Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 26.5.2009 | Hallfríður Kristín Jónsdóttir
Hallfríður Kristín Jónsdóttir

Hún Sigurborg stórvinkona mín og bekkjarsystir síðan úr fyrsta bekk skoraði á mig að skrifa næsta pistill. Mér finnst þessi liður á víkari.is afar skemmtilegur og ávallt gaman að frétta af Bolvíkingum nær og fjær.

 

Svo ég byrji nú á uppruna mínum þá heiti ég Hallfríður Kristín Jónsdóttir alltaf kölluð Fríða. Ég er dóttir Guðrúnar Ólafsdóttur (Gunna á Gili) heitinnar og Jón Vignis Hálfdánssonar (Nonni á Hóli). Ég er næst yngst fjögurra systkina. Óli stóri bróðir er framleiðslustjóri á Grænlandi, Sigurjón kennari á Akranesi og Helena litla systir mín er að útskrifast sem hjúkrunarfræðingur og er að flytja vestur í Víkina um þessar mundir. Núna bý ég í Vesturbæ Reykjavíkur, alveg upp við KR heimilið ásamt Marinó mínum og dóttur okkar henni Guðrúnu Ingu.

 

Ég flutti alfarið frá Bolungarvík 2003 til að stunda nám í hjúkrunarfræði í Reykjavík og nú 6 árum síðar útskrifast ég einnig sem ljósmóðir. Ljósmóðurtitillinn hefur verið draumur minn um þó nokkurn tíma og get ég stolt sagt ykkur frá því að í ljósmóðurnáminu hef ég tekið á móti 49 börnum og þar af eru 6 Bolvíkingar, sem ég er afar stolt af að hafa fylgt út í þennan stóra heim.
Þegar ég flutti suður á sínum tíma heyrði maður oft borgarbúa nefna hvað Esjan væri falleg í dag eða að það hafi snjóað í Esjuna. Ég verð að viðurkenna að ég var lengi að átta mig á hvaða ,,fjall“ fólk var að tala um enda Esjan ekkert miðað við fjöllinn heima sem umlykja mann.


Þegar ég rifja barnæsku mína er ekki hægt að sleppa því að nefna hann Jón Eggert, son Víðis og Jónu. Okkur varð vel til vina strax á fæðingardeildinni. Við lékum okkur saman fyrstu árin í lífi okkar og man ég sérstaklega eftir því að Nonni var oftar en ekki að fá mig til að gera eitthvað sem ég vildi ekki og sagði: ,,ef þú gerir það ekki þá pissa ég á þig“. Það þarf ekki að enda þessa sögu nema þannig að ég hljóp grenjandi heim með einkennilega blauta rönd framan á smekkbuxunum. Við Nonni giftum okkur á fjórða ári. Ég var að sjálfsögðu með slör sem var net af dúkkuvagni og Silla frænka sem var nokkrum árum eldri en við gifti okkur við athöfn. Við Eva mín Björk Guðmundsdóttir brölluðum líka ýmislegt til að ná okkur í pening og lokuðum m.a. Holtabrúninni með snæri og rukkuðum fólk og bíla um 10 kall fyrir að fara framhjá. Bekkurinn minn í Grunnskóla var einn sá magnaðasti, 17 stelpur og 6 strákar eða eitthvað þar í kring. Aumingja strákarnir innan um allar þessar stelpur. Það var oft mikið fjör og þegar við vorum í 8. bekk kom Gunnar Magnús og kenndi okkur. Hann var með sérlega skemmtilegar kennsluaðferðir. Ef við vorum dugleg þá fengum við oftar en ekki að fara í uppáhaldsleikinn okkar Jósep segir. Eitt skipti endaði sá leikur þannig að allur bekkurinn stóð upp á borðum, benti á höfuðið á sér og sagði empty – empty – empty og þá birtist skólastjórinn í dyrunum. Veit ekki hvað hann hefur haldið um okkur en öll lukum við þó grunnskólanum.

Að loknu stúdentsprófi fór ég að beita hjá Daða Guðmunds. og þá kynntist ég Víkinni minni upp á nýtt og öllu því frábæra fólki sem vinnur í beitningaskúrunum. Ég man að við kallarnir í skúrunum gerðum samning um að þegar ég yrði útskrifuð hjúkka myndi ég koma og annast þá á skýlinu og gefa þeim alltaf sérrý á kvöldin. Veit ekki hversu mikið gang þeir hafa af ljósmóður þegar þeir verða komnir á skýliðƒº.


Eftir að ég eignaðist dóttur mína hana Guðrúnu Ingu árið 2000 fór ég að gera mér betur grein fyrir hversu yndislegt það er að búa í bæ sem Bolungarvík er. Við bjuggum í Víkinni þar til hún var þriggja ára gömul. Ég man að manni þótti það nú ekkert tiltökumál að stökkva inn eftir þvottinum og skilja barnið eftir úti í garði, eitthvað sem maður myndi aldrei gera í henni stóru Reykjavík. Og ef hún ,,týndist“ á milli garða kölluðu nágrannarnir til mín hvar hún væri. Svo þegar Guðrún mín var á sjötta ári þá fannst henni svo stórmerkilegt að afi sinn þekkti sko ALLA í Bolungarvík og sagði vinkonum sínum það óspart, hélt sko að afi sinn væri frægur í henni Bolungarvík. Henni fannst einnig stórskrýtið á þeim tíma að hún mætti labba ALEIN til hennar ömmu sinnar sem bjó í næstu götu. Það eru alger forréttindi að fá að alast upp í Víkinni og saknar maður þess stundum að geta ekki boðið sínu barni upp á það en vonandi getur maður einhvern tímann flutt aftur heim.


En ég gæti haldið áfram í allan dag að tala um kosti Bolungarvíkinnar minnar og hlakka mikið til að kom og halda upp á 15 ára fermingarafmælið með bekkjarsystkinum mínum fyrstu helgina í júlí. Mér finnst við hæfi og ætla að skora á æskuvin minn hann Jón Eggert Víðisson til að koma með næsta pistill.


Bestu kveðjur í Víkina mína,
Hallfríður Kristín Jónsdóttir


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.