Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 17.1.2010 | Selma Amalía Friðriksdóttir
Selma Amalía Friðriksdóttir

Þegar hún Stína Sæm hafði samband við mig um að skrifa i Virkjum Víkara, vissi ég hálfpartinn ekki hvað ég var að taka að mér. En þar sem Stína heldur fram að ég hafi frá einhverju skemmtilegu að segja læt ég vaða.

Ég er fædd og uppalin í Súðavík og fluttist til Bolungarvíkur í janúar árið 1977 með dóttur mína, hana Írisi Ösp. Ég tók þá við starfi leikskólastjóra í gamla leikskólanum, eða þar sem Drymla er til húsa í dag. Seinna fluttum við í leikskólann Glaðheima sem enn er starfræktur.Ég bjó í Víkinni fögru í tæp 13 ár og þar dreif ýmislegt á daga mína. Þar kynntist ég manninum mínum, Guðbirni Kristjánssyni, syni Kitta Sala og saman byggdum vid draumahúsið ad Traðarlandi 24 sem nú er búið að brenna. En við veltum okkur ekki upp úr því.

Ég á margar góðar minningar úr Víkinni og kynntist þar mörgu skemmtilegu fólki. Ég man hvað við stelpurnar í saumó hlógum oft mikið og kepptumst við ad baka bestu kökurnar. Þad voru meðal annarra þær stöllur Stína Sæm, Stína Gunnars, Dedda hans Snorra, Dísa hans Palla, Sirry Gests, Gunna hans Dadda og fleiri eftirminnilegar konur. Þad var sko framleyðsla bædi á kökum og prjónaverkum og húmorinn í lagi. Það var líka oft gaman hjá okkur starfsfólkinu í leikskólanum og öllum krökkunum sem jú auðvitað sum héldu að við starfsfólkið byggjum saman þarna í leikskólanum, hvað annað! Ég man til dæmis eftir einu atviki í gamla leikskólanum þar sem ungur maður hafði verið ad hrekkja annað barn og ég spyr „hvað gerðirðu við hann?“ þá svarar sá ungi mjög hissa á svipinn„hann var bara svona!“

Svona gæti ég endalaust haldið áfram. Þorrablótin eru mér minnistæð og náttúrufegurðin engu lík.

Við hjónin fluttumst til Reykjavíkur og eignuðumst þar son okkar, Grétar Snæ, sem nú er að verða 18 ára. Leið okkar lá svo til Danmerkur og erum við búin að búa hér í rúm 14 ár. Ég held mér ennþá við börnin og menntaði mig í sérkennslu með sérsvið í talkennslu, heyrn og heilaskaða og er ég að vinna við það. Við höfum það gott hér, en ræturnar eru auðvitad alltaf á Íslandi.

Ég vil skora á vin minn hann Sigurð Eggertsson að vera næsti Virkjaði Vikari. Hann bjó í Bolungarvík á sama tíma og ég. Hann býr núna í Kaupmannahöfn, og hefur örugglega frá mörgu að segja úr Víkinni fögru.

Ég vil að lokum senda mínar bestu kveðjur til allra Vikara nær og fjær.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.