Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 4.11.2008 |
Ósk Gunnarsdóttir

Auður Gunnars samstarfskona mín úr stjórn Bolvíkingafélagsins skoraði á mig að vera Virkjaður Víkari og verð ég fúslega við þeirri ósk. Ég heiti Ósk Gunnarsdóttir Gunnsa Halldórs á Holtununum og Helgu. Ég var alltaf kölluð Ogga þegar ég var að alast upp eins og Ogga Ólafs og vorum við ánægðar með gælunöfnin okkar. Ég á tvö systkini Agnar sem er bóndi á Miklabæ í Skagafirði og Kristínu sem er kennari í Keflavík, en sjálf kenni ég í Reykjavík og bý í Kópavogi. Ég á eina dóttur Agnesi Björk og tvö barnabörn.


Ég skrapp keyrandi vestur um daginn akkúrat dagana sem ekkert var flogið, norðaustan bylur geisaði svo ekki sást milli húsa. Mér fannst gaman að upplifa æskuna í gegnum hríðarbylinn og hugurinn fór á flakk og nostalgíukastið lét ekki á sér standa. Ég ætla að bjóða ykkur með í ferðalag til æskuáranna. Já ég mundi það vel hvernig var að brjótast í gegnum skaflana í skólann og ekkert búið að moka. Svo var alltaf farið heim í tíu kaffinu og urðum við að vera komin aftur eftir tuttugu mínutur, þá var nú eins gott að vera sprettharður.

Við vorum mikið í útileikjum á Laugutúni spýtan fallin, stobolta, myndastyttuleik og fleiri leikjum. Á þessum tíma rak Kalli Steini (Karvel Pálmason) inn á kvöldin, gekk um bæinn og passaði upp á að við krakkarnir værum ekki úti eftir tíu á kvöldin. Það var hluti af löggustarfi þess tíma að reka inn, aðeins öðruvísi starfið þá en það sem lögreglan er að fást við á kvöldin nú til dags. Einu sinni lokaði Daddi Didda Friðgeirs okkur inn í bílskúr hjá pabba sínum til þess að freista þess að Kalli kæmi ekki auga á okkur og við gætum haldið áfram að vera úti þegar Kalli væri farinn framhjá. En Kalli lét nú ekki plata sig og sótti Dadda sem hafði flúið heim í hús og lét hann opna bílskúrinn og ég held að Daddi hefði þurft að hafa einhvern til að styðja við skráargatið svo mikið skalf hann þegar hann reyndi að opna dyrnar með yfirvaldið sér við hlið. Eitt sumarið bárum við systkinin út Tímann og Kvaðningarnar. Það var nú létt verk að bera út Tímann, ekki var nú svo mikið af framsóknarmönnum í bænum. Í fljótu bragði man ég bara eftir Kitta Júlla, Benjamín, Gunnari Leós og honum pabba mínum. Allavega hugsaði ég sem stelpa að þeir sem báru út Moggann fengju örugglega hærri laun en við systkinin fyrir útburðinn. Svo voru það Kvaðningarnar, það starf fólst í því að maður þurfti að vera heima til að taka á móti símtölum frá símstöðinni og hafa upp á fólki í bænum sem hafði ekki síma og láta þau vita að einhver var að reyna að ná í þau og segja þeim að fara niður á símstöð. Mér fannst þetta ansi bindandi starf, enda bara átta ára og var fegin þegar Agnes amma dvaldi heima hjá okkur, því hægt var að treysta því að hún væri ekki á neinu flandri eða á húsaflakki. Þetta starf heillaði mig bara í eitt sumar, full mikil kyrrstaða fyrir minn smekk. Hef alltaf verið meira fyrir að vera á ferðinni og fannst óþarfi að vera bundin heima við. En símstöðin heillaði mig samt og ég var svo sem búin að velja mér framtíðarstarf. Miðstöð góðan dag sögðu Lauga á stöðinni, Bára Ben og Svenna hans Ella Hólm. Mér fannst þær voða flinkar að stinga snúrunum á réttan stað í gataboxið og voru svo með rosa græjur á höfðinu. Svo voru það hljóðeinangrandi boxin á símstöðinni sem fólkið talaði í. Þetta fannst mér ekkert smá flott og voru alveg í takt við mín framtíðarplön þá. Allavega ætlaði ég alltaf að heima í Víkinni, annað kom aldrei í huga mér, og heimsmyndin mín var þar. Í þessu samhengi dettur mér í hug dettur mér í hug sagan af Jónsa Ella þegar hann spurði Steina Siggu Páls sem sigldi með Fossunum til Ameríku hvort hann hefði ekki hitt Stebba Kitt (Stebbi flutt ungur til Ameríku og bjó þar alla tíð). ”Nei hvað Steini við, ekki rakst ég nú á hann í ferðum mínum”, þá gall í Jónsa Ella: vinur hann hefur þá ekki nennt niður á brjót!. Já það er stundum gott að hafa ekki heimsmyndina alltof stóra.
Eins og nú á dögum var í tísku að fara í ljós, en það voru ekki brúnkuljós heldur ljós til að gefa auka vítamín í kroppinn í skammdeginu. Benna á Bökkunum kona Jóns Ella stýrði ljósunum af miklum skörungsskap og ég man eftir okkur systkinunum í ljósunum hlægjandi og skríkjandi og áttum erfitt að vera kyrr. Hef heyrt fólk á mínum aldri tala um þessi ljós, hvað þar hafi verið mikið fjör og skemmtilegt og það má með sanni segja að lítið sé ungs manns gaman.


Þegar Laugutúnið missti sjarmann og fallin spýta þótti hallærislegt fyrirbæri tóku unglingsárin við. Ekki voru þau ár neitt leiðinlegri. Ég var í stórum og skemmtilegum vinahópi með Möggu Jóns, Rögnu á Sólbergi, Fjólu Péturs, Alberti Gumma Páls, Kristjáni Ólafs bæjó, frændunum Bjarna Ben og Haraldi og ekki má gleyma Einari Þór Jóns Friðgeirs sem fékk að vera með okkur þó hann væri yngstur í hópnum. Við brölluðum margt og mikið á þessum tíma og alltaf verið að finna upp á einhverju skemmtilegu. Eitt sinn fórum við á útihátíð í Flókalundi og mig minnir nú hálfpartinn að hún hafi átt að vera áfengislaus. Einar Þór og Albert vissu nú alveg hvernig hægt væri að fela bússið, en Albert getur ekki logið og svipurinn á kauða kom upp um hann og vínið fannst allt vafið inn í svefnpoka, ekki flókinn felustaður en svona vorum við nú hrekklaus og saklaus í þá daga.
Í pistli eins og þessum hvarflar hugurinn víða þegar litið er til baka til æskustöðvanna og mikil birta er yfir minningunum frá uppvaxtarárunum. Ég gæti talið upp margt sem á dagana dreif í æskunni, en læt nú staðar numið að sinni. Ég skora á Einar Þór æskuvin minn að skrifa næsta pistil því ég veit að hann hefur frá mörgu skemmtilegu að segja.


Ég sendi hlýjar kveðjur til Bolvíkinga nær og fjær.
Ósk Gunnarsdóttir


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.