Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Vinsælast í Víkinni | 13.7.2012 12:22:58 |
Sælkerinn - Mæja Bet

Vinkona mín hún Guðbjörg Stefanía, útsendari Víkara, er stútfull ranghugmynda um þroska vina sinna og hefur verið að krefja mig um einhverja uppskrift til að henda hér fram. Vitaskuld lagði ég strax fram símanúmer aðila sem reiða fram flatbökur gegn greiðslu auk heimilisfangs móður minnar en það eru svona helstu uppskriftir sem ég notast við. Það vildi hún þó ekki þiggja svo ég ætla að rifja upp gamalt matarboð.

Forréttur

Fyrst tók ég slatta af rækjum (góðum haug betur en það sem ég taldi upp á að yrði étið þar sem það er déskoti gott að narta í þetta áfram) og lagði í vænan lög af sítrónusafa og tæmdi svo dilldolluna þar út í. Þetta lét ég liggja á meðan ég sinnti nokkrum bráðnauðsynlegum útréttingum, eins og að fara í ríkið og svona.

Er nær dró matartíma steiki ég hörpuskel upp úr karrý og sítrónupipar – ég steikti hana mjög vel því annars getur mörgum þótt hún hálf slepjuleg.

Framsetning á forréttinum skiptir mig oft máli því aðalrétturinn er nær undantekningarlaust ljótur hjá mér. Því raðaði ég þessu snoturlega á stóran disk og skreytti með sítrónu- og límónusneiðum.
Þar sem ég hef alltaf áhyggjur af því að ég sé með of lítinn mat skar ég líka niður vænan klump af graflaxi. Persónulega finnst mér hann óætur en ég vildi náttúrlega vera viss um að ég fengi nóg af rækjunni.

Þetta bar ég fram með ristuðu brauði og sósum.

Gula sósan er köld, sæt karrýsósa. Upphaflega fékk ég uppskrift af henni hjá Elísu systur en ég man hana aldrei svo hún er sjaldnast eins. Ég er þó nokkuð viss um að hún innihaldi alltaf majónes, sýrðan rjóma, sykur, sætt sinnep og að sjálfsögðu karrý. Eflaust er best að smakka hana bara til en ég sulla alltaf þar til mér þykir hún falleg á litinn og sú aðferð hefur oftast virkað, hingað til.

Kalda piparsósu má auðvitað kaupa úti í búð en ég hef þó búið hana til (bara svo ég geti sagt fólki að ég hafi gert það). Í hana nota ég piparost, mjólk, sýrðan rjóma, sítrónusafa og krydd (pipar (að sjálfsögðu) og t.d. örlítið af papriku). Ef ég á opna flösku af hvítvíni eða einhverjar koníaksleifar frá Bella er ágætt að setja nokkra dropa af því út í. Þessa sósu þarf að smakka því hún verður aldrei falleg á litinn.

Graflaxsósu hef ég búið til en mér þykir hún svo agalega vond að ég get ekki smakkað hana til og mæli því bara með að fólk kaupi hana tilbúna. Eða noti góðar sósur í staðinn.

Aðalréttur
Ég er voðalega mikið fyrir að troða öllu í einhvern kryddlög og svo á grillpinna svo aðalréttur var sennilega eitthvað á þessa leið:

Niðurskornar maríneraðar kjúklingabringur. Það er auðvitað smekksatriði upp úr hverju á að marínera en sjálfri þykir mér ómissandi að hafa a.m.k. sætt sinnep, teriyaki og timian.

Nautagúllasi velti ég upp úr olíu, smá teriyaki og haug af svörtum pipar.

Kjötið hanteraði ég kvöldið áður svo það væri vel djúsí. Tók það svo úr sullinu, skellti því á grillpinna og steikti í ofni. Það er auðvitað fallegt að raða þessu saman á pinna með einhverju drasli á milli en ég vil blóð í nautinu svo kjúllinn þarf alltaf mun lengri tíma, auk þess sem ég kann ekki að meta það þegar eitthvað annað liggur utan í kjötinu mínu (eins og laukur eða sveppir eða eitthvað).

Kjötið bar ég fram með kúskús, rjómasteiktum sveppum, einhverjum kartöflum (er svo lítið fyrir þær að ég man ekki hvort það var gratín með beikoni eða eitthvað sem ég skar niður, kryddaði og skellti í ofninn, læt þær liggja á milli hluta), salati (sem er ávallt fallegt því ég raða í það eftir litum þar sem ég ét ekki gras og veit því ekkert hvað passar best saman m.t.t. bragðs) og heitri piparsósu.


Ég er lítil eftirréttamanneskja svo ég efast um að hann hafi verið í boði en til að hafa þetta almennilegt voru að sjálfsögðu fljótandi veigar og óborganlegur félagsskapur á boðstólnum fram eftir nóttu.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.