Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Víkari vikunnar | 16.2.2018 20:03:01 |
Víkari vikunnar – Laddawan Dagbjartsson

Víkari vikunnar hefur nú göngu sína á ný eftir nokkurt hlé. Bolvíkingar þekkja flestir vel til Laddawan Dagbjartsson eða Da eins og hún er ætíð kölluð.

 

Laddawan flutti til Bolungarvíkur 20. nóvember 1997 og hefur allt frá þeim degi setti mark sitt á lífið í Bolungarvík. Þegar hún flutti til Bolungarvík með eiginmanni sínum Ómari Dagbjartssyni hafði hún starfað sem íþróttaþjálfari í heimalandi sínu, Tælandi, og var það hennar fyrsta hugsun að nýta menntun sína og hæfileika á nýja staðnum. Þó það þyki sjálfsagt mál að ná sér í menntun á Íslandi þá segir Laddawan að þannig sé það ekki í Tælandi. Þar er það eftirsóknarvert að ná sér í menntun og hún hafi ekki getað hugsað sér annað en að nýta þá menntun sem foreldrar hennar höfðu kostað hana til að læra.

 

Virk í líkamsrækt bæjarbúa frá fyrsta degi

 

Það fór því svo að nánast frá fyrsta degi í Bolungarvík var hún byrjuð með eróbik-tíma fyrir bæjarbúa og stuttu síðar bættust fleiri verkefni við, t.d. sundleikfimi í samvinnu með Sigrúnu Gerðu Gísladóttur sem hafði byrjað þá tíma nokkru áður. Í framhaldinu fór Laddawan í fleiri verkefni með Sigrúnu Gerðu sem tengdust Heilsubænum Bolungarvík. Laddawan minnist sinna fyrstu ára í Bolungarvík þannig að það hafi verið mjög mikið um að vera á íþróttasviðinu og það hafi t.d. verið boðið upp á spinning tíma í íþróttahúsinu, Elínbet Rögnvaldsdóttir var með leikfimitíma, Sigrún Gerða með sundleikfimi auk hennar sjálfrar sem var með eróbik tíma. Enn þann dag í dag er Laddawan með líkamsræktartíma fyrir almenning í íþróttahúsinu í Bolungarvík eru mæta um 15 manns að staðaldri í þá tíma auk þess sem hún er líka að bjóða upp á tíma í Jóga og Zumba.

 

Fljótlega eftir að Laddawan kom til Bolungarvíkur fékk hún tækifæri til að kenna í Grunnskóla Bolungarvíkur og hefur hún kennt við skólann samfleytt frá árinu 2001 en þær greinar sem hún hefur kennt á þeim tíma er sund, dans og leikfimi.

 

Árangurinn í dansinum vakti mikla eftirtekt

 

Árið 2001 stóð Laddawan fyrir því að stofnuð var dansdeild innan Ungmennafélags Bolungarvíkur og hófust þá æfingar hjá börnum á grunnskólaaldri. Eftir aðeins 3 mánuði af æfingum var strax farið að senda pör á Íslandsmót og náðu nemendur hennar þar eftirtektarverðum árangri. Á næstu árum fór Laddawan ætíð með góðan hóp dansara á Íslandsmeistaramót í dansi og komu þau ætíð hlaðin verðlaunum tilbaka. Nokkur þeirra urðu Íslandsmeistarar í sínum flokkum og einnig önnur sem náðu silfur- og bronsverðlaunum. Árangur dansara undir handleiðslu Laddawan vakti mikla athygli og var dansdeildin hjá UMFB starfandi við góðan orðstýr fram til ársins 2012. Laddawan hefur miðlað mikilli dansmenningu til Bolvíkinga og hafa dansatriði frá nemendum hennar oft vakið mikla lukku á árshátíðum grunnskólans en einnig hafa danshópar hennar verið með atriði á öðrum skemmtunum, s.s. á 1. maí hátíðarhöldum. Hvað dansinn varðar í dag segir Laddawan að börn í dag séu mikið opnari fyrir dansi en áður.

 

Frumkvöðull í fimleikum

 

Mikill uppgangur í fimleikum í Bolungarvík hefur vakið eftirtekt að undanförnu en Laddawan hefur haft forystu um að koma á fimleikaæfingum sem börn af norðanverðum Vestfjörðum sækja í hverri viku. Nú er svo komið að um 80 börn stunda fimleika undir handleiðslu Laddawan og aðstoðarfólks hennar og komast færri að en vilja og er kominn biðlisti af börnum sem vilja komast til að æfa fimleika. Upphafið af fimleikaæfingunum má rekja til starfs Laddawan sem íþróttakennari við Grunnskóla Bolungarvíkur en þar hefur hún skipt íþróttatímunum þannig að einu sinni í viku eru boltaleikir og einu sinni í viku eru fimleikar. Brátt fór áhugi barnanna á fimleikum að vakna og var Laddawan farin að heyra á börnunum að þeim langaði að æfa fimleika. Þá sló hún til að byrjaði með æfingar og voru það um 40 krakkar sem byrjuðu fyrst og í haust þegar ljóst var hve mikill áhugi var fyrir íþróttinni var ákveðið að stofna fimleikadeild innan UMFB. Laddawan er þar aðalþjálfari en aðstoðarþjálfarar eru Pálína Jóhannsdóttir og dætur Laddawan, þær Lilja og Marín. Bæjarbúar fengu að sjá afrakstur haustannar á glæsilegri fimleikasýningu sem haldin var í íþróttahúsinu í desember síðastliðinn.

 

Eins og áður segir eru nú um 80 krakkar á aldrinum 6 – 13 ára að æfa fimleika hjá Laddawan og er hún með gott aðstoðarfólk í kringum sig á æfingum, þar á meðal unglinga úr grunnskólanum sem hafa fengið sérstaka fræðslu um „anatomy“ eða uppbyggingu líkamans. Laddawan segir fimleika vera mjög góða íþrótt sem efli styrkleika, liðleika, fimi og þol. Framundan er nú að senda 15-20 iðkenndur á Íslandsmótið í fimleikum sem haldið er í apríl og verður spennandi að sjá hvernig vestfirsku krakkarnir standa sig í frumraun sinni á Íslandsmótinu. Það er ekki nóg með að Laddawan hafi haft forgöngu með að koma á fimleikaæfingum heldur hefur hún einni lagt sitt af mörkum til að efla þann búnað sem börnin hafa aðgang að til æfinga. Þannig stóð hún fyrir því síðasta sumar að kaupa stóra loftdýnu sem nýtist mjög vel í fimleikum. En það má líka bæta mörgu við segir Laddawan og hefur hún nægar hugmyndir að fimleikaáhöldum sem hægt er að kaupa til að efla tækjabúnað íþróttahússins.

 

Mikilvægt að börnin fái að nýta hæfileika sína

 

Það er rauður þráður í öllum samtölum við Laddawan og það er að hún vill að börnin fái að nýta hæfileika sína og hafi gaman af því sem þau gera. Það er henni efst í huga að börnin fái að njóta sín og hún segir „ef ég geri það ekki, hver gerir það þá?“ Hún kennir börnunum einnig að þau uppskeri eins og þau sái og að með vilja sé allt hægt. Það er einmitt þannig sem Laddawan lifir sínu lífi og er hún óhrædd að prófa nýja hluti. Hún er með í vinnslu ný og spennandi verkefni fyrir börn og eiga Bolvíkingar eftir að sjá þau verða að veruleika á næstu árum.

 

Aldrei verklaus og vill prófa ný störf

 

Laddawan segist erfitt að vera verklaus og vill helst alltaf hafa eitthvað fyrir stafni. Hún hefur stundað að beita línu á sumrin og byrjaði það þannig að hún vildi kenna dóttur sinni að vinna og unnu þær þá hlið við hlið í beitningarskúrnum. Hún kenndi líka fleiri unglingum að beita og gerði það oft að fara heim úr vinnu til að elda og kom svo með matinn niður í skúr og voru unglingarnir mjög hrifnir af því. Laddawan hefur einnig prufað að fara á sjó og þá fór hún í róður á togaranum Sirrý ÍS þar sem hún var kokkur. Þann róðurinn fengu sjómennirnir tælenskan mat í hvert mál og voru þeir mjög ánægðir með að fá slíkan veislumat dag eftir dag. Laddawan segir að sjóferðin hafi gengið vel fyrsta daginn en næsta dag hafi hún orðið sjóveik og þá hafi verið erfitt að fara á fætur til að elda ofan í strákana, en það gekk allt saman vel og allir komu glaðir í land eftir vel heppnaða veiðiferð.

 

Djúpsteiktur hákarl og svið með chilli sósu

 

Laddawan hefur verið dugleg að aðstoða samlanda sína sem búa hér á svæðinu. Hún hefur aðstoðað tælensk börn með nám og var með íslenskunám fyrir tælendinga hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og útskrifuðust um 50 manns úr því námi á 3 árum. Laddawan, sem er mikill listakokkur, hefur einnig kennt tælenska matargerð hjá Fræðslumiðstöðinni og í Menntaskólanum á Ísafirði og var mikil aðsókn í þau námskeið. Þá má geta þess að hún er dugleg að rækta sitt eigið grænmeti og kryddjurtir sem nún notar í réttina sína. Laddawan reynir að prufa allskonar mat og líka þjóðlega matinn sem tileyrir íslenskri matarmenningu. Þannig keypti hún sér einu sinni hákarl, svona hálft kíló. Hún smakkaði fyrsta bitann og fannst hann ógeðslegur. Svo ákvað hún að ná í djúpsteikingarpottinn sinn og djúpsteikti hákarlinn og þá varð hann góður á bragðið. Svo eins og með lambasvið, þau borðar hún með chilli sósu. Þannig að Laddawan finnur alltaf sína eigin eldunaraðferð á íslenskum mat til að geta borðað hann.

 

Ánægð í Bolungarvík og vill láta gott af sér leiða

 

Laddawan er ánægð með lífið í Bolungarvík, hún vill láta hæfileika njóta sín öðrum til góðs og vill alltaf gefa af sér og hefur gaman af því. Hún segist vera mjög ánægð með börnin sem séu svo opin fyrir öllu nýju en fullorðna fólki er aðeins lokaðra og er nokkuð varfærið gagnvart erlendri menningu. Eins og margir sem koma nýir inn í samfélagið finnur hún fyrir því hvað fullorðna fólkið er lokað, hve mikil fjölskyldutengsl séu í samfélaginu og hve erfitt það getur verið að komast inn í menningu bæjarbúa. En Laddawan tekur það jafnframt fram að hún ætlist ekki til að fólk breytist, hún samþykki fólk eins og það er.  Laddawan leggur einnig mikla áherslu á að börnin hennar fái einnig að kynnast tælenskri menningu.

 

Að lokum vill Laddawan nefna að það sem henni þyki mikilvægt í lífinu sé að elska og vera elskuð, því ef maður elskar einhvern þá verður meira hamingja í lífinu og vonin eykst og allt verður bjartara.

 

Lilja og Marin

 

Laddawan Dagbjartsson í fáum orðum:

 

Nafn: Laddawan Dagbjartsson

Aldur: Ég er að verða 46 ára

Maki: Ómar Dagbjartsson

Börn: Lilja 19 ára og Marín að verða 14 ára

Draumabíllinn: Enginn

Draumahúsið: Húsið sem ég bý í hverju sinni

Draumastarfið: Þegar ég var lítil spurði kennarinn minn hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór og ég svaraði íþróttakennari. Í dag fæ ég að starfa sem íþróttakennari og fæ í raun að gera það sem mig dreymdi um og finnst það mjög skemmtilegt.

Fallegasti staðurinn: Fallegustu staðirnir eru Dimmuborgir og Ásbyrgi, mér finnst sérstaklega fallegt í Ásbyrgi.

Færir þú í teygjustökk: Nei, finnst svona ekki skemmtilegt

Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks: Lengi vel tók ég mest eftir því hvernig fólk klæddi sig en seinna meir tek ég meira eftir því hvort fólk er jákvætt eða neikvætt þegar ég byrja að tala við það.

Lífsmottó: Ég vil gleðja fólk og er ánægð með það sem ég get hjálpað öðrum með. Vil alltaf gefa af mér en þarf að læra að þiggja líka. Hef því lifað eftir því að betra að gefa en þiggja.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.