar ég byrjaði að horfa á 'James Bond' myndir með Brynjari frænda en þó var í algjöru uppáhaldi hjá mér að horfa á 'Sunnudagsleikhúsið', 'Spaugstofuna' eða 'Þrek og tár'. Þá kláraði ég spóluna, spólaði til baka og horfði aftur þangað til að mamma kom og sótti mig. Ég kann enn þann dag í dag 'Fastir liðir eins og venjulega' og 'Þrek og tár' utanaf. Ég elskaði og elska enn að dunda mér í næði og var ég alltaf að búa mér til leikumhverfi í staðinn fyrir að nota keypta hluti. Ég bjó frekar til mitt eigið hús fyrir dúkkurnar mínar úr kössum og sjölum heldur en að nota fína dúkkuhúsið sem ég átti. Á dögum sem mér fannst ómögulegt að vera úti sat ég á efsta þrepinu í tröppunum heima að lita og teikna. Aldrei var ég þó beðin um að færa mig heldur var klofað yfir mig, ég hlæ að þessu í dag.

Í Grunnskóla vorum við 6 stelpur sem vorum mest saman, ég, Ingibjörg, Ebba, Hanna, Kristín og Viktoría. Við vorum líklega allar búnar að kynnast í 3.bekk og frá þeim bekk héldum við hópnum saman þangað til eftir 10.bekk en þá fór Hanna í burtu í skóla. Í menntaskólanum skildust svo leiðir smám saman en erum þó fínar vinkonur í dag. Í 10.bekk vaknaði sú hugmynd hjá mér, eftir námskeið sem haldið var yfir eina helgi, að fara í burtu sem skiptinemi. Mamma og pabbi hvöttu mig til að klára fyrsta árið í menntaskólanum fyrst og svo sjá hvort ég væri tilbúin í það að fara. Ég fór út í byrjun september 2009 til Frakklands og ég sé alls ekki eftir því. Ótrúlegt sem það ár breytti mér og mörgu í minni hugsun. Ég lærði að meta það sem ég á enn betur en ég gerði. Þó get ég ekki sagt annað en ég hafi eignast yndislega fósturfjölskyldu, frábæra vini, alls staðar frá og lærði nýtt tungumál.  Eftir að ég kom heim til Bolungarvíkur, sem var 12.júlí 2010, byrjaði ég að vinna á Sjúkraskýlinu. Ég kláraði að vinna þar yfir sumarið og við tók mikil vinna í menntaskólanum en ég ákvað að stefna á það að klára hann á 3 árum svo ég myndi útskrifast með mínum árgangi. Skólaárið eftir Frakkland var strembið en þess virði. Með skólanum vann ég á Snyrtistofunni Mánagull og byrjaði svo aftur á Skýlinu í maí 2011 og hef verið þar síðan, eða síðasti dagurinn minn þar var 17.ágúst síðastliðinn. Seinasta árið mitt í MÍ var heldur betur viðburðaríkt, og reyndar þau öll. Á fyrsta ári prófaði ég að taka þátt í Sólrisuleikritinu, sem þá var 'Draumur á Jónsmessunótt' og lék ég þar Hermíu. Ásamt því var ég í skipulagsnefnd Sólrisuhátíðarinnar það árið. Á öðru ári mínu tók ég aftur þátt í Sólrisuleikritinu en þá settum við upp 'Grænjaxlar'. Svo á lokaárinu var nóg að gera. Fékk hlutverk í 'Damskipið Ísland' sem Litli Leikklúbburinn setti upp og komst að í MORFÍs-liði skólans. Liðið komst í 8 liða úrslit en töpuðum því miður keppni á móti MS, sem var þó okkar besta keppni á tímabilinu. Einnig vann ég við uppsetningu 'Grease' sem var Sólrisuleikrit MÍ þetta árið og var afrakstur sýningarinnar hreint og beint glæsilegur og komu þar fram nokkrir Víkarar, að sjálfsögðu. Dimmission var alveg frábær dagur í alla staði og eiginlega best að mæta í bleikum flísbúning á ball. Held þó að útskriftardagurinn hafi toppað allt árið en hvíta húfan fór ekki af hausnum fyrr en ég var komin upp í rúm.

Núna er ég flutt suður og er byrjuð að þreyta nám við Tannlæknisfræðideild HÍ í tannsmíði. Námið heillar mig mjög en komast þó bara 5 áfram á næsta misseri þannig framundan er stífur lærdómur og vona ég að ég verði ein af þessum 5, að sjálfsögðu. Mér líkar það vel að vera komin til Reykjavíkur enda bý ég á mjög góðum stað ásamt Gunnari bróður. Nálægt skólanum, búðum og miðbænum. Gæti ekki verið betra, en hlakka þó til að koma heim í fríum.

Nafn: Berglind Halla Elíasdóttir

Aldur: Tvítug

Maki: Enginn

Börn: MacBook Pro 13' 2,5GHz i5

Draumabíllinn: Rauð bjalla

Draumahúsið: Æji bara e-ð Beverly Hills hús, eru þau ekki öll svakalega flott?

Draumastarfið: Leikkona og tannsmiður

Fallegasti staðurinn: Á erfitt með að gera upp á milli Bolungarvíkur og Russilly, Givry í Frakklandi (alger draumur)

Færir þú í teygjustökk: Ég held ég hafi ekki taugar í það, þó mig langi.

Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks: Augabrúnirnar og röddin.

Lífsmottó: Að gleðja annan gleður þig.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.