Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Víkari vikunnar | 9.10.2012 16:21:26 |
Víkari vikunnar - Magnús Traustason

Magnús Traustason er 21 árs Bolvíkingur. Foreldrar hans eru þau Hjördís Jónsdóttir og Trausti Bernódusson. Magnús er yngstur fjögurra systkina, elstur er Hjörtur, þá kemur Svava,  svo Elísabet og að lokum Magnús. 

Vinnuvélamaðurinn

Magnús eða Maggi eins og hann er oftast kallaður hefur komið víða við. Maggi lauk 8. bekk í Grunnskóla Bolungarvíkur en þá fluttist hann ásamt móður sinni á Akranes og lauk þaðan grunnskólaprófi. Að loknum grunnskólanum lá leiðin aftur heim til Bolungarvíkur þar sem Maggi fór að vinna hjá KNH um sumarið. Haustið 2007 skellti hann sér á Vélstjórnarbraut við Menntaskólann á Ísafirði.

Maggi vann hjá Ósafli á árunum 2008-2010, við að hreinsa frá berginu í Bolungarvíkurgöngunum . Hann ýtti út mest alla fyllinguna, úr berginu í fjallinu, sem síðar var notuð í nýjan veg bæði Bolungarvíkur- og Hnífsdalsmegin við göngin. Árið 2010 missti hann vinnuna eins og svo margir á þeim tíma. Maggi leit á það sem tækifæri sem hann nýtti til þess að fara aftur í Menntaskólann á Ísafirði, í þetta sinn á Félagsfræðibraut. „Ég er búinn að vera fastur í þeim skóla síðan þá“ segir Maggi.

Skemmtikrafturinn

Árið 2008 fór Maggi að byrja að troða upp, þá að spila og syngja. Aðspurður um fyrsta „giggið“ segir hann: „ Mig minnir að það hafi verið á einhverjum viðburði hjá Oddfellow árið 2008, þá komum við Elsa, Elísabet, systir fram“.

Það féll Magga vel úr hendi að koma fram, spila, syngja og leika og hélt hann sig því á þeirri braut. Árið 2010 setti Litli leikklúbburinn á Ísafirði upp söng- og leikdagskránna Vegir liggja til allra átta undir leikstjórn Elfars Loga Hannessonar og tók Maggi þátt í þeirri uppsetningu.

Það kemur eflaust mörgum á óvart að Maggi hefur hvorki lært söng né lagt ríka stund á hljóðfæranám. „Reyndar þá lærði ég á gítar í eitt ár, en ég varð að hætta vegna meiðsla“ segir Maggi og brosir. Á sínum yngir árum í Grunnskóla Bolungarvíkur var Maggi í miklum blásturshljóðfærabekk og lærði þá á hin ýmsu blásturshljóðfæri og fór m.a. á Lúðrasveitamót í Keflavík þegar hann var 11 eða 12 ára. „Ég var plataður til þess að halda áfram“ segir Maggi. Núna í haust hóf hann söngnám og telur hann það spennandi og skemmtilegt nám.

Félagslífið og leiklistin

Eftir að Maggi hóf aftur nám við Menntaskólann á Ísafirði fór hann að taka virkan þátt í félagslífi skólans. Þá gekk hann í LMÍ , Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði, og tók þátt í uppsetningu á leikritinu Grænjaxlarnir og fór þar með fimm smáhlutverk.

Maggi bauð sig síðar fram til formanns LMÍ. Sem formaður settu hann og samstarfsmenn hans upp leikritið Grease sem sýnt var sjö sinnum fyrir troðfullu húsi og hlaut sýningin góða dóma. Maggi fór með eitt af burðarhlutverkunum í leikritinu þar sem hann lék töffarann Danny. „Ég var ótrúlega stressaður fyrir þetta allt saman. En sem betur fer er Halldóra Rósa Björnsdóttir leikstjóri ótrúlega seig og allt var ekkert mál hjá krökkunum og öllum þeim sem tóku þátt í uppsetningunni“ segir Maggi. „Þetta einkenndist af jákvæðni og spennu, allir lögðu sig fram þannig ég fór að róast í febrúar, þegar ég sá að þetta gengi allt saman upp.“ 

Magnús segist fyrt og fremst hafa farið í menntaskóla til þess að komast í leiklistarskóla. „Ég hef mikinn áhuga á sviðslist, það að vera performer  er stórkostlegt og það er eitthvað sem ég vil leggja fyrir mig. Ég hef gaman af því að vera í sviðljósinu, svo lengi sem einhver nennir að hlusta á mig“ segir Maggi kátur. „Það er einhverskonar víma sem umliggur mann þegar maður hefur komið fram og tilfinning að koma fram er stórkostleg.“

Draumur Magga er að komast í leiklistarskóla hér eða jafnvel erlendis. „Draumurinn er að fara til Englands og vera þar í eitt ár að læra og leika, það væri vitanlega frábært að læra almennilega þessa blessuðu ensku.“

Margir hafa séð myndina Slay Masters sem sýnd var í Félagsheimilinu í Bolungarvík páskana 2011. Bolvíkingurinn Snævar Sölvi Sölvason leikstýrði þeirri mynd og lék Maggi eitt af hlutverkunum í þeirri mynd af stórkostlegri snilld. 

Hundurinn

Þessa dagana bregður Maggi sér í hlutverk Hundsins í leikritinu Kötturinn sem fer sínar eigin leiðir. „Þetta er leikrit sem er ætlað börnum, húmorinn er samt fyrir alla“ segir Maggi. Halldóra Rósa Björnsdóttir leikstýrir verkinu. „Halldóra er mjög fær í sínu fagi, ég treysti henni fullkomlega, í alvöru, ef hún segði mér að koma nakinn fram, þá myndi ég gera það!“ segir Maggi alvarlegur.  Það er Litli Leikklúbburinn sem sýnir leikritið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

„Smælar“ framan í heiminn

„Maður verður að smæla framan í heiminn“ segir Maggi. „Ég er kannski ekki mikill pælingamaður en hef samt þó nokkrar skoðanir. Fólk er mismunandi mikið óþolandi, sem betur fer segi ég nú bara, sem betur fer er fólk ólíkt, annars væri þetta allt saman bara leiðinlegt. Ég væri samt orðinn nett geðveikur ef ég væri ekki í kringum fólk.“ Maggi segist alltaf vera að breyta til, hann telur það vera vegna þess að hann sé pínu skrítinn. „Ég held bara mínu striki í því sem ég geri, fer þær leiðir sem ég tel bestar og reyni að vera almennilegur við fólk“ segir Maggi spekingslega.

Eins og fram hefur komið hefur Maggi komið víða við. „Ég tel að ég hafi þroskast hvað mest þegar ég starfaði á Skammtímavistun, sú vinna og vinnan hjá Ósafli var hvítt og svart. Ég fór úr því umhverfi að reka við, ropa og láta eins og vitleysingur í kringum fullorðna karlmenn í rólegt og yfirvegað umhverfi þar sem ég var aðstoðarmaður einstaklinga sem þurftu virkilega á aðstoð minni að halda. Svoleiðis vinna gefur manni mjög mikið.“

Fínt að fá vinnu við það sem maður hefur gaman af

Maggi segir það best að vera hérna fyrir vestan. „Það er samt erfitt að því leytinu til að stóri bróðir er alltaf að grenja í mér að koma suður“ segir Maggi þegar hann er spurður út í framtíðina. Stefnan er tekin suður til Reykjavíkur næsta haust, svo segja má að stóri bróðir geti farið að vera rólegur.

Í rúmt ár hefur það blundað í Magga að fara að spila á pöbbum:  „Ég spilaði hjá Dóra og Sigurlaugu í Húsinu tvö kvöld í röð, föstudagskvöld með Denna (Steingrími Guðmundssyni) og laugardagskvöld með Gumma Hjalta (Guðmundur Hjaltason). Ég sé eiginlega eftir því að hafa ekki byrjað fyrr, það er svo gaman að hafa vinnu af því sem maður hefur gaman af“ segir Maggi að lokum.

Nafn: Magnús Traustason
Aldur: 21 árs
Maki: Aleinn
Börn: Engin
Draumabíllinn: fyrir utan Toyota Carine E 96"model og CHRYSLER 300C HEMI
Draumahúsið: Mig langar að byggja mitt eigið
Draumastarfið: Leiklista- og tónlistabransinn
Fallegasti staðurinn: Klárlega Bolungarvík í heild sinni og dýrð, vill líka segja Ingjaldssandur.
Færir þú í teygjustökk: Bara ef það væri til þess a bjarga líf einhvers í fjölskyldunni, tel það samt hæpi𠃺
Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks: hvernig má koma að þeim í spjalli og húmor. Það eru allir misjafnir með það að gera.
Lífsmottó: ég reyni að koma fram við aðra eins og ég vill að aðrir koma fram við mig. Hakúnamatata !


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.