Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 15.2.2009 |
Freyja Kristín Rúnarsdóttir

Ragna Magnúsdóttir hafði samband við mig á facebook (en ekki hvar) og bað mig að starta liðnum Virkjum Víkara á nýju ári. Ég ákvað að slá til þar sem mér þykir þetta mjög skemmtilegur liður á vikari.is, gaman að lesa alla þessa pistla sem fólk hefur skrifað og fylgjast þannig með Víkurum nær og fjær. Fullu nafni heiti ég Freyja Kristín Rúnarsdóttir, fædd 10. júní 1978. Foreldrar mínir eru Björg Guðmundsdóttir og Rúnar Jóhannsson og systkini mín eru Fríða og Jóhann Frímann. Ég ólst upp í Víkinni og bjó þar til tvítugs, þá fór ég í höfuðborgina og þaðan til Vestmannaeyja þar sem ég bý nú ásamt honum Gunnari Geir mínum og þremur sonum okkar.

 

Ég held ég hafi verið þriggja ára þegar ég kynntist æskuvini mínum, honum Andra, syni Ingunnar Hávarðar og Kidda. Það var ekki lítið sem við brölluðum saman, vorum ótrúlegar hetjur. Mér dettur fyrst í hug þegar verið var að byggja nýja hlutann við grunnskólann. Þá vorum við að þvælast eitthvað þar í kring og við stelumst inn og förum að tala um hvað væri kúl og spennandi ef við myndum læsast inni og þannig hetjutal…þangað til við heyrum hurðinni skellt í lás. Þá hlupum við eins og fætur toguðu að hurðinni, með hjartað í buxunum, börðum og kölluðum þar til smiðurinn (man ekki hver) kom og opnaði, ekki mjög glaður með þetta. Ég þori nú ekki að fara með hvort okkar það var sem hljóp af stað á undan, held samt það hafi verið ég, sáttur Andri? Agalegar hetjur þar. Svo var mikið farið upp í fjall á hina ýmsu leynistaði, labbað fram í tungu, farið inn á sand að grafa fjársjóði sem fundust aldrei aftur og ýmislegt fleira.


Oft og iðulega fórum við Andri í stríð við Valdimar Víðis og Einar Örn. Þá var skylmst með prikum og ég man að ég stundaði það að sparka í sköflunginn á Valdimar. Þetta var nú bara leikur, ekkert alvarlegt á bak við þetta og ég vona að sköflungurinn á Valdimar sé í lagi í dag, að hann hafi ekki beðið skaða. Svo er það nú einhvern veginn þannig að þegar strákur og stelpa eru bestu vinir er farið að stríða þeim á því þegar ákveðnum aldri er náð.


Á unglingsárunum var það skellinöðrugengið fræga með rauðu þrumuna í fararbroddi. Linda Jóns var á rauðu þrumunni og svo komu þeir Kristján Heiðberg, Ómar Skúla, Jón Steinar og Viktor á hæla hennar. Ég átti að vísu ekki skellinöðru og tók ekki skellinöðrupróf en ég fékk að sitja aftan á og fannst það bara fínt.


Eins og svo margir hafa sagt í þessum pistlum á undan mér þá voru það algjör forréttindi að fá að alast upp í Víkinni. Þegar maður hugsar til baka þá var maður rosalega mikið úti. Endalaust var hægt að finna sér eitthvað að gera eða fara á einhverja staði, sama hvernig viðraði. Krakkar í dag mættu alveg vera duglegri við það.


Núna síðustu árin hefur færst í vöxt að halda árgangsmót í Víkinni, sérstaklega vinsælt á sjómannadagshelginni. Minn árgangur hélt árgangsmót árið 2006 og var það í fyrsta skipti. Það var rosalega gaman að koma saman og rifja upp gamlar minningar. Við hittumst svo einmitt nokkur úr árgangnum í gærkvöldi og var mikið hlegið og rifjað upp. Við vorum að tala um hvenær við ættum að halda árgangsmót næst en komumst að vísu ekki að lokaniðustöðu. Það verður þó áður en langt um líður.


Jæja, ég ætla að láta þetta duga og skora á æskuvin minn, Andra Þór Kristinsson, að koma með næsta pistil. Hann hlýtur að luma á einhverjum skemmtilegum sögum.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.