Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 29.3.2009 | Ingunn Lára Magnúsdóttir
Ingunn Lára Magnúsdóttir

Þegar ég skrifa þessar línur er verið að reka fólkið í Ljósalandi og Traðarlandi út úr húsunum vegna snjóflóðahættu í fjórða skiptið á stuttum tíma. Auðvitað rifjar það ástand upp minningar sem ég á frá því að ég bjó í víkinni og fór til Jónínu ömmu og Per afa þegar við vorum rekin að heiman. Þar var alltaf tekið vel á móti okkur og gaman að vera hjá þeim.


Ég heiti Inga Lára Magnúsdóttir og fædd árið 1984 á Sjúkrahúsinu í Bolungarvík. Ég er dóttir hjónanna Magnúsar Jónssonar, bílstjóra og Guðrúnar Sigurbjörnsdóttur, náms- og starfsráðgjafa. Við erum búsett í Kópavogi og unum okkur vel þar. Ég er skrifstofudama hjá Actavis og leigubílstjóri um helgar. Bræður mínir eru Sigurbjörn Ingi og Jón Atli og þarf ekki að kynna þá nánar hér.


Mínar bestu minningar úr Víkinni eru tengdar snjó og þeirri staðreynd að ég á mjög auðvelt með að lenda í óheppilegum aðstæðum a la Inga Lára eins og sjá má hér á eftir.


Guli bíllinn minn ( Atosinn) var náttúrulega einstakur, vakti gífurlega athygli, þó ekki fyrir fegurð en margur er knár þótt hann sé smár. Dekkin á honum voru pínu lítil og jafnbreið og skórinn minn en ég leit á hann sem Land Cruser og fór alltaf út í torfærur um leið og snjórinn var kominn. Margir gerðu grín af mér og sögðu mér að setja band í tryllitækið og draga hann sjálf yfir skaflana þar sem ég sat oftar en ekki föst í hverjum einasta skafli sem var á leið minni.


Ein saga er mér ofarlega í minni, við Kata (Katrín Páls) höfðum farið í leiðangur um bæinn og þegar við komum niður brekkuna í Völusteinsstrætinu að Stigahlíð rann ég aðeins til í hjólförunum og við festum okkur. Kata fór út að ýta bílnum en það gekk ekkert, hann var pikkfastur og svo fór ég út og ekki gekk það betur hjá mér, bíllinn sat sem fastast. Þá vildi svo vel til að slökkviliðið var á æfingu og kemur keyrandi niður götuna. Strákarnir stukku auðvitað út til að bjarga okkur en þegar þeir litu inn í bílinn sáu þeir engan þar og þeir horfðu undarlega á mig. Kata hafði falið sig undir mælaborðinu farþegamegin og sást ekki, bílinn var í handbremsu og ég ein úti að ýta.


Yfirleitt var kvöldunum eytt í pottunum í sundlauginni og þar söfnuðust unglingarnir saman og héldu upp stuði og stemmingu. Ég man vel eftir einu skipti þar sem ég var með Bertu Einars í heita pottinum. Ég var að færa mig í upp í stigann vegna þess að ég var orðin dálítið soðin og þræddi mig meðfram veggjum pottarins. Þegar ég kom hjá soginu við hliðina á stiganum þá sogast ég inn í gatið svo fast að ég var pikk föst. Ég reyndi að segja fólkinu sem sat með okkur í pottinum að ég væri föst en engin trúði því. Það var ekki fyrr en ég var alveg að gráti komin og náði að garga að ég væri föst að ég fékk aðstoð við að losa mig. Bakið á mér var allt marið og blátt og ég hef aldrei séð annan eins marblett. Kristín Gríms (Unnar kennara) var í pottinum og fékk þá snilldar hugmynd að prófa að setja rassinn á sér inn í sogið... og viti menn.. hún gat ekki setið í nokkra daga.. svo á að minnka eftirlitið í sundlauginni?


Ég hef alltaf verið einstaklega óheppin þegar ég ætla að ferðast á milli Reykjavíkur og Bolungarvíkur. Það kemur varla fyrir að ég komist á réttum tíma sérstaklega ekki ef ég ætla að stóla á flugið. Einu sinni sem oftar þurfti ég að elta mömmu til Reykjavíkur. Þá var ég veðurteppt í heila viku, brjálað veður og mamma í frjálsræðinu í Reykjavík. Um leið og veðrinu slotaði hringdi ég í rútubílstjóra sem ætlaði að ferja fólk suður og bað hann um far. Til að undirstrika mikilvægi þess að ég kæmist með þá sagði ég honum að líf lægi við, ég þyrfti að komast til mömmu. Blessaður karlinn skildi það og tók mig með en um leið og við keyrðum út Skutulsfjörðinn kom flugvélin inn til lendingar ekki í fyrsta skiptið og ekki það síðasta þegar ég er búin að gefast upp á því að bíða eftir henni.


Ég á víst ekki von á góðu ef ég gifti mig einhvern tímann. Ég virðist vera sú eina í minni fjölskyldu sem lendi í skemmtilegum óhöppum eins og t.d. að detta ofan í bjór karið í brúðkaupinu hans Jóns Atla eða að setja tvær linsur í sama augað og halda svo að ég sé blind. Ræðuhöldin fara örugglega úr böndunum, svo segir fólk að það sé gott að eiga góða fjölskyldu?


Ég var í besta bekknum í skólanum og margar góðar sögur væri hægt að segja af þeim en þetta á að vera pistill en ekki bók.
Ég skora á góðvin minn Stefán Atla Guðnason að skrifa næsta pistil og bíð spennt eftir honum. Rögnu þakka ég boðið fyrir að fá að kynna mig hér.

Með bestu kveðju heim,
Inga Lára.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.