Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 19.11.2008 |
Einar Þór Jónsson

Ósk Gunnarsdóttir ein af æskuvinunum hringdi í mig fyrir stuttu og þá í miklu nostalgíukasti. Stödd í Bolungarvík í snjóköflum og sláturgerð. Það tísti í henni þegar hún sagðist hafa skorað á mig í ,,Virkjum Víkara”. Þegar Ogga hlær sínum eina sanna og smitandi hlátri þá segir maður auðvitað bara já og hlær með. Eftir áskorunina þá fór ég að lesa mér aðeins til um þennan dagskrárlið á vefnum. Hafði ég mjög gaman af því þó svo að ég þekki ekki deili á öllu þessu fólki sem hefur skrifað á vefinn sem sýnir manni hvað allt hefur breyst í Víkinni.

Ég heiti Einar Þór Jónsson og fæddist á sjúkraskýlinu í Bolungarvík 2. nóvember 1959 og er sá eini minna þriggja systkina sem kom í heiminn fyrir vestan. Þau heita Margrét, Ásgeir Þór og Kristján. Foreldrar mínir voru þau, Jón Friðgeir Einarsson og Ásgerður Hauksdóttir en hún lést snemma. Stjúpmóðir mín er Margrét Kristjánsdóttir.

Lífshlaup mitt hefur verið nokkuð viðburðaríkt. Eftir æskuárin fyrir vestan þá tók við þvælingur í hina ýmsu skóla bæði heima og erlendis. Stundum kom ég vestur og vann í einhvern tíma eða fyrir sunnan. Lífið hefur þó færst í fastari skorður með hærri aldri og reynslu. Eftir fertugt fór ég í háskólanám og er menntaður þroskaþjálfi. Síðar lauk ég meistaraprófi í Lýðheilsu- og kennslufræðum. Ég er dæmigerður Íslendingur og vinn á þremur stöðum við ráðgjöf og kennslu.

Maðurinn minn heitir Stig A. Wadentoft og höfum við verið búsettir í Vesturbænum í Reykjavík síðustu árin eftir að hafa flutt heim frá Svíþjóð. Dóttir mín, Kolbrún Ýr, nemi í Listaháskólanum minnir mig á aldur minn m.a. með því að gera mig að tengdapabba. Bróðir minn heitinn, Ásgeir Þór lést á síðasta ári og skildi eftir sig þrjú ung börn: þau Ásgrím Þór 5 ára, Ásgerði Margréti tæplega 3 ára og Ásu Þóru 1 ½ árs. Ég er líklega hlutdrægur þegar ég segi að þau eru frábærustu börn sem ég þekki og miklir gleðigjafar eru þau í lífi okkar allra í fjölskyldunni.

Þegar hugurinn reikar til bernskuáranna fyrir vestan þá minnist ég þess hve allir voru miklir þátttakendur í mannlífinu og hve margir ógleymanlegir karakterar bjuggu í bænum. Maður sér þessa karaktera í fólki sem maður sér og kynnist seinna á lífsleiðinni. Bærinn iðaði af lífi og maður tók þátt í öllu. Þekkti alla í hressilegu mannlífi bæjarins. Einu sinni fór ég á unga aldri með pabba á Mímisbar á Hótel Sögu og hitti þar fyrir Heiðar Ástvalds danskennara. Hann var eitthvað óánægður með kvöldið og sagði að þetta væri eins og Bolungarvík á miðvikudegi ! Þetta fannst mér mjög ósanngjarnt á þeim árum sem Bolungarvík var í mínum huga nafli alheimsins.

Æskuvinirnir voru fjölmennur hópur svo sem Albert frændi og systkini hans, börn Stínu Mass og Gumma Páli sem bjuggu í næsta húsi, Lalli Biggi hans Einars Helga, Lalli Lúlla, Maggi Hávarðar, bræðurnir Davíð og Kristján hans Óla bæó, frændur mínír Ómar Ben og Elías og frændsystkini mín Guðrún og Haraldur. Ég var öðruvísi en flestir strákanna því ég átti líka fullt af vinkonum. Margrét Jóns Eggerts, Halldóra Katrín Guðnýjar Kjartans, seinna Fríða Braga, Veronica prestfrú og Ingunn Hávarðar – þessi vinkvenna fjöldi þótti mörgum undarlegur í Bolungarvík og var ég því grunaður um að vera mikill kvennabósi. Síðan voru það allar vinkonur Margrétar systur sem voru dauðþreyttar á mér, þær Ogga, Anna Sigga, Fjóla Péturs, Ragna á Sólbergi, Elísabet frænka og fleiri.

Minningarbrotin eru mörg frá bernsku til unglingsára. Ég að reykja Chesterfield sígarettur og hlusta á leyndardóma lífsins hjá frænku minni henni Júllu Hjalta í eldhúsinu hennar við Hafnargötuna en Júllu fannst það mjög eðlilegt að fá sér sígarettu, kaffi og kandís með krakkanum , stundum kíkti Lauga á Jaðri við hjá Júllu. Lauga lánaði mér bækurnar Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi en lét í leiðinni falla varnaðarorð um að ég passaði mig á að verða ekki eins aðalsöguhetja bókanna þ.e. lauslætisgosinn hann Jón á Nautaflötum sem væri undir hverjum pisfaldi, fjandinn á honum.
Eitt sumarið var ég að vinna í móttökunni í frystihúsinu með Palla í Skálavík. Það skipti engu hvaða virðulega dama átti leið framhjá, að alltaf sagði Palli leyndardómsfullur ,,hún er nú örugglega létt á bárunni þessi”.

Svæði okkar strákanna var við Hafnargötuna, vélsmiðjan, beitningarskúrarnir og tréverkstæðið hans pabba. Á þessum vinnustöðum voru einungis karlar að vinna og konur sjaldséðar, á kaffistofunum voru veggir fóðraðir með myndum af berrössuðum fegurðardísum, þarna sátum við strákarnir með sperrt eyru og hlustuðum á allt sem fram fór – enda margt áhugavert. Ég var oft látinn handlanga og aðstoða Leifa gamla smið en við Leifi höfðum alltaf góð samskipti þrátt fyrir að hann heyrði mjög illa. Eitt sinn vorum við uppi á þaki að vinna með stóra eldgamla vélsög sem Leifi henti alltaf frá sér í gangi þannig að hún skoppaði um allt og fram af þakinu, þá sagði Leifi ,,hagaðu þér almennilega Grýlan þín”.

Ogga gamla vinkona og Helga Sveins hennar Lilju Ketils buðu mér eitt sinn með í bráðskemmtilega ferð Alþýðubandalagsins á Hornstrandir. Bubbi Mortens hafði á þessum tíma nýlega gefið út sína fyrstu plötu og var óspart sunginn. Allra hörðustu byltingarsinnar áttu eðlilega erfitt með að treysta mér svona vegna uppruna míns, þessi helgi var svona ekta rauður loginn brann helgi. Ogga og Helga voru ósköp góðar við mig gáfu mér kótilettur í raspi, svið og fjallagrasasúpu og þær héldu tjaldinu mjög heimilislegu. Vinir mínir voru skelfingu lostnir þegar fréttir bárust af þessari kommaferð minni. Haraldur og Kristján Ólafs voru alvarlegir yfir þeim afleiðingum sem þetta gæti haft og gestalisti samkvæma minna fór undir smásjá.

Ég skora á gamla og góða vinkonu mína hana Veronocu Jarosz, fyrrverandi prestfrú í bæjarins til að skrifa næsta pistil í Virkjum Víkara.

Bestu kveðjur til Bolungarvíkur
Einar Þór Jónsson


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.