Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 8.12.2009 |
Kristín Una Sæmundsdóttir

Jæja, það var ekki hægt að neita því að taka þátt í að vera virkjaður Víkari, þegar Ragna og Þjóðólfur höfðu samband, svo ég geri bara mitt besta. Því allt lætur maður nú hafa sig út í og því ekki.

 

En þá er bara best að kynna sig. Ég heiti Kristín Una Sæmundsdóttir og er dóttir Sæmundar Óskarssonar og Elínar Ingimundardóttur, og er ég sú þriðja í röðinni af fimm systkynum. Ég er fædd og uppalin á Eyri í Kollafirði, Gufudalssveit í Austur-Barðastrandarsýslu en sveitin hefur breytt um nafn og heitir Reykhólasveit núna (en ég er samt ekki úr þeirri sveit). Ég er líka ættuð úr Strandasýslunni að hluta en föður/móðir mín var fædd í Arnkötludal „rétt hjá þar sem nýji vegurinn liggur“ eða um það bil og þar með er ég líka í Tröllatunguættinni og finnst það skemmtilegt. Við erum nefnilega frábær ættin sú, en hún er orðin stór eða eins og stelpurnar mínar sögðu, þegar þær voru að þrasa við nágrannabörnin „ við eigum líka fjórar bækur af ættingjum".

 

Þegar eg var 19. ára gömul (sem var fyrir mörgum árum) og nýkomin úr Húsmæðraskólanum á Staðarfelli í Dölum ( sem er nú Heilsubatastöð fyrir menn sem kunna ekki að fara með áfengi og önnur vímuefni ) fór ég í sumarvinnu vestur í Bolungarvík en þau ár urðu að 32 árum. Anton Óskarsson útvegaði mér vinnu í frystihúsinu hjá Einari Guðfinnssyni en þar unnu flest allir Víkarar á þeim tíma og hann reddaði mér líka samastað hjá þáverandi tengdaföður sínum honum Kjartani Guðjónssyni, en hann var ættaður austan undan Eyjafjöllun eins og móðir mín, þau voru úr sömu sveit og þekktust í æsku. Ég held líka að ég hefði aldrei getað verið í verbúð þarna, það bara var ekki fyrir feimna sveitastelpu eins og mig.

 

Það sem ég man best frá þessu sumri af verunni hjá Kjartani var að hann eldaði alltaf kjötsúpu á sunnudögum eða einu sinni í viku, hann var alltaf með fullt grænmetishólfið í ísskápnum af tómötum sem við borðuðum í flest mál, allavega ofan á brauð ásamt tómatsósu og osti allt sumarið. Og svo var það hann Jómmi sem var með svo mikið hár að hann lenti alltaf í vandræðum með að greiða á sér lubbann eftir hárþvott , svo eg varð hálfgerð hárgreiðslukona hjá honum en það var bara um helgar því hina dagana kom okkur ekkert sérlega vel saman en við vorum ansi þrasgjörn hvort við annað og hefðum getað verið systkyni á því sviðinu.

 

Ég kynntist manninum mínum honum Helga Birgis, syni Birgis og Helgu Helga, fljótlega. Ég sá hann fyrst á rúntinum og svo í grunninum á nýju sundlauginni sem þá var verið að byrja á að byggja, ásamt húsum við Skólastíg og Vitastíg sem voru á ýmsum byggingarstigum og flestar götur ómalbikaðar. Við trúlofuðum okkur svo eftir fjögurra mánaða samband í okt árið 1972 og giftum okkur í ágúst árið 1974. Þetta þætti nú ekki gott nú til dags, en við erum ennþá gift og áttum 35 ára brúðkaupsafmæli í haust.

 

Við eigum þrjár stelpur, Helgu Svandísi kennari gift Finnboga Bjarnasyni og eiga þau þrjú börn og búa í Víkinni. María Þórunn þroskaþjálfi í sambúð með Ómari Skúlasyni og þau eiga tvö börn og þau búa í Grafarvogi og Birgitta Elín verðandi hársnyrtir trúlofuð Rúnari Ólafssyni og þau búa í Kópavogi.

 

Við bjuggum lengst af uppi í Ljósalandi 3 en fluttum suður fyrir fimm árum í Hafnarfjörð, en þá fór Helgi að vinna hjá Gámaþjónustunni í Reykjavík og vinnur þar enn, en er komin á Stór-Keflavíkursvæðið. Eg byrjaði að vinna hjá Íslandspósti í Hafnarfirði og arkaði um götur Hafnarfjarðar í eitt og hálft ár, þá fékk eg nóg af póstburði og byrjaði að vinna hjá Svæðisskrifstofu Reykjaness á sambýli í Kópavoginum og vinn þar ennþá. Ég þekki líka orðið hverja hundaþúfu við Reykjanesbrautina enda er hún einn af þremur stöðum sem ég eyði deginum lengst á. Ég er hálfnuð við að læra til félagsliða núna um áramótin og stefni að því að klára næsta haust . Þetta er bara reglulega skemmtilegt . Við búum í Innri Njarðvík og höfum gert í tvö ár, hér vaxa engin tré en það hefur verið reynt að gera þau úr grjóti og tekist með ágætum að mér sýnist.

 

Þó svo að ég sé Barðstrendingur hef ég alið mestan hluta ævinnar í Bolungarvík, alla vega er ég Vestfirðingur fyrst og fremst og ein af tengdadætrum Bolungarvíkur.

 

Ég vil að endingu senda ástarkveðjur vestur og til hamingju með Óshlíðargöngin.

 

Víkin lengi lifi.
Eg vil svo skora á hana Selmu Friðriks (hans Guðbjörns Kristjáns ) að vera næsti gestur Víkara. Hún býr í Hinnerup í Danmörk og hlýtur að hafa einhvað að segja skemmtilegt.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.