Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Víkari vikunnar | 24.9.2012 08:26:31 |
Víkari vikunnar - Silja Runólfsdóttir

Um leið og við óskum Silju Runólfsdóttur, nýkjörinni knattspyrnukonu ársins hjá BÍ/Bolungarvík til hamingju með titilinn þá finnst okkur upplagt að fá hana til þess að vera Víkari vikunnar að þessu sinni.

 

Ég er dóttir Runólfs Péturssonar (Olla, sonur Kristnýjar og Péturs) og Eyglóar Harðardóttur. Ég á einn uppáhaldsbróður Pétur Runólfssson.

Ég bjó í Bolungarvík frá því ég fæddist og þar til ég fluttist burt í menntaskóla 16 ára gömul árið 2006 en þá dró góðvinur minn Hafsteinn mig á Laugarvatn þar sem ég eyddi fjórum stórkostlegum árum á heimavist. Eftir útskrift þaðan árið 2010 lá leiðin í Háskólann í Reykjavík þar sem ég stunda nú síðasta árið mitt í BSc í Sálfræði.

Í Bolungarvík var yndislegt að alast upp. Hérna var ég umvafinn nánast allri fjölskyldunni minni, ömmurnar og afarnir og stórfjölsyldan flest búsett á svæðinu sem gerði uppvaxtarárin enn yndislegri. Kosturinn að geta bara farið út að leika án nokkurra áhyggja er svo mikill. Hérna eignaðist ég yndislega vini og var svo heppin að vera í nánum árgangi þar sem margt skemmtilegt gekk á. Ég hugsa að á tímabili höfum við stelpurnar allar átt sama kærastann þar sem eina vikuna var ég með þessum og svo var skipt í vikunni þar á eftir og svo koll af kolli þar til allir voru búnir að vera kærustur allra. Ég er hinsvegar ekkert viss um að þeir hafi vitað af því. Svona vorum við sniðugar, við deildum öllu. Hérna voru líka svo mörg tækifæri til að upplifa ævintýri og skapa sér spennandi sögu. Ég man svo vel eftir því að á hverju sumri þegar við frænkuskottur, ég, Kristný og Linda vorum litlar og fórum með ömmu Kristný upp í ból í Traðarhyrnunni með nesti. Þar spilaði hún á gítar og söng fyrir okkur meðan við skottuðumst um, týndum blóm og lékum okkur. 

Þrátt fyrir að hafa flutt að heiman nokkuð ung kom ekkert annað til greina en að koma heim á sumrin enda er Bolungarvíkin sjaldan fallegri en í blóma á sumrin, sannkölluð náttúruperla. Einnig kom ég heim eins oft og ég mögulega gat í öllum fríum í skólanum og geri enn. Jólin í Víkinni eru líka svo yndisleg. Ég gleymi því sjaldan þegar pabbi var byrjaður að elda fyrir ekki svo mörgum árum síðan jólamatinn fyrir allar aldir en þá stefndi í að það yrðu rafmagnslaus jól. Ég hef sagt það við vinkonur mínar áður og segi enn að það er eitthvað svo sjarmerandi að vera í þessum litla bæ, ófært héðan úr efribænum og niðureftir og að sjá ekki yfir götuna til Guggu frænku vegna veðurs. Þessi árstími á líka svo stóran sess í hjarta mér verandi ömmubarn Kristnýjar. Frá því ég man eftir mér hef ég mætt í jólaföndur til ömmu á hverju ári þar sem amma býður öllum barnabörnum og barnabarnabörnum til sín í heilan dag þar sem föndraðar eru jólagjafir, jólakort, hlustað er á jólatónlist og borðuð pítsa og japlað á nammi fram eftir degi.

Nafn: Silja Runólfsdóttir
Aldur: 22 ára
Maki: Enginn
Börn: Engin börn
Draumabíllinn: Einhvernveginn hefur Austin Mini alltaf heillað.
Draumahúsið: Ljósaland 9, eða eitthvað flott í París.
Draumastarfið: Þarf að vera skemmtilegt.
Fallegasti staðurinn: Bolungarvík á fallegu, stilltu vetrarkvöldi baðað í norðurljósum.
Færir þú í teygjustökk: Nei, ég er svo skelfilega lofthrædd að það fengi mig enginn til að henda mér fram af einhverjum palli .
Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks: Brosið
Lífsmottó:  Njóttu lífsins


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.