Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 16.6.2009 | Jón Eggert Víðisson
Jón Eggert Víðisson

Fríða æskuvinkona mín skoraði á mig að skrifa næsta pistil og að sjálfsögðu skorast ég ekki undan. Vil byrja á að óska Fríðu til hamingju með ljósmóðurtitilinn, en hann er í höfn hjá stelpunni.


Ég heiti Jón Eggert Víðisson og er sonur Víðis Jónssonar og Jónu Arnórsdóttur. Við erum fjögur systkinin en ég er sá eini sem er með nokkuð eðlilegan háralit. Ég á eldri bróður og tvær yngri systur. Við fluttum frá Víkinni fögru strax árið 1994. Með smá viðkomu í Ólafsfirði bjó ég svo á Akureyri í fjölmörg ár, kláraði þar menntaskóla og þjónanám. Þar afgreiddi ég ófáa Bolvíkinga á Greifanum, en það er svona skyldustoppistöð fyrir túrista sem koma á Akureyri. Þaðan lá leiðin til Reykjavíkur þar sem ég bý eins og er og er að læra alþjóðasamskipti í háskólanum og vinn á Argentínu.


Mér finnst alltaf vera voða stutt síðan ég bjó í víkinni og það var ákveðið kjaftshögg þegar krakkar úr 10. bekkjar ferðalagi að heiman komu að borða til mín um daginn, en þau voru að koma af fæðingardeildinni um það leyti sem ég yfirgaf Bolungarvík og muna ekkert eftir mér sem bæjarbúa. Ég var allt í einu orðinn hálfgerður forngripur, glápandi á krakkana og reyndi að giska á hverra manna þau væru út af svipnum á andlitinu. En mér tókst furðuvel að tengja rétta krakka við rétta foreldra.


Ég virðist sverja mig duglega í báðar fjölskyldur því ósjaldan er ég stoppaður af fólki sem kemur til mín að borða og spurður hverra manna ég er, hvort sem er af Ísfirðingum eða Bolvíkingum. Bolvíkingar ættu samt að muna ágætlega eftir mér því ég var alltaf með allar klær úti að selja það sem átti að selja. Hvort sem það var Vestfirska, BB, sjómannadagsmerki eða kinnar frá Hreini Eggerts, þá var ég mættur með þetta að reyna að pranga upp á fólk. Hins vegar var afar mismunandi hvaða hverfi heima voru skemmtileg eða vænleg til sölu. Þannig voru Grundirnar og Bakkarnir langleiðinlegastu hverfin til að bera út í eða selja. Og það virðist sem fólkið sem bjó á Grundunum hafi vitað hvað þau bjuggu á vonlausum stað, a.m.k. fékk maður oft nammi hjá Dæju á Grundunum, Hálfdáni eða Dísu Gísla þegar maður þrammaði með blöðin eða annað til þeirra. Það var ekki slík meðvitund úti á Bökkum, mig rekur ekki minni til að hafa fengið eina einustu kúlu frá fólkinu sem þar býr. Og þó var þetta hundleiðinlegt hverfi. Hins vegar voru þetta sölulegustu hverfin með tilliti til fisks og annars slíks.


Þessi hverfi voru sérsaklega leiðinleg á vetrum því að eins og flestir muna mátti ekki hreyfa vind í Víkinni án þess að rafmagnið færi. Ég man eftir mér við fiskverkunina hjá Magga Snorra í snjókomu og skafrenningi að selja eitthvað að kveldi þegar rafmagnið fór. Sem betur fer sá móðir mín aumur á mér í það skiptið, allavega birtist hún á einni af þeirra ómissandi Lödum stuttu síðar og bjargaði mér frá því að verða ... einhverju sem býr í svarta myrkri að bráð. Það er gaman að skjóta því inn í að Lödu tímabili foreldra minna lauk með brottflutningi úr Víkinni. Síðan þá hafa þau aldrei stigið upp í svoleiðis grip.


Ég ætla hér með að koma á framfæri afsökunarbeiðni, ég lagði aldrei nokkurn tímann leið mína upp á Hól, hreinlega nennti því aldrei. Þið systur, Sjöfn og Lilja, afsakið, það var bara of langt þangað uppeftir.


Þegar ég hugsa til baka þá var spilaði tónlistarskólinn í Bolungarvík nokkuð ríkan þátt í uppeldi mínu. Ég spilaði voða víða á trompettið mitt og varla máttu þrjár manneskjur yfir 65 ára aldri koma saman án þess að ég væri mættur með trompettið ásamt fleirum. Einng var vinsælt að láta mig spila á skólaskemmtunum, 1. Maí, í kirkjunni og víðar. Það eru tvö atvik sem ég man sérstaklega eftir. Eitt sinn var ég að spila í brúðkaupi fyrir Bolvíkinga og gerði svo svakalega feilnótu að hún bergmálar enn í Hólskirkju. Brúðhjónin skildu nokkrum árum síðar og það er örugglega mínum mistökum að kenna. Stuttu síðar var ég ásamt fleirum að spila í félagsheimilinu og þegar við vorum búin kom ein heldri frúin úr víkinni til okkar og sagði „til hamingju, þetta var skemmtilegt. Þið verðið einhvern tímann góð ...“ Þetta átti örugglega að vera hrós frá þessari góðu frú en ég varð svo móðgaður að ég hef varla snert hljóðfærið síðan.


Í heildina var gríðarlega gaman að alast upp í Bolungarvík og ég fann það eftir því sem ég eltist að þetta var ekki bara tilfinning hjá mér. Á menntaskólaárunum og háskólaárunum þá virtist sem ég kynntist Vestfirðingunum alltaf fyrst því þetta er einfaldlega skemmtilegasta fólkið, því skemmtilegra sem það var upprunnið nær Víkinni.


Þegar þetta er skrifað er ég að pakka niður því ég er að yfirgefa skerið og flytja til Frakklands. Þar ætla ég að reka gistiheimili í einhvern tíma. En það skiptir ekki máli held ég hversu langt ég fer að heiman eða hversu langur tími líður frá því að ég yfirgaf Bolungarvík. Ég er Víkari og því gleymi ég aldrei. Takk fyrir mig Bolungarvík.


Ég vil skora á Maju Bet, hennar Betu Maju og Kobba Ragg að skrifa næsta pistil, vegna þess að við vorum samtíða í Menntaskólanum á Akureyri en líka vegna þess að hún er einfaldlega óviðjafnanlegur penni.


Með bestu kveðjum frá bráðum Frakklandi

Jón Eggert Víðisson.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.