Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 3.10.2008 |
Jónas Aðalsteinsson

Sælt veri fólkið! Benni Sig skoraði á mig að skrifa nokkrar línur um mig og mína og skorast ég að sjálfsögðu ekki undan því.

Eins og Benni sagði er ég sonur Mummu lóu og Alla málara og ólst upp á Hjallastræti 22, í húsinu þar sem Anna E og Kristján Arnars búa í dag. Áður en mamma og pabbi byggðu þar, áttum við heima í kjallaranum hjá Ólínu Bærings á Völusteinsstrætinu, síðan í gömlu blokkinni eða gulu blokkinni, þá bjuggum við í öðrum endanum hjá Halla málara og Stínu á meðan húsið á Hjallastrætinu var byggt.

 

Ég er giftur Björgu Bjarkeyju Kristjánsdóttur, dóttir Kitta á Hreggnasanum og Fríðu og eigum við þrjú börn; Ólöfu 16 ára kvennaskólapíu, Kristján 11 ára og Bjarkeyju 9 ára. Við eigum heima í Mosfellsbænum og kunnum afar vel við okkur þar. Hér er margt líkt og fyrir vestan stutt í fjöru og upp í fjall, krakkarnir ganga í skólann og á íþróttaæfingar og eru alltaf úti að leika og nóg að gera. Við Björg byrjuðum að búa á Vitastígnum 1986 og leigðum þá af Elvari Stefáns og Elínu þá voru þau vitaverðir á Galtarvita. Við fluttum til Reykjavíkur ´93 og bjuggum við Bergþórugötu og var það sérstök upplifun að flytja úr sveitinni í miðbæinn í borg óttans eins og sumir kjósa að kalla höfuðborgina. Þá var Ólöf eins og hálfs árs og það var frekar sérstakt að ganga með barnavagninn upp og niður laugaveginn að svæfa hana, og nokkrum sinnum þurfti ég að stugga við ógæfumönnum sem höfðu fundið sér skjól í stigahúsinu hjá okkur. Ég fór í Iðnskólann og lauk Málarameistaranámi en Björg lærði til Leikskólakennara. Við fluttum sían heim aftur ´´97 og áttum þar gott ár en ákváðum að flytja í Mosó ´98.

Ég er fæddur eftir miðja síðustu öld eða 1967 og var það stærsti árgangur síðan Bæring Gunnars fæddist, en séra Gunnar Björnsson sem fermdi okkur miðaði tímatal sitt einhverra hluta vegna ekki við kristburð heldur þetta merka ár! Við vorum, ef ég man rétt, 32 þegar við fermdust en krakkarnir í Bærings árgangi voru 34. Á þessum árum voru kennaraskipti tíð og komu oft nýútskrifaðir kennarar til að kenna úti á landi og ég held að sumir hljóti að hafa snúið til annarra starfa eftir þá reynslu að eiga við sum okkar. Ég man td. þegar við vorum í 5. bekk þá var Haddi Finnboga komin á þennan flotta Skeedo snjósleða lagði honum á bakvið skólann fyrir utan gluggann á stofunni okkar og stóðumst við Haukur Vagns ekki mátið príluðum út og prófuðum að setjast á hann, kennarinn lokað þá glugganum svo við urðum að finna annan glugga til að komast inn og var hann á ganginum Haukur var svo kominn inn en ég var í glugganum þegar Gunnar skólastjóri kom askvaðandi og urðu það engir fagnaðarfundir. Seinna gerðist ég sjálfur kennari (leiðbeinandi) í íþróttum við skólann og var það ómetanleg og skemmtileg reynsla en þá var Benni Sig einn af nemendum mínum og var satt best að segja mjög gaman að kenna og kynnast þessum krökkum. Kennarastarfið var ekki vel launað frekar en í dag og til þess að ná endum saman var ég einnig að mála hjá Halla um haustið en beita Hjá Boga og Flosa um vorið, einnig þjálfaði ég nokkra flokka í fótboltanum og sundið, þannig að það var í nógu að snúast þennan vetur, og mjög lærdómsríkt að starfa við hlið kennara sem höfðu kennt mér nokkrum árum áður.

 

Mér eru minnisstæð tvö atvik þegar ég þurfti að fá frí hjá Gunnari skólastjóra fyrir sundkrakkana vegna keppnisferðar (en hann var nú ekki sérstaklega íþróttalega sinnaður) þegar ég spurði hann um fríið leit hann stórum augum á mig og sagði hátt og skírt ARE YOU MAD og þegar ég bað svo um frí fyrir sjálfan mig þar sem ég var þjálfarinn var svarið einfalt “færirðu ekki hvort sem er” annars var karlinn bara fínn og samstarfið gott. Fríið var reyndar lengra en til stóð því það var ekki flogið vestur í viku og máttum við finna eitthvað til að hafa fyrir stafni þennan tíma í Reykjavík og var farið í mínigolf, þjóðminjasafnið skoðað og fl. Einn daginn fórum við í frystihúsið hjá Granda og betluðum fisk í soðið.

 

Það sem hefur nýst mér best svona út í lífið að vestra er tvímælalaust að hafa unnið mjög fjölbreytt störf og má þar nefna saltfiskinn, frystihúsið, sláturhúsið, beitningu, sjómennsku , vélvirkjann og að sjálfsögðu málninguna hjá pabba og svo lærði ég hjá Halla, það er ómetanlegt að hafa starfað með og kynnst öllu því frábæra fólki sem ég vann með á þessum árum.
Ég ætla ekki að gera frekari langloku úr þessum pistli enda gæti ég skrifað heila bók af skemmtilegum atvikum úr Víkinni eins og flestir.

 

Mig langar til að skora á Auði Gunnars jafnöldru mína að skrifa næsta pistil og segja okkur frá hvað hún hefur verið að sýsla síðan í den.

Lifið heil
Jónas Pétur.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.