Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 14.4.2009 |
Stefán Atli Guðnason

Ég vil þakka Ingu fyrir áskorunina. Ég veit ekki afhverju hún skorar á mig þar sem mér finnst ég aldrei hafa neitt frásögu færandi. Inga hefur verið dugleg að gera mér og okkur vinum greiða gegnum tíðina, svosem keyra okkur í miðborg Reykjavíkur á ókristilegustu tímum og gæti þessi áskorun verið einhverskonar hefnd í hennar augum. Einusinni hitti móðir mín Ingunni í Bónus og lét hana vita að hún ætti ekki að vera gera okkur strákunum þessa greiða og hreinlega gefa bara skít í okkur þegar við hugðum okkur til hreyfings. Takk mamma. Inga kvaðst hafa mest gaman af því að hlusta á drykkjusönglið, karlasögurnar og umfram allt afreksögur okkar þegar kemur að betra kyninu á leið okkar í bæinn. Hún vissi auðvitað sem var að þær voru hvort eð er meira eða minna allar haugalygi.


Ég heiti Stefán Atli Guðnason og er sonur Guðna K. Þorkelssonar og Guðrúnar Guðmundsdóttur. Þau eru sennilega betur þekkt sem Gunna og Daddi í Víkinni. Ég bjó í Holtabrúninni í rúm 22 ár ásamt fjölskyldu minni og svo vill til að eldri bróðir minn, Sigmundur (Simmi) býr einmitt í Holtabrún 8 í dag ásamt fjölskyldu sinni. Ég á tvo bræður, Simma áðurnefndan og Símon sem býr ásamt kærustu sinni til nokkurra ára, í Garðabænum og una þau högum sínum vel. Ég á mest alla föðurfjölskyldu mína ennþá í Víkinni góðu eins og afa minn og ömmu (Huldu Eggerts og Kela Sigmunds), Möggu frænku (Hulda Magga) og Falla og Simma frændur mína. Nauðsynlegt er að eiga góða að fyrir vestan. Því mun meiri hvati að heimsækja æskuslóðirnar sem allra oftast. Í dag bý ég í Hafnarfirði með konu minni Hugrúnu Diljá, stelpunni minni henni Klöru Líf og þýska fjárhundinum honum Hektori. Ég nem kerfisfræði í Nýja tækni og viðskiptaskólanum Í Kópavogi og stefni á að vera kominn með flöskubotnagleraugu fyrir þrítugt og klæðast World of Warcraft peysu í brúðkaupinu mínu.


Þegar ég hugsa til baka tengjast flestar minningarnar einhverra hluta íþróttahúsinu Árbæ og helling af snjó. Íþróttarhúsið sagði íþróttarmaðurinn sjálfur. Held ég eigi einhversstaðar 2-3 medalíur fyrir fótbolta, öll þessi 22 ár sem ég átti heima fyrir vestan. Veit ekki hvort það teljist viðunandi árangur meðal sannra íþróttamanna. En hey, þetta spurning að vera með ekki satt? Ég var með. Oftast.


Ég man ekki eftir neinu merkilegu ævintýri eins og svo margir sem hér rita. Þó eitt og eitt atriði sem rifjast upp eins og t.d þegar ég og Símon ætluðum að kveikja sinubruna í hlíðum traðarhyrnu. Vorum sennilega ekki mikið eldri en 10 og 8 ára. Við sögðum við tvíburana (Elmar og Þröst þeirra Sirrýar Gests og Viðar Axels) að við ætluðum til Steffýar í Bjarnabúð og kaupa okkur kveikjara og hrinda af stað áætluninni. Það var nóg til þess að þeir hættu við allt saman. Við þökkuðum þeim kærlega fyrir hugrekkið og röltum niður að Hafnargötunni. Steffý seldi okkur kveikjarann í þeirri vitneskju að móðir okkar biði heima eftir honum óþreyjufull. Auðvitað vissi hún ekkert um ráðabrugg okkar. Í hlíðina var haldið og í minningunni lifir þetta eins og við höfum ekki kveikt sinubruna heldur kveiktum við óvart í hálfu fjallinu. Foreldrar okkar birtust, skipandi okkur beint inn í bíl eftir að síðasti loginn var slökktur. Við vorum drifnir heim, strippaðir niður og hent beint í sturtu í þeirri veiku von að syndum okkar yrði skolað burt. Ég skammaðist mín mikið fyrir þetta atvik og þá sérstaklega þann hluta sem foreldrar okkar voru að skipta sér af. Við höfðum fullkomna stjórn á öllu. Fjallshlíðin sást sennilega út í heiðhvolfið eftir þetta og leit út eins og eftir skógarelda sem er ekki beint eðlilegt á þessarri breiddargráðu jarðkringlunnar.


Eitt sinn vorum við og umræddur Þröstur á gangi heim , á göngustígnum hjá Lúlla og Kristný, þegar við vorum að spekúlera. Við gerðum mikið af því. Við vorum í sjöunda bekk, uppfullir af hugmyndum um frægð, stelpur og hvernig við ættum að nálgast hvorutveggja. Við sungum hástöfum lagið Back for good með topphljómsveit heimsins í þá daga, Take that, þegar ég segi: „pant vera Gary Balrow!“ „Hver á ég þá að vera?“ segir Þröstur með sárt ennið. „Þú mátt vera Robbie Williams. What ever.“ Þröstur var ekki kátur þá en hann minnir mig á þetta ennþá daginn í dag þegar ég hreyki mér af spádómshæfileikum mínum þar sem óhætt er að segja að hann fékk þann söngvara sem átti eilítið meiri velgengni að fagna síðar á lífsleiðinni. Sá hlær best sem síðast hlær. Ég hef ekki gefið Gary Balrow upp á bátinn ennþá.


Ein stutt saga hvernig mín fyrstu skíðaafrek litu dagsins ljós. Ég gat varla staðið í skíðin þegar góðvinur minn í þá daga, Jóhann Orri Jóhannsson, oftast kallaður Orri (þeirra Jóa og Ólafar) segir við mig: „jæja Stebbi, þá er það toppurinn“. Það voru einhverjar stelpur með okkur í för þannig ekki gat ég sagt nei og lét mig hafa það að fara efst upp. Þarna var ég, 10 ára guttinn sem hefði aldrei farið lengra en upp á þriðja staur, á leið á topp Traðarhyrnu, sveittur og skíthræddur við það ævintýri sem beið mín. Þegar upp var komið var Orri horfinn. Ég gat ekki verið minni maður, stefndi skíðunum að skálanum, lokaði augunum og lét mig gossa. Afhverju ég datt ekki og slapp við sjúkraflug til Reykjavíkur, skil ég ekki enn þann daginn í dag en þetta varð til þess að ég fór alltaf upp á topp eftir þetta og skíðakunnátta mín lagaðist mikið eftir því sem sólardögunum í hlíðinni fjölgaði þann veturinn. Þetta er góð dæmisaga til þeirra sem vilja gera eitthvað en þora því ekki. Bara láta vaða, versta sem getur gerst er að þér verður haldið sofandi í nokkra daga á Landsspítalanum í Reykjavík.

Flestar mínar minningar að vestan eru eitthvað sem ég get iljað mér við um ókomandi ár. Allir þeir sem ég hef leitt til Bolungarvík sem ekki hafa komið þangað áður, „guðminngóð-a“ og „jesúsminn-a“ þegar þeir líta bæjarstæðið augum enda með því allra fegursta hér á landi. Það voru algjör forréttindi að fá að alast þarna upp og eiga kost á því að geta skotist í heimsókn vestur þegar manni hugnast. Ég vona að komandi kynslóðir sem þarna ala mannin komi til með að bera sömu tilfinningar og ég geri til bæjarins ennþá daginn í dag. Ef svo er þá er ekki hætta á Bolungarvík verði ekki enn stórborg á kortinu eftir 50 ár.
Að lokum vil ég þakka Ingu aftur fyrir að koma mér í þetta nostalgíu kast sem ég hef verið í, ritandi þessi orð niður og vil biðja góðvin minn og frænda, Þröst Erni Viðarsson að halda pennanum á lofti og segja frá sínum ævintýrum og minningum sem hann á í tengslum við Víkina fögru. Sjáumst svo vonandi öll í sumar, hress á markaðsdaginn í júlí.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.