Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 10.5.2009 | Sigurborg Þórarinsdóttir
Sigurborg Þórarinsdóttir

Hann Þröstur stórfrændi minn skoraði á mig að skrifa þennan pistil. Eins og sannur Víkari þá tek ég öllum áskorunum fagnandi. Ég heiti Sigurborg Þórarinsdóttir og er fædd 1980. Ég er dóttir Þórarins S. Gestssonar og Berglindar H. Bjarnadóttur og á einn bróður Aron Örn. Ég flutti frá Bolungarvík 2001 þegar ég var 21 árs gömul og hafði nýlokið við stúdentspróf frá Menntaskólanum á Ísafirði. Ég bjó til skamms tíma í Reykjavík en svo hélt ég á vit ævintýranna til Dallas í Bandaríkjunum þar sem ég starfaði sem aupair í eitt ár. Þar áttaði mig ég mig á ýmsum kostum þess að alast upp á svona litlum stað eins og Bolungarvík. Ég annaðist 4 börn i Bandaríkjunum og dagurinn fór mestmegnis í skutl, það þurfti að keyra börnin í skóla, íþróttaæfingar, tónlistaræfingar, íþróttaleiki o.s.frv. Þá varð mér hugsað til heimahaganna þar sem ekki hvorki þurfti að skutla eitt né neitt. Allir krakkarnir löbbuðu í skólann, íþróttahúsið og í tónlistarskólann. Í Bandaríkjunum var ekki hægt að leyfa barni að fara út að leika sér við nágrannabarn án eftirlits, en í Bolungarvík var það þannig að farið var út snemma morguns og komið heim á kvöldin án þess að nokkur hefði áhyggjur af manni. Að mínu mati eru það forréttindi að alast upp á stað þar sem börn fá að hlaupa frjáls um.

Ég kom heim árið 2003 og hóf stuttu síðar nám við Háskóla Íslands í félagsfræði og útskrifaðist þaðan 2006. Ég hef starfað mestmegnis við mannauðsmál síðan, fyrst hjá kynningarfyrirtæki þar sem ég var starfsmannastjóri og sl. 2 ár hjá ráðningarþjónustu sem heitir HH Ráðgjöf sem ráðgjafi. Ég bý í vesturbæ Reykjavíkur en foreldrar mínir og bróðir í Hafnafirði.

Það var frábært að alast upp í Víkinni. Á veturna var haldið til í skíðalyftunni og að hugsa til þess í dag að maður hafi hreinlega labbað með skíðin sín upp í brekkuna og rennt sér síðan alla leið heim hljómar eiginlega ótrúlega. Á sumrin var það brennó og skotbolti á lóð leikskólans, útilegur í Skálavík og hjólaferðir út í Syðridal til að veiða síli. Allan ársins hring var svo sundlaugin stunduð grimmt, alltaf full mæting á kvöldin í sund og mér finnst það eiginlega óskiljanlegt í dag þegar ég kem vestur og fer í nuddpottinn í sundlauginni, hvernig allir þessir krakkar komust fyrir í þessum litla potti.

Þegar ég settist niður að skrifa þennan pistil þá komu margar skemmtilegar minningar uppí hugann sem mig langar til að deila með ykkur. Ég, Ellý og Einar Örn vorum saman í stórhljómsveitinni G7, það eru margar skemmtilegar sögur sem tengjast þeim hljómsveitar “ferli”. Fyrsta “giggið” fengum við í Einarsbúð þegar við hringdum og spurðum hvort við mættum spila fyrir viðskiptavinina. Spenningurinn var gríðarlegur og við hlupum í hendingskasti niður í Einarsbúð með gítarinn og við spiluðum tónlist eins og enginn væri morgundagurinn. Eins komum við oft fram á skemmtunum eldri borgara og þótti okkur það rosalega gaman, sérstaklega vegna þeirra góðu veitinga sem voru í boði. Einar hringdi stundum í mig rétt fyrir svona skemmtun og sagði: „heyrðu, ég er svangur og langar í kökur, förum og spilum fyrir gamla liðið”. Við ákváðum svo að bjóða Alberti Jónssyni að gerast meðlimur því hann hafði nýverið haldið tombólu og var tilbúinn að leggja þá peninga í hljómsveitarsjóðinn. Hann spilaði reyndar hvorki á hljóðfæri né söng, en það virtist ekki skipta máli þegar umræddi digran tombólusjóð.

Ég minnist þess einnig þegar ég og Ellý fórum í “business” aðeins 10 ára gamlar. Við tíndum ber og gengum svo í hús og seldum. Þetta gekk mjög vel og ef ég man rétt þá fengum við 16.000 krónur útúr þessu sem þótti mikið fyrir stelpur á þessum aldri. Enda var þetta tekið mjög alvarlega, m.a. farið í viðskiptaferð yfir á Ísafjörð með Lúlla til að selja ber þar. Ellý var svo rosalegur sölumaður, sagði alltaf að þessi ber væru dauðhreinsuð og tók fram að sérstakt sigti hafi meðal annars verið fengið að láni hjá Lóló til þess að ná sem bestum árangri í hreinsuninni.

Ég bjó í tveimur húsum í Bolungarvík. Fyrst í Brúnalandi 9 við hliðina á Stjána frænda og á móti Olla frænda. Við fluttum þaðan árið 1993 og fórum þá á Hólastíg 3 og bjuggum þar þangað til 2001 þegar við fluttum til Reykjavíkur.

Ég er mjög stolt af því að koma frá þessum fallega bæ. Því miður hef ég ekki komið eins oft í heimsókn sl. ár eins og ég hefði viljað en það er alltaf gott að koma í heimahagana. Ég er í saumaklúbbi ásamt 6 æskuvinkonum mínum úr Víkinni, þeim Bjarnveigu, Ellý, Fríðu, Mörthu, Guðlaugu og Árelíu. Við reynum að hittast sem mest og hápunktur hvers árs er þegar við förum saman á þorrablót Bolvíkingafélagsins.

Það virðast vera Bolvíkingar hvar sem maður fer eða fólk sem tengist Bolungarvík á einhvern hátt. Ég held að Bolungarvík ætti að vera “stórasti bær í heimi”.
Ég ætla að kíkja í Víkina fyrstu helgina í júlí og er mjög spennt, þá verður bekkjarmót hjá 1980 árgangnum. Ég hlakka til að sjá ykkur og hafið það sem allra best í sumar!

Ég ætla að skora á verðandi bestu ljósmóður í Evrópu og æskuvinkonu mína Fríðu Jónsdóttur til þess að koma með næsta pistil.

Kærar kveðjur úr Vesturbænum,
Sigurborg


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.