Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 27.4.2009 | Þröstur Ernir Viðarsson
Þröstur Ernir Viðarsson

Góðvinur minn hann Stefán Atli Guðnason hefur skorað á mig að skrifa hér pistil og ætla ég nú ekki að skorast undan því. Svo ég byrji á því að kynna mig, þá heiti ég Þröstur Ernir Viðarsson og er sonur þeirra Sirrýar og Viðars. Stundum þekktur sem annar tvíburinn. Ég á þrjá bræður, Elmar tvíburabróðir minn, Axel sem er sá elsti og litla örverpið hann Gestur, sem er víst byrjaður að raka sig. Ég er búsettur á Akureyri þar sem ég er í sambúð með henni Hrafnhildi Jónsdóttur og syni hennar honum Daníel Orra. Ég stunda nám í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri og stefni á að útskrifast eftir ár. Svo stefnum við fjölskyldan á fjölgun í haust þannig að ég gæti ekki verið sáttari við lífið.

Ég ólst upp í Bolungarvík í Dísarlandinu ( blessuð sé minning þess ) þangað til ég náði 20 ára aldri. Eins og margir fyrirrennarar mínir hafa sagt voru það forréttindi að alast upp í litlu sjávarplássi, eitthvað sem ég hef gert mér æ meira grein fyrir eftir að ég flutti í burtu. Þær eru margar minningarnar sem að koma upp í kollinn þegar ég skrifa þetta. Sérstaklega er það mér í fersku minni þegar við strákarnir í Dísarlandinu, ég, Axel, Elmar, Hávarður, Biggi, Einar Guðmunds, Sólberg og Einar Jón Snorrason ( sem reyndar bjó í Traðarlandinu ) lékum okkur í fótbolta í götunni á veturnar í ófá skipti. Þegar boltinn fór lengst niður götuna, sem gerðist oft þar sem annað markið sneri niður götuna, þá var Biggi litli ávallt sendur til að ná í boltann, enda yngstur. Á sumrin var svo sama klíkan sem spilaði fótbolta á lóðinni hjá Einari Guðmunds. Á þessum árum var Einar Jón, einhverja hluta vegna, mín aðal hetja. Allt sem Einar Jón gerði fannst mér flottast og mér fannst hann bestur í öllu, hvort sem það var í fótbolta eða í körfubolta. Það lýsir sér ágætlega í því að einn daginn sem við strákarnir höfðum ákveðið að hittast og spila fótbolta á lóðinni hjá Einar Guðmunds, erum við allir mættir stundvíslega nema Biggi Olgeirs sem kemur síðastur og segir í bragði: „Bestur er kominn”. Einar Jón svarar í bragði: „Nei Biggi, ég er löngu kominn”. Ég er ekki lengi að bakka Einar Jón upp og segi: „Já Biggi, Einar er sko löngu kominn!.”

Já það var ýmislegt sem maður gat brallað í Víkinni. Þegar ég var um það bil 10 ára gamall smíðaði ég tveggja hæða kofa rétt fyrir ofan húsið hans Sigurgeirs í Dísarlandinu þar sem ég og Sveinbjörn, hennar Gullu og Kristjáns Sævars heitinn, vorum aðal byggingarverktakarnir. Sveinbjörn hélt áfram í byggingarbransanum en ég ákvað að hætta á toppnum. Svo var það algjör snilld að geta rölt í skíðalyftuna og rennt sér heim að dyrum eftir daginn. Þetta er eitthvað sem er ómetanlegt.

Menntaskóla árin fyrir vestan voru ár sem líða mér seint úr minni. Ég hóf mína Menntaskólagöngu á Ísafirði en kláraði í Kópavogi. Þegar ég var Menntaskólanum í Kópavogi og þekkti ekki nokkurn einasta mann, hugsaði ég daglega til baka með söknuði um árin í MÍ þar sem ég þekkti nánast alla. Ég, Biggi Olgeirs og Rögnvaldur Magnússon vorum saman í bekk fyrsta árið í MÍ og við létum eins og hálfvitar, en vorum samt þrælskemmtilegir. Á þessum árum voru ég, Emmi, Aron og Símon límdir við hvorn annan, og erum reyndar enn. Sammi fékk stundum að vera með þegar hann var heima, sem var bara rétt yfir blásumarið. Það var oft fjör í okkur strákunum. Sérstaklega þótti okkur gaman að fara á böll, hvort sem það var á Ísafirði eða í Bolungarvík. Daginn eftir böllin voru atburðir næturinnar krufinn til mergjar þar sem við bakkabræður lentum oft í ýmsum skemmtilegum ævintýrum þegar við fórum að skemmta okkur þannig að það var ýmislegt sem hægt var að ræða um.

Þessi ár mín í Bolungarvíkinni eru mér ávallt ofarlega í huga. Ég hugsa á hverjum degi heim og það segi ég í fullri alvöru. Þegar maður býr ekki lengur þarna fyrir vestan þá sér maður alltaf meir og meir hvað það var gott að búa þar. Frá því ég flutti árið 2002, hef ég komið reglulega vestur í heimsókn. Árið 2008 er eina árið sem ég kom ekkert, ég skammast mín fyrir að segja það og mun bæta að upp og stefni á koma um Markaðshelgina í sumar ef Biggi Olgeirs gerir eitthvað almennilegt úr þeirri helgi. Annars verður það bara einhver önnu helgi. Áður en ég kveð þá ætla ég að skora á hana frænku mína, Sigurborgu Þórarinsdóttur, til þess að koma með næsta pistil. Hún er ávallt hress og kát hefur örugglega eitthvað skemmtilegt að segja. Ég bið heilsa öllum Víkurum sem ég þekki nær og fjær, verið stolt af ykkar uppruna, ég verð aldrei neitt annað en Bolvíkingur, þó ég muni búa næstu 50 árin hér á Akureyri verð ég ávallt 100 % Bolvíkingur. Lifið heil.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.