Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Víkari vikunnar | 15.10.2012 11:48:40 |
Víkari vikunnar - Halldóra Jónasdóttir

Laugardaginn 13. október var leikritið Danskeppnin sýnt í Félagsheimili Bolungarvíkur við góðar undirtektir. Leikstjóri verksins er Víkari vikunnar að þessu sinni, Halldóra Jónasdóttir, dóttir hjónanna Sólrúnar Geirsdóttur og Jónasar Guðmundssonar.  Við gefum Halldóru völdin yfir pennanum.

Ég er búin að vera í Menntaskólanum á Ísafirði í tvö ár og stefni á að útskrifast í vor, taka mér frí frá námi og reyna að komast sem Au-pair til Englands. Ég ætlaði að fara í leikhúsfræði í Listaháskólanum en hef ákveðið að bíða með það og sjá hvort ég komist ekki til útlanda fyrst að ég útskrifast á þremur árum í stað fjögurra. 


Ég byrjaði með leiklistarhópinn ásamt tveimur vinum mínum árið 2009 og gekk það bara ótrúlega vel. Við höfum sett upp tvær litlar sýningar í grunnskólanum, skemmt hér og þar og svo höfum við sett upp tvær stærri sýningar í Félagsheimilinu, Vináttubönd og leikritið sem sýnt var á laugardaginn, Danskeppnin. Upphaflega voru krakkarnir bara frá Bolungarvík, en í þetta skiptið ákvað ég að bjóða nokkrum stelpum úr nágranna bæjarfélögum að vera með. 

Við byrjuðum að æfa  leikritið Danskeppnin í vor, en það æfingatímabil gekk svolítið hægt.Í byrjun júlí fórum við að gera nokkur skemmtileg myndbönd sem öll má finna inná síðunni minni á Youtube, youtube.com/halldora73. Það var svo í lok ágúst sem við byrjuðum að æfa leikritið af fullum krafti.
Leikritið er byggt á tölvuleik sem kallast Surviving Highschool en handritið hefur breyst mjög mikið í æfingaferlinu og orðið því öðruvísi en lagt var upp með í byrjun. Persónusköpunin er einnig allt öðruvísi.

Ég fór fyrst í leikhús þegar ég var þriggja ára og þá sá ég Galdrakarlinn í Oz. Eftir það helltist yfir mig leikhúsbaktería sem kom og fór þangað til ég var 15 ára.
Ég fór á Söngvaseið í Borgarleikhúsinu 2009, og hef ekki viljað yfirgefa leikhúsið síðan. Þegar ég sá hvað krakkarnir í Reykjavík voru góðir datt mér í hug að í Bolungarvík leyndust líka hæfileikar sem ef til vill gætu blómstrað með minni hjálp. Ég byrjaði á að auglýsa svokallaðan Listaklúbb og um 30 krakkar mættu á fyrstu æfinguna. Aðeins eru eftir fjórar stelpur úr upprunalega hópnum, og aðeins tvær þeirra hafa verið með í öllu.

Fyrir tveimur árum fékk ég áhuga á íslenskum leikurum og ákvað að búa til spil með þeim á. Systir mín hjálpaði mér við það og við prentuðum þau út heima. Þau áttu að vera bara til einkanota og ætluðum við samanað eiga einn bunka. Ég ákvað samt að spyrja eina leikkonu sem hafði sýnt spilunum áhuga, hvort hún gæti nokkuð áritað spilið fyrir mig ef ég myndi senda henni það í pósti og hún myndi þá senda það til baka. Hún tók vel í það og þá ákvað ég að spyrja fleiri leikara hvort þeir væru til í að árita spil fyrir okkur systur og þegar leið á sumarið vorum við komnar með 80 árituð spil frá öllum helstu leikurum landsins.

Ég hef gríðarlegan áhuga á leiklist og öllu sem því tengist. Ég vil hvergi annarsstaðar vera heldur en í leikhúsinu, og er nú á leiðinni suður á fimmtudaginn og á pantaða 6 miða í leikhús á fjórum dögum.Nafn: Halldóra Jónasdóttir
Aldur: 18 ára
Maki: Enginn
Börn: Engin ennþá, en vonandi eftir svona 10 ár 
Draumabíllinn: Lítill grænn bíll, tegund skiptir ekki máli
Draumahúsið: Lítið grænt hús í miðæ Reykjavíkur.
Draumastarfið: Leikari
Fallegasti staðurinn: Við sjóinn í Bolungarvík
Færir þú í teygjustökk: UU já! Það væri gaman!
Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks: Augun
Lífsmottó: Allt er vænt sem vel er grænt, nema það sé grænmeti


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.