Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Víkari vikunnar | 29.1.2014 19:43:11 |
Víkari vikunnar - Ásta Björg Björgvinsdóttir

Ásta Björg Björgvinsdóttir er víkari vikunnar að þessu sinni. Ásta er dóttir Guðrúnar Stellu Gissurardóttur og Björgvins Óskarssonar, fósturfaðir Ástu er Jóhann Hannibalsson sem oftar en ekki er kenndur við Hanhól í Syðridal. Þegar Ásta flutti til Bolungarvíkur ásamt móður sinni gekk hún í Grunnskóla Bolungarvík og fór að honum loknum í Menntaskólann á Ísafirði. Það má með sanni segja að eftir menntaskólann hafi ævintýraboltinn aldeilis farið að rúlla.


       Ásta Björg er lagahöfundur lagsins „Eftir eitt lag“ sem er eitt af þeim tíu lögum sem keppa um sæti í Eurovision. Lagið verður flutt  í fyrri lotu Söngvakeppni sjónvarpsins laugardaginn 1. febrúar. Höfundur texta lagsins er Bergrún Íris Sævarsdóttir og flytjandi er Gréta Mjöll Samúelsdóttir.

 

Við gefum Ástu lausan tauminn og fáum að heyra um þau ævintýri sem hún hefur lent í ásamt aðdraganda lagsins sem sent var til leiks í Söngvakeppni Sjónvarpsins.

 

Eftir Menntaskólann á Ísafirði prufaði ég nokkur fög í háskólanum en endaði þó í að læra að verða tónmenntakennari því undirniðri átti tónlist hug minn allann. Eftir þrjú skemmtileg ár í Kennaraháskólanum sem sameinaðist á því tímabili Háskóla Íslands lá leiðin út til London þar sem ég lærði hljóðvinnslu og upptökutækni við SAE Institute. Það var yndislegt að búa í London og sú borg á stóran stað í hjarta mínu. Ég lærði svo ótrúlega mikið á sjálfan mig og eftir að ég kom heim aftur vissi ég að það var meira sem ég átti eftir að upplifa í heiminum svo nokkrum mánuðum síðar var ég komin hinumegin á hnöttinn, til Nýja Sjálands. Ég fór þangað á vegum AUS og vann sem sjálfboðaliði í frístundastarfi. Hitti ótrúlega frábært fólk sem stendur mér nærri og eiginaðist vini sem endast fyrir lífstíð. Í Nýja Sjálandi lagði ég ástfóstri við tónlistina aftur og stofnaði band með vinkonu minni Amöndu. Við ákváðum að senda inn lag í keppni, tja, ákváðum. Okkur var bent á þessa keppni því fólk var farið að frétta af litla bandinu okkar sem var á algjöru frumstigi og við hvattar til að taka þátt. Eina málið var að við vorum ekki búin að taka upp nein lög og fresturinn rann út daginn eftir. Við fórum strax í að redda studioi sem kunningi okkur hjálpaði okkur með. Tókum upp lagið þá um kvöldið og sendum inn næsta morgun. Til að gera langa sögu stutta þá unnum við keppnina, með 98% atkvæða. Lagið var því spilað í útvarpinu og verðlaunin voru að spila á tónlistarhátíð fyrir 20.000 manns. Svolítið stórt sem fyrsta gig fyrir litla nýstofnaða bandið okkar. En við tókum þessu tækifæri fagnandi. Í framhaldinu vorum við svo fengnar til að spila á fleiri hátíðum, meðal annars einni DubStep hátið sem var mjög sérstök lífsreynsla. Við vorum opnunarbandið. Rétt fyrir opnun hátíðarinnar skall á mjög vont veður, stormur. Svo öll uppsetning þurfti að bíða. Opnunin frestaðist því um einhverjar klukkustundir. Þegar fór að hægja á var ákveðið að keyra þetta í gang nema þegar við fórum á svið var enn verið að setja upp. Við létum það þó ekki á okkur fá og byrjuðum að spila, í þriðja laginu varð allt rafmagnslaust og við stóðum þarna í myrkrinu, á sviðinu, með ískalda fingur að frjósa úr kulda og biðum eftir að geta haldið áfram. Þessu var þó kippt í lagið og við kláruðum settið og brunuðum um nóttina á enn aðra hátíðina, bara nokkuð sáttar við þessa “upplifun”. Þarna úti fengum við tilboð að fara í tónleikaferð með öðru nýsjálensku bandi sem við þurftum að afþakka þar sem ég var að flytja í burtu. Þaðan lá leiðin til Brasilíu þar sem ég hafði hugsað mér að læra á slagverk. Ég komst fljótlega að því að Brasilíu menn eru mjög afslappaðir og segja í raun yfirleitt bara það sem þeir halda að þú viljir heyra. Sem endaði í því að ég lærði ekki á slagverk en nýtti tímann í að semja og upplifa. Amanda kom með mér fyrstu 5 vikurnar og við áttum frábærar stundir þarna að njóta lífsins, skoða, spila og læra portúgölsku. Eftir að hún fór lenti ég í því að verða rænd, eða kortið mitt var afritað og allt tekið út af því. Þannig að ég var í Ríó, með tómt veski en fría gistingu í þrjár vikur í viðbót. Í stað þess að truflast af stressi og vonbrigðum ákvað ég að njóta þess að vera til og athuga hvernig og hvort ég gæti komist af. Eftirá að hyggja var þetta það besta sem gat komið fyrir. Ég kynntist fullt af frábæru fólki. Slakaði algjörlega á, naut hvers dags í afslöppun, las á stöndinni og samdi tónlist á kvöldin. Svo að ég fór heim með stórt bros á vör. Þegar ég kom til Íslands aftur ákvað ég að sækja um í tónlistarskóla FÍH því þarna úti áttaði ég mig loksins alveg á því að tónlist var of stór partur af mér til að geta haft í aukahlutverki. Ég fór í inntökupróf og komst strax inn og lagði og legg stund á Jazzsöng. Síðasta haust bætti ég við mig Jazz píanói og á þessu ári byrjaði ég að læra á Trompet (reyndar ekki við FÍH en í gegnum kennaradeild FÍH þar sem nemandi þar er að kenna mér). Þessi ákvörðun mín að fara í FÍH hefur gefið mér ótrúlega margt. Ég hef kynnst svo mikið af frábæru fólki sem varð til þess að við nokkur stofnuðum bandið Solar. Núna erum við búin að vera að taka upp og stefnum á að gefa út plötu, vonandi á þessu ári. Ég er búin að læra mjög mikið og eitt af því er að hætta að koma alltaf á réttum tíma í Soundcheck, í fyrsta lagi virðast allir vera seinir og í öðru lagi þá þurfa söngvarar alltaf að bíða á meðan hljóðfæraleikararnir eru að setja upp. Fyrir utan að syngja með Solar og taka að mér ýmis auka verkefni þarf fyrir utan er ég líka að vinna mína eigin tónlist og fyrir Iceland Airwaves 2013 fékk ég frábæra stráka til að spila með mér off venue og fengum við mjög góðar viðtökur. Næsta verkefni er þó heldur stærra því í haust sendum við vinkona mín Bergrún Íris inn lag í undankeppni Eurovision hér á Íslandi. Laginu skiluðum við inn í lok september og svo í lok nóvember fékk ég hringinu frá RÚV um að lagið hafði komst áfram. Eftir að hafa verið orðlaus í nokkrar mínútur, fengið málið aftur til að geta látið Beggu vita, hlegið svolítið og farið aftur í sjokk tók við heljarinnar ævintýr sem er nú að taka á sig mynd. Loksins verður lagið sett í spilun og svo flutt á fyrsta undankvöldi Söngvakeppninnar, 1. febrúar. Ég er svo ótrúlega þakklát og glöð fyrir öll þessi tækifæri sem lífið hefur gefið mér á síðustu árum og get ekki beðið eftir þessu nýja ári 2014 sem leiðir mig vonandi í enn fleiri ævintýri.

 

Nafn: Ásta Björg Björgvinsdóttir

Aldur: 28 ára.

Maki: enginn

Börn: engin

Draumabíllinn: Úff, ég er algjör Toyota manneskja en ég viðurkenni fúslega að ég er mjög hrifin af Jeep Wrangler, eitthvað svo sjarmerandi við þá.

Draumahúsið: Hmm.. opið og bjart, með góðu útsýni og garði.

Draumastarfið: Að geta samið og spilað tónlist “full time”.

Fallegasti staðurinn: Ég á mjög erfitt með að gera upp á milli. Dalurinn minn – Syðridalur, Milford Sound á Nýja Sjálandi og umhverfið þar sem Rio de Janeiro er.

Færir þú í teygjustökk: Já, búið og gert og myndi fara aftur. Ég lifi á því að ögra sjálfri mér og takast á við hræðsluna sem heldur mér aftur. Teygjustökk var eitt af því sem ég var mjög smeyk við en tókst á við hana, lifði af og skemmti mér vel á meðan.

Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks: Brosið. Gleði og einlæg bros bræða mig.

Lífsmottó. Fylgdu hjartanu en ekki gleyma huganum.

 

Hér má hlusta á lagið "Eftir eitt lag" : http://www.ruv.is/undanurslit/eftir-eitt-lag-900-9902

Facebook síða Solar, hljómsveitar Ástu : https://www.facebook.com/solariceland

Soundcloud síða hljómsveitar Ástur, Solar, þar sem hlusta má á efni með þeim : https://soundcloud.com/solariceland

Soundcloud síða Ástu Bjargar : https://soundcloud.com/asta-bjorg-bjorgvinsdottir


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.