Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 15.7.2009 | María Elísabet Jakobsdóttir
María Elísabet Jakobsdóttir

Ég gat ekki annað en hlegið við þegar ég sá á hvern hann Jón Eggert ætlaði að skora. Mér er það vel minnistætt að þegar þessi liður var að byrja og fólk var með í maganum viku hverja yfir því að röðin kæmi nú kannski að þeim, þá sagði ég alltaf að ef einhver skoraði á mig þá myndi ég einmitt skora á Jón Eggert, enda svo bráðskemmtilegt séní þar á ferð. Ég vil þakka honum Nonna fyrir þau stóru orð sem fylgdu áskoruninni frá honum – það er nú töluverð pressa að standa undir þeim.

 

Ég er sum sé Mæja Bet örverpi þeirra Betu Maju og Jakobs Ragnarssonar, fædd í Bolungarvík fyrir rétt tæpum þremur áratugum síðan. Vissulega eru rúm 20 ár aðeins dropi í hafið í sögu svo rótgróins kaupstaðar sem Bolungarvík er en það er nú allur tíminn sem ég hef til þess að horfa til baka.


Frá því að ég var krakki með tígaspena að valhoppa í kringum beitningarskúrana sýnist mér nú fjölmargt hafa breyst. Það þykir sennilega ekki jafn sjálfsagt í dag að skilja fimm ára grísi eftir við skúrana undir misfögrum munnsöfnuði einvala liðs mikilmenna. Þykir mér það þó miður því ég get ekki heyrt að það kunni nokkur maður að tala þá hárbeittu íslensku sem ég fékk þar að hlýða á. Þar voru fyrirkomnir menn sem kunnu að tala við náungann jafn vel og stóryrt og þeir gerðu um hann. Víst má gera ráð fyrir að þeir hafi nú haldið örlítið aftur af sér fyrir framan krakkaorminn sem Kobbi geymdi þarna en mikið andskoti hafði krakkinn samt gaman að djöfulganginum í körlunum. Barnsaugun sáu beitningaskúrana sem heilan heim út af fyrir sig og þráðu fátt annað en að geta beitt, reykt, blótað, fretað og gargað af sama krafti og þeir sem í heiminn fengu inngöngu. En það átti sennilega ekki að verða; hvort það var vegna þess að tímarnir breyttust eða vegna þess að ég hvorki lærði að reykja né náði að beita á ljóshraða veit ég ekki. Ég hef það þó eftir heimildum vonsvikinnar móður minnar að sitthvað hafi ég lært af körlunum – enda væri nú skömm að öðru.


Karlarnir í skúrnum voru þó ekki einu mennirnir í lífi mínu sem ég horfði á með stjörnuglampa í augunum. Þvert á móti. M.a. er ég svo lánsöm að eiga tvo eldri bræður sem ég hreinlega sá ekki sólina fyrir á uppvaxtarárunum. Ekki þykir mér ólíklegt að þeir bræður hafi verið búnir að ákveða að þá langaði í lítinn bróður áður en ég kom í heiminn því þeir fóru oftast með mig eins og gutta, með stöðugar kraftakeppnir og þrautir fyrir mig til að leysa. Það var þó skárra en þegar þeir vildu hund áður en Elísa systir fæddist og báðu um að henni yrði annað hvort skilað eða skipt út. Mér var það nú snemma ljóst að litla systir Magga og Bella átti að vera stór og sterk og er gott dæmi um ofgarnar í þeim efnum þegar þeir kenndu mér að boxa þannig að ég sló fyrsta rothöggið mitt 4 ára gömul. Hanskarnir voru þó fljótlega lagðir á hilluna þar sem þeir, þjálfarar mínir, ákváðu að kröftum mínum skyldi varið í sjómann og átti ég vissulega farsælan feril í því sporti – allavega svona þar til strákarnir í bekknum mínum hættu að vera minni en ég. Það var bræðrum mínum aldrei snúið að spila með mig, allt sem þurfti var að lofa því að taka tímann á meðan ég leysti hvað svo sem þeir lögðu fyrir mig. Ég hugsa að ég hefði hlaupið út í Skálavík fyrir þá ef þeir bara hefðu sýnt mér skeiðklukku. Ég var orðin skammarlega stálpuð þegar ég sá í gegnum þetta hjá þeim og áttaði mig á því að þeir höfðu alltaf bara skáldað einhvern tíma til þess að friða mig. Svo hænd var ég að bræðrum mínum að þegar Maggi var farinn í Reykholt og mamma tók mig með sér á pósthúsið til þess að senda honum pakka þá sat ég sem fastast eftir og harðneitaði að haggast fyrr en Maggi kæmi til þess að sækja hann – enda var mér fyrirmunað að skilja af hverju mamma var að skilja eitthvað eftir fyrir hann þarna, hann átti bara að vera heima.


Á meðan ég, eins og rjúpa við staurinn, rembdist bróðurpart barnæsku minnar við það að vera sterk glímdi ég á sama tíma við glettilegan skort á hæfileikum til þess að standa í lappirnar. Það leið varla sá dagur að mér tækist ekki að krambúlerast eitthvað og get ég séð á fjölmörgum myndum að ég hef örugglega alltaf verið hálf beyglaður krakki. Oft var ég eins og einhyrningur eftir að hafa rennt mér niður handriðið við skólann en sérstökum óhöppum urðu þó hnén mín fyrir og má vera að þar sé skýringin komin á allt að því æðisgenginni taugaveiklun minni fyrir því að láta koma við hnén á mér. Ég man svo vel að eftir öskudagsball eitthvert árið var ég að hlaupa í gullfallega trúðabúningnum sem mamma saumaði á mig. Sem endranær varð mér fótaskortur, ég steig á buxnaskálmina og hrundi niður þannig að hnéskelin skall á hornið á tröppu. Eftir það skreið ég inn og bað Bella bróður minn um plástur. Hann rétt gaut augunum að hnénu, sá hvar beinið stóð maskað upp úr og þar með steinlá hann. Eflaust langaði hann bara að stela senunni – ekki þori ég allavega að halda neinu öðru fram.


Þrátt fyrir ólæknandi klaufaskap komst ég nokkuð klakklaust í gegnum barnæsku og unglingsárin í Bolungarvík. Kannski bærinn hafi líka virkað örlítið sem dempari fyrir barn sem sagði ekki orð fyrstu 15 ár ævi sinnar og óttaðist fátt meira en margmenni. Ég hef alltaf kunnað því afar vel að koma úr litlum bæ. Minni bæir samanstanda af einstaklingum í stað þess að fólk sé skilgreint eftir hverfum, skólum eða klíkum og finnst mér það frábært að hafa alltaf fengið að vera bara ég. Það er helst að við skilgreinum kannski hvert annað af fjölskyldum okkar og það get ég bæði skilið og sætt mig við.


Þegar kom að því að yfirgefa Bolungarvík á menntaskólaárunum fannst mér ég vera ótrúlega vel í stakk búin, bæjarlífið var fjölbreytt og var alltaf vinnu að hafa fyrir krakka. Ég skildi þó fyrst hversu ómetanlegt það raunar er þegar ég fór erlendis til háskólanáms og hitti fyrir rúmlega tvítuga borgarbúa sem aldrei höfðu unnið handtak. Verðmæta- og veruleikaskyn þeirra gat oft og tíðum gengið svo hraustlega fram af mér að mig langaði að ferja þetta heim í kippum og kenna þessu liði að skera úr eða beita. Best hefði auðvitað verið að koma þeim í bræðsluna og láta ilminn koma því í kollinn á þeim að aurinn er ekki alltaf fenginn með því að brosa framan í pabba... þó það sé nú reyndar tækni sem hefur vissulega líka oft gengið upp hjá mér sjálfri, svona í bland við annað.


Í dag el ég manninn hérna heima í Bolungarvík og unni mínum hag alveg hreint bærilega, ég get þó ímyndað mér að hefðum við ekki komið aftur vestur eftir að hafa flutt suður um nokkurra ára skeið þá hefði sýn mín á bænum verið allt önnur. Því langar mig að skora á brottflutta frænku mína hana Halldóru Gylfa, enda vongóð um að hún eigi sæg af minningum héðan – og hver veit nema upprifjun á þeim dugi til þess að við náum að lokka hana vestur í heimsókn við tækifæri.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.