Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 19.10.2008 |
Auður Gunnarsdóttir

Æskuvinur minn og bekkjabróðir, Jónas Pétur, hefur nú skorað á mig að skrifa pistil í Virkjum Víkara flokknum. Ég tek þeirri áskorun með glöðu geði. Ég fæddist 28. maí 1967 á rúmstokknum hjá elskulegum móðurforeldrum mínum á Hlíðarvegi 16 á Ísafirði. Mér lá á þá eins og alltaf. Foreldrar mínir eru þau Gunnar Halls og Oddný Guðmundsdóttir sem enn búa í Víkinni og eru það forréttindi fyrir okkur systkinin að geta komið HEIM í Hjallastrætið og hlaðið batteríin. Systkini mín eru þau Sibba og Gummi Gunnars og búum við öll í Kópavoginum.

Að alast upp í Bolungarvík voru forréttindi. Ég veit að þetta er gömul klisja en hún er bara sönn svo einfalt er það. Ég bjó í Blokkinni fyrstu árin. Blokkin var full af krökkum á mínum aldri eins og t.d Gummi Sig., Jónas Aðalsteins, Kristín Örnólfs, Óli hennar Gunnu á Gili og fleiri. Við lékum okkur mikið saman. Fórum upp í fjall, renndum okkur á skíðum, skautuðum á pollunum en mest þótti okkur gaman að hjóla á þríhjólunum upp í Tröð til Siggu og Bjarna sem tóku alltaf vel á móti okkur með sveskjum, rúsínum og fleira góðgæti. Þau voru yndisleg. Skemmtilegast var þegar við fengum að fara niður í kjallara og þau
bökuðu handa okkur rúgkökur á gamalli eldavélahellu, þær voru algert sælgæti. Ég fékk stundum að gista hjá Siggu þegar Bjarni þurfti suður, henni fannst svo óþægilegt að vera ein svo hún fékk mig lánaða til að vera hjá sér, þá var sko dekrað við stelpuna. Við tvær, ég og Sigga í Tröð, það var ómetanlegt. Tótakofi var líka í nágrenninu þar var gamall traktor í túninu sem var milvægur leikmunur í okkar leik. Þar voru sett á svið hin ýmsu leikverk.

Síðan flutti öll hersingin í Hjallastrætið. Þá hófust ný ævintýri. Við Kristín vorum saman öllum stundum. Við byggðum okkur bú, opnuðum verslanir með allskyns drullukökum og öðru góðgæti, fórum út að ganga með dúkkurnar okkar, komum við hjá Binnu í Binnubúð og keyptum okkur krónutyggjó eða haltukjafti brjóstssykur. Í Hjallastrætinu kynntist ég fleiri krökkum eins og t.d Gullu Hreins sem varð mjög góð vinkona mín. En þar voru líka hrekkjusvín sem maður varð að passa sig á. Ekki vildi maður mæta Badda og Bigga þegar maður var einn á ferð. En seinna sá maður að þeir voru hinir mestu ljúflingar drengirnir en voru auðvitað hinir mestu töffarar.

Á unglingsárunum var mikið um að vera hjá okkur krökkunum. Þá var Hótelið hjá Sævari og Baddý, Billinn hjá Jóa Kitt og sjoppan hjá Finna Lassa aðalbækistöðvar okkar. Ekki þótti okkur Svölu Jóns Eggerts leiðinlegt þegar Pétur Guðmunds. tók okkur upp í á rúntinum.
Mest spennandi af öllu var að komast á Ísafjörð, þar sem við gelgjurnar freistuðum þess að komast inn í Sjallann og oftast tókst okkur það. Við áttum líka athvarf á Hafnargötunni heima hjá Betu og Öddu Halla Ólafs. Það var svo nálægt “miðbænum” og við stelpurnar alltaf velkomnar þar. Þar söfnuðumst við saman stelpur eins og Rún hennar Guffýar, Magga Lúlla, Lára Jóhannesar og fleiri. Oft fórum við þangað eftir vinnu í Frystihúsinu og gerðum okkur rækjusalat því það voru alltaf til rækjur á því heimili.


Eins og margir af minni kynslóð hleypti ég heimdragann mjög ung, var að flýta mér eins og áður hefur komið fram. Ég byrjaði á því að fara í framhaldsskóla en fann fljótt að það tæki sennilega of langan tíma fyrir mig þannig að ég fór að vinna, búa, eignaðist fyrsta barnið og gifti mig í kjölfarið. Í dag bý ég ásamt eiginmanni mínum til 24 ára í Kópavoginum og eigum við saman þrjú börn þau eru Gunnar Anton sem er 22 ára, Brynja Rut 18 ára og Arnar Freyr 12 ára. Nú í vikunni eignuðumst við svo okkar fyrsta barnabarn. Yndislega litla stúlku og hlökkum við mikið til að takast á við þetta nýja hlutverk.

Ég hef í rúm tvö ár starfað hjá IKEA nú síðasta árið á starfsmannasviði en er að taka við nýrri stöðu seinna í mánuðinum sem sölustjóri húsgagnadeildarinnar ég er mjög ánægð þar og eins og þið vitið er hvergi betra að verslaƒº

Ég hef verið mikið félagsmálafrík í gegnum tíðina og á ég ekki langt að sækja þau ósköp eins og flestir vita hefur karl faðir minn ekki slegið slöku við í þeim efnum. Ég hef tekið mikinn þátt í störfum á vegum Bolvíkingafélagsins undanfarin ár og sat í stjórn þess í fimm ár auk setu í þorrablótsnefnd félagsins. Þetta var alveg frábær tími og hélt manni vel inni í málefnum Bolvíkinga. Ég er mikil fótbolta og handboltamamma og hef starfað mikið með HK í Kópavoginum. Það er alveg bókað þegar við erum á mótum þá hittir maður að minnsta kosti tvo-þrjá Bolvíkinga sem er alltaf jafn gaman.

Ég hef kynnst upp á nýtt fullt af frábæru fólki í þessum félagsskap og langar mig þess vegna að skora á hana Ósk Gunnars Halldórs að skrifa næsta pistil en ég starfaði með henni bæði í stjórninni og þorrablótsnefndinni.

Kær kveðja til ykkar allra úr Kópavoginum,
Auður Gunnarsdóttir.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.