Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Vinsælast í Víkinni | 17.5.2012 12:18:35 |
Sælkerinn - Ylfa Mist Helgadóttir

Ég er forfallinn bernaise sósuaðdáandi. Og ég æti þessa unaðslegu, þykku, gulu, grændröfnóttu sósu með skeið í öll mál, ef hún væri ekki jafn hryllilega fitandi og raun ber vitni. Hollensk sósa er í raun sama sósan og bernaise sósa, án estragonsins, en bætt sítrónusafa í staðinn. Og þessar sósur eiga heima með öllu. Léttsteikt nautakjöt, fiskur, gufusoðið grænmeti, grillmatur... það er alveg sama hvað. Bernaise og hollensk sósa bæta réttinn alltaf.
Ég var aldrei almennilega hrifin af bernaisesósugerð því að mér fannst hún einkennast af voðalega miklu moji og veseni. Svo datt ég á uppskrift fyrir mörgum árum og síðan hefur þessi smjörsósa verið jafn oft á borðum og mittismál mitt ber vitni um!

Einföld og ótrúlega góð bernaie sósa fyrir sex.
6 eggjarauður.( Einfaldast er að brjóta eggið og láta innihaldið leka yfir greipina svo að hvítan renni niður á milli fingrana og rauðan verið eftir í lófanum. Hvíturnar eru svo að sjálfsögðu notaðar í marens eða holla ommilettu.)

500 grömm smjör.

1 og1/2 msk edik (hér er gott að nota estragonedik ef það fæst, annars bara hvítvínsedik)

hellingur, ca 2 msk af estragoni. (estragon er gjarnan nefnt fáfnisgras eða tarragon, jafnvel dragon. Passið bara að biðja ekki um estrogen í búðinni. Það er nefnilega allt annað)
Eggjarauður eru settar í hrærivélina eða í skál og þeyttar lauslega saman með estragoni og ediki. Smjörið er brætt við mjög hægan eld og passið að láta það ekki sjóða! Síðan er smjörinu hellt í örmjórri bunu ofan í skálina og þeytt á fullum krafti, annað hvort með písk eða bara þeytaranum á vélinni. Einnig er hægt að nota handþeytara. Bunan má þykkna smátt og smátt eftir því sem meira smjör er komið í sósuna en þetta má þó ekki gerast of hratt því að þá getur hún skilið sig. Það hefur reyndra aldrei gerst hjá mér eftir að ég fór að nota þessa skotheldu aðferð.

 Sósan er tilbúin til neyslu þegar allt smjörið er komið saman við. Hún mun vera undursamleg!

Hollandise sósa eða hollensk sósa er gerð alveg eins nema þá er estragoni sleppt og1- 2 msk af sítrónusafa sett saman við. Hún er dásamleg með td.léttsoðnum aspas eða fiski.....

Þessar "léttu" sósur má alls ekki hita upp aftur en þær eru góðar kaldar í afgangasamlokum með td. kjöti, fiski eða skinku og osti, góðu piklesi og brösuðum lauk!


Bestu kveðjur og ég skora á Höllu Signýju Kristjánsdóttur að töfra eitthvað krassandi fram úr bókum sínum!
Ylfa Mist Helgadóttir.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.