Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Víkari vikunnar | 19.11.2013 06:02:21 |
Víkari vikunnar - Guðbjörn Hólm

Að þessu sinni er Guðbjörn Hólm Víkari vikunnar. Guðbjörn komst nýlega í fréttirnar fyrir gott gengi á bikarmóti IFBB þar sem hann lenti í öðru sæti í flokknum Vaxtarrækt unglinga. Guðbjörn fjallar um búsetu sína í Bolungarvík á einlægan hátt, gefum honum orðið.

 

Ég er núna búsettur á Akureyri en bjó í Bolungarvík með mömmu minni henni Díönu, Bjarka stjúpföður mínum og systkinum mínum tveimur, þeim Hjálmari Erni og Þórdísi Elínu. Ég bjó þar frá 7 ára aldri og þar til ég varð 18 ára en á undan því hafði ég búið með móður minni á Ísafirði, þar sem ég fæddist, og í Noregi. Ég á líka fjölskyldu á Ísafirði en faðir minn hann Veigar, Didda konan hans og systur mínar þrjár, þær Særún Thelma, Kolfinna Rós og Sólveig Perla búa þar en María Birna systir mín og bróðir minn Marthen Elvar eltu mig hingað til Akureyrar.

Þegar ég var orðinn 18 ára tók ég eina stærstu og áhrifamestu ákvörðun lífs míns. Að flytja til Akureyrar þar sem ég þekkti ekki eina einustu manneskju (þá hafði ég aðeins komið tvisvar hingað) og þrátt fyrir að hafa verið með kvíðahnút í maganum fyrsta mánuðinn á nýjum og óþekktum stað hef ég aldrei séð eftir þessari ákvörðun. Mér gekk vel í skólanum og fótboltanum fyrir vestan en hafði aldrei fundið mig þar. Fáir deildu sömu áhugamálum og ég og er skemmst frá því að segja að alla mína tíð í Bolungarvík varð ég fyrir einhvers konar einelti eða hunsun frá skólafélögum, liðsfélögum o.s.frv. svo ég leitaði að nýju upphafi þar sem ÉG var í aðalhlutverki í eigin lífi. Ekki leið á löngu þar til ég hafði eignast óteljandi nýja vini og kunningja á nýja staðnum. Einskær tilviljun réði herbergisfélaga mínum á heimavist MA og VMA en við urðum virkilega góðir vinir strax í byrjun og hef ég eignast bestu vini sem hægt er að hugsa sér, hér á Akureyri.

Ég hef byggt sjálfan mig upp með hjálp vina minna og reyni að taka þátt í flestu sem mér býðst til að öðlast með því betri innsýn í heiminn og það sem hann hefur upp á að bjóða. Auðvitað hef ég þó farið í gegnum allar tilfinningarnar sem reynslan af eineltinu olli. Reiði, þunglyndi, neikvæðni og allur skalinn hefur tekið sinn toll og óska ég engum að lenda í þeirri hræðilegu reynslu sem einelti er, en í dag er ég í raun bara frekar þakklátur en reiður þeim sem hunsuðu mig eða lögðu í einelti. Því eins og merkur maður sagði eitt sinn: ,,Strength does not come from winning. Your struggles develop your strengths. When you go through hardships and decide not to surrender, that is strength.” Þessi reynsla gerði mig að þeim sem ég er í dag og er ég stöðugt að bæta þá manneskju sem ég er og komast nær því sem ég vil verða.

Ég útskrifaðist af félagsfræðabraut frá Verkmenntaskólanum á Akureyri 2010 með mjög góða einkunn og fór svo beint í Háskólann á Akureyri þar sem ég lærði sálfræði og kennarafræði. Ég hætti námi árið 2012 eftir að hafa lent í háorkubílslysi um sumarið sem hafði mikil áhrif á mig. Það fékk mig til að hugsa mikið og áttaði ég mig á því að ég vissi í raun ekkert hvað mig langaði að verða svo ég eyddi ekki meiri tíma og orku í það og setti námið á bið. Ég tók lífið í mínar eigin hendur og geri nú það sem mig langar til í lífinu og reyni að láta mér líða vel. Ég hef afrekað mikið, að mér finnst, en ég reyni líka að gefa mikið af mér og vera ekki sjálfselskur, hlúa að þeim sem mér þykir vænt um og gefa líka af mér til samfélagsins.

Í dag vinn ég sem stuðningsfulltrúi í grunnskólanum Brekkuskóla þar sem ég aðstoða einhverfan dreng, syng og er lagasmiður í þungarokkhljómsveit, æfi stíft líkamsrækt og tók þátt í nýafstöðnu Bikarmóti IFBB þar sem ég lenti í öðru sæti í flokknum Vaxtarrækt unglinga.

Nafn: Guðbjörn Hólm.

Aldur: 23 ára, 10 mánaða og 12 daga.. sirka.

Maki: Enginn maki.

Börn: Engin, bara hundurinn Tumi Þumall.

Draumabíllinn: Er enginn bíladellukall en þessir gömlu, amerísku “muscle cars” eins og Ford Mustang Boss eða Shelby Cobra hafa alltaf heillað mig mikið.

Draumahúsið: Hef ekki mikið spáð í það en nýmóðins og fín íbúð á flottum stað og með góðu útsýni væri mjög fín. Skemmtilegast væri náttúrulega að hanna hana sjálfur… Eða bara húsið hans Tony Stark í Iron Man. Það væri fínt líka.

Draumastarfið: Hef ekki enn fundið það því áhugasvið mitt er vægast sagt vítt en á meðan það veitir mér hamingju er það tímans virði. Mörg störf hafa komið upp sem draumastarf, allt eftir því hve sterkt hvert áhugamál er hverju sinni og koma þau öll enn til greina. Má þar til dæmis nefna atvinnutónlistarmaður þar sem ég hef samið heilan helling af tónlist og textum, allt frá þungarokki yfir í klassík og frá raftónlist yfir í ljóð, tónskáld fyrir kvikmyndir eða þætti, leikari, auglýsingagerð eða auglýsingasálfræði, kennari, arkítekt, íþróttasálfræði, þjálfun eða eitthvað tengt fitness og vaxtarrækt og svo mætti lengi, lengi telja. Ég hef alltaf verið mjög heillaður af list, fagurfræði, vísindum og íþróttum svo það kemur eflaust fáum á óvart sem þekkja mig að ég hafi mikinn áhuga á vaxtarrækt og fitness en það er blanda af þessu öllu saman. Ætli ég sé ekki að reyna að segja að ég myndi helst vilja fjölbreytt starf þar sem ég fengi frelsi til að skapa, þyrfti að halda mér í góðu formi og líta vel út, ynni með fólki og börnum en fengi líka tíma til að vinna einn… Haha, látið mig vita ef þetta starf er til.

Fallegasti staðurinn: Ætla mér að finna hann í desember þegar ég fer í mánaðarferð til Indlands og Sri Lanka með nokkrum af bestu vinum mínum.

Færir þú í teygjustökk: Hiklaust! Adrenalínfíkill og vil helst prófa allt slíkt.

Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks: Viðmótið gagnvart öðrum og líkamstjáning. Jákvætt og opið, einlægt og fordómalaust fólk heillar mest.

Lífsmottó: Sú persóna sem ég er í dag er sífellt að þroskast, breytast og þróast með aðstoð fólksins sem ég hitti og upplifana sem ég verð fyrir á lífsleiðinni, en ég hef komist að því að nokkrar reglur eiga alltaf við (þó ekkert endilega í þeirri röð sem ég skrifa þær) en þær eru að: allt byrjar sem hugsun svo ef maður stjórnar hugsuninni, trúir á hana og sjálfan sig þá rætist hú. Ég passa mig á því að dæma engan og ekkert fyrr en ég hef kynnst því og taka öllu með opnum hug.tala ekki illa um aðra, og hef ég ósjálfrátt í gegnum tíðina lifað eftir þeirri gullnu reglu (þrátt fyrir að vera ekki mikill kirkjunnar maður enda á reglan við alla) að koma fram við aðra eins og ég myndi vilja að aðrir komi fram við mig. Hljómar eflaust klysjukennt fyrir mörgum en þannig virkar þetta allt saman. 


 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.