Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Víkari vikunnar | 3.7.2013 18:00:00 |
Víkari vikunnar - Gústaf Gústafsson

Undanfarið hefur verið mikið að gera hjá viðburðastjóra Bolungarvíkurkaupstaðar, Gústafi Gústafssyni. Gústaf hefur meðal annars séð um skipulagningu dagskrár á sjómannadaginn og á markaðsdagshelgina. Það er ekki úr vegi að kynna Bolvíkinga og nærsveitunga fyrir Gústaf.
Við gefum Gústaf orðið.  
- - - - -
Nafn: Gústaf Gústafsson
Aldur: Fertugur, fæddur ´73
Maki: Sigrún Bragadóttir
Börn: Hilmar, Sigmundur Bragi, Soffía, Gústaf Már og María Dís
Draumabíll: Mercedes Bens ML
Draumahús: Kastali
Draumastarfið: Úff
Fallegasti staðurinn: Rauðasandur
Færir þú í teygjustökk: Nei
Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks: Augun
Lífsmottó: Ferðalagið, ekki áfangastaðurinn

 

Árið 2010, þegar ég sinnti starfi markaðs- og fjáröflunarstjóra Krabbameinsfélags Ísland opnaðist möguleiki á að taka við starfi sem forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða. Efri hluta æsku minnar aldist ég upp á Patreksfirði og kann vel við mig á Vestfjörðum, við heimsækjum foreldra mína á Patró reglulega og það var góð stemning fyrir því innan fjölskyldunnar að slá til og flytja vestur, sem og við gerðum. Þann vetur var konan mín reyndar að klára meistaragráðu í fjármálastjórnun fyrirtækja hjá Háskóla Íslands þannig að ég var mestan hluta fyrsta vetrarins "einstæður" með börnin hér í Víkinni en það var líka ágæt lífsreynsla.

Ég er fyrst og fremst fjölskyldumaður, mér líður best með fullt að grislingum í kringum mig og hef gaman af því að fá ættingja og vini í heimsókn. Ég er mikill áhugamaður um alla veiði og þá sérstaklega stangveiði. Ég drep eingöngu dýr sem ég borða og það er mér mikilvæg regla í lífinu. Það á við um allar lífverur, hvort sem um er að ræða geitunga, hreindýr eða köngulær. Það eru reyndar örfáar undantekningar á þessu en þá er um að ræða sjálfsvörn eins og þegar minnkurinn féll fyrir níu járninu mínu í Leirunni um árið.

Forfeður mínir eru fæddir á Patreksfirði, í Tálknafirði, á Suðureyri, í Svarfaðardal, Reykjavík og Biskupstungum að því er ég best veit og þó gæti ég verið að gleyma einhverju. Ég er "prinsipp" maður og hef mikla þörf fyrir réttlæti og sanngirni. Ég reyni að tala aldrei illa um aðra og koma auga á hið góða í fólk, þó það reynist mér stundum erfitt. Ég er að eðlisfari mjög jákvæður en læt stundum vont veður fara í taugarnar á mér. Ég hef gaman af að læra og á það til að skrá mig í hið skringilegasta nám, ánægjunnar vegna. Ég vinn eingöngu við verkefni sem mér finnast skemmtileg og það hefur reynst mér vel.

Ég á mér einnig furðuleg áhugamál, eins og fluguhnýtingar og smíði á fjarstýrðum flygildum. Ég prófa yfirleitt það sem mér dettur í hug en reyni að vera nýtinn. Ég kaupi aldrei nýja bíla og hef gaman af að stússast í gömlum hlutum, þó ég hafi nánast ekkert vit á vélum.

Ég er frekar heimakær en virðist einhverra hluta vegna alltaf vera á einhverju ferðalagi hingað eða þangað.

 

 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.