Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 13.2.2010 | Sigurður Eggertsson
Sigurður Eggertsson

Siðastliðið haust voru 30 ár liðin frá því við fluttum frá Bolungavík, vorum við þá búin að vera búsett í Víkinni í á áttunda ár.

 

Ég kom fyrst til Bolungavíkur vorið 1962, þá 13 ára gamall og var þar viðloðandi meira og minna fram að því að ég for að læra að smíða 17 ára gamall, á þessum árum var ég mest úti á sjó, einnig í beitningu og ýmsu öðru, svo var ég í skóla í Reykjanesinu. Ég réri með mörgum heiðursmönnum eins og t. d. Leifi Jónssyni, Guðmundi Halldórssyni, Pálma Sveins og Bjarna Sala. Seinasta sumarið var ég í vestfjarðafluttningunum með karli föður mínum, en hann var skipstjóri hjá Einari í nokkur ár, annars var hann að nokkru leiti alinn upp í Bolungavík og leit alltaf á sig sem Bolvíking, Sigurmundur afi minn hafði komið í Víkina 1932 og var þar læknir í 20 ár.


1966 fór ég að læra húsgagnasmíði og að því loknu var ég eitt ár í Danmörku, vann þar aðallega við að slátra svínum, síðan lá leiðin heim til að klára samning í húsasmíðinni.


Leiðir okkar Unu lágu saman um veturinn 1972, við hófum búskap í lítilli íbúð á Sogaveginum í Reykjvík, leigðum hjá Steingrími Bjarnasyni sem lengi var fisksali í Bústaðahverfinu, hann var ekta Bolvíkingur, harðjaxl af gamla skólanum, en góður vinur og eftirmynnanlegur persónuleiki.
Þegar kom fram í júní ákváðum við skötuhjúin að taka okkur smá frí og fara í ökuferð um landið og það var ekki að sökum að spirja, við lögðum af stað snemma morguns þann 17. Júní og vorum komin til Bolungavíkur um kvöldið og gistum hjá skólastjórahjónunum.


Á þessum tíma var mikið um að vera í Bolungavík og bjart framundan, við urðum strax uppnumin af bjartsýninni sem var ríkjandi. Jón Friðgeir var að byggja ráðhúsið og sundlaugarbyggingin að komast í gang, ég hitti Jón og jú auðvitað kom ekki annað til greina en að ég flytti vestur og færi að vinna fyrir hann, en það var úr vöndu að ráða með húsnæði, en það hlítur að bjargast, jú auðvitað bjargaðist það því ég hitti Boga í Tungu sem átti þegar þetta var gamla íbúðarhúsið í Meirihlíð, þú flytur bara í Meirihlíðina og lagar þarna til uppí leiguna.


Þá var bara að brenna suður og ganga frá okkar málum, við giftum okkur 1. Júlí og vorum alkomin til Bolungavíkur 4. Júlí. Við fórum beint í Meirihlíðna og vorum þar í hálft annað ár, þaðan fórum við í Einarshúsið gamla og vorum þar í eitt ár, þá lá leiðin í Steinhúsið þar sem við vorum í eitt ár, þar vorum við í sambýli með Jónasi Geogssyni og Bínu. Það gat verið svolítið strembin sambúð vegna þess að í Steinhúsinu voru tvær íbúðir en bara eitt baðherbergi en Bína hafði þann háttinn á þegar Jónas lenti á fylliríi að láta renna af honum í baðkerinu, annnars var Jónas besti drengur en sjálfumsér verstur lengi vel, en hann átti eftir að frelsast. Úr Steinhúsinu flytjum við í Hjallastrætið, þar var auðvitað allt hálfklárað eins og gekk á þessum árum hjá fólki sem birjaði að byggja með tvær hendur tómar en þetta hafðist allt saman.


Og ég fer að vinna hjá Jóni Frðgeir, var mest í sundlauginni og einnig í ýmsu öðru, auk þess sem ég tók að mér um veturinn smíðakennslu í skólanum, þetta voru nokkrir tímar á viku, ekki fann ég mig í þessu starfi , hef sennilega skort þolinmæðina.


Við Jón áttum síðan eftir að elda grátt silvur saman næstu árin, bæði var að eftir að ég fór að vinna sjálfstætt tók ég að mér ýmis verkefni fyrir hann og eins keypti ég mikið af byggingavörum hjá honum, það gat verið strembið að ná ásættanlegri þóknun fyrir ýmis viðvik og eins að fá vörur keyptar á skaplegu verði og með viðráðanlegum greiðsluskilmálum. Jón var flinkur samningamaður en gat verið ótrúlega brögðóttur, en samt sem áður stóð hann alltaf við allt sem um hafði verið samið og var þá sama hvort samkomulagið var skriflegt eða bara okkar í milli, ég mynnist Jóns alltaf sem skemmtilegs samferðamanns sem vert var að kynnast.


Á þessum árum var mikið byggt í Bolungavík, ekki hef ég neina tölu yfir þau hús sem ég vann við að byggja, það var hamast við frá því í maí og frameftir hausti. Þetta var endalaus uppsláttur og steypuvinna allt framkvæmt á svipaðan hátt, tveggja bygginga sem ég vann við man ég þó vel eftir en það eru sundlaugin og heilsugæslustöðin sem ég stóð fyrir sjálfur. Flesta veturnar var ég úti á sjó, mest á Páli Pálssyni, einnig á Dagrúnu og hluta úr vetri var ég á rækju með Rögnvaldi heitnum Guðmundssyni, en hann var góður vinur.


Annars er eftirminnanlegasta verkefnið sem ég kom að, að endurbyggja bátinn hans Jóns Ásgeirs. Það var um páskanna fyrsta veturinn að ég hitti Jón Ásgeir á balli í Félagsheimilinu, þú ert akkúrat maðurinn sem ég þurfti að hitta segir Jón mig sárvantar mann til að hjálpa mér með bátinn, ég kann ekkert í bátasmíðum segi ég, gerir ekkert segir Jón hann Guðfinnur úr Reykjafirði er búinn að lofa að segja mér til við þetta en hann hefur ekki tíma til að hjálpa mér því það er svo mikið að gera hjá honum. Það vað úr að ég lofaði, sennilega af einskærri forvitni að koma og líta á þetta. Einar Guðfinnsson hafði lofað Jóni að hafa bátinn í skreiðarhúsinu, þar mætti ég svo eftir hádegið á sunnudeginum, hurðin var opin og ég gekk beint inn, báturinn stóð á miðju gólfinu, búið var að rífa allt ofan af honum og tvö efstu borðin, þá var kjölurinn einnig farinn, ég góndi á þetta hrúgald og hugsaði með mér, nú er best að vera snöggur að hipja sig, en ég fékk ekkert færi á því, því rétt i þessu stekkur Jón inn úr dyrunum og segir, komdu blessaður vinur ég var orðinn hræddur um að þú mundir svíkja mig en heldurðu að við verðum í nokkrum vandræðum með að gera þetta að skipi aftur. Og hvað átti ég að segja, allavega lagði ég ekki í sannleikann og um kvöldið vorum við komnir á fulla ferð við að gera gamla Dímon að skipi aftur. Við vorum svo mánaðartíma að ljúka þessu , unnið var alla daga og yfirleitt fram eftir kvöldi og Jón réri um sumarið og þó nokkur sumur eftir það, okkur lukkaðist þetta sæmilega, en báturinn varð samt aldrei almennilega þéttur því við notuðum krossvið í borðin sem skipt var út, en það reyndist ekki vel, vildi drippa með saumnum. Allann tímann sem við vorum að glíma við þetta var stanslaus straumur manna sem vildu fylgjast með framkvæmdum, þarna komu flestir gömlu höfðingjarnir, menn einsog Einar Guðfinnsson, Högni á Ósi, Jónsi Elli og margir fleiri, þarna dundi á mér hafsjór af fróðleik, gömlu formennirnir, bátarnir og gömlu bátasmiðirnir urðu þarna ljóslifandi. Mangi Halli var einn af fastagestunum, hann sagði mér að þegar hann var ungur maður um 1920 var honum boðið að vera skipstjóri á þessum bát en hann afþakkaði boðið því honum fannst báturinn vera orðinn svo gamall og lélegur.


Það var svo um haustið 1979 að við flytjum til Ísafjarðar við vorum þá búin að eignast þrjú börn sem öll fæddust á Skýlinu. Á Ísafirði bjuggum við svo í þrjú ár, ég hafði tekið að mér að stjórna stórum framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru, lítið sem ekkert varð úr þessum framkvæmdum og þótti mér lengi ég hafa eitt tímanum þarna í óþarfa.


Frá Ísafirði flytjum við svo á Seltjarnarnes þar sem við erum í 9 ár og síðan 3 ár í Reykjavík. Eftir komuna suður fór ég í meistaraskólann og síðan á fulla ferð í byggingaframkvæmdum þetta óx hröðum skrefum, ég fjölgaði mönnum og efnaðist vel, en á árunum uppúr 1990 varð samdráttur í byggingasrfsemi og sennilega hef ég verið orðinn of stór á vitlausum tíma og endaði í gjaldþroti.
Um vorið 1994 fer ég ásamt félaga mínum sem svipað var ástatt fyrir til Þýskalands, höfðum fengið fregnir af miklum framkvæmdum í austurhluta Berlínar, þetta reyndist allt orðum aukið,en við fengum verkefni þarna og vorum í tæpt ár.


Frá Berlín fór ég upp til Jótlans og keypti hús í Haderslev, 30,000 manna bæ sem er skammt frá Þýsku landamærunum, þarna semeinaðist svo fjölskyldan og vorum við þarna í 6 ár, þar var gott að vera, enda Suðurjótarnir laukurinn úr Dönum, vinnusamt, fastheldið og traust fólk líkt og Vestfirðingar þegar við tölum um Íslendinga.


Frá Haderslev förum við til Kaupmannahafnar og erum búin að vera hér í 8 ár. Una er útlærð sundhedsassistent og stjórnar sinni deild á einu elliheimilinu hérna. Ég vinn alltaf við trésmíðar, mest húsaviðgerðir, vinnustaðirnir eru um allt Sjáland og einnig töluvert uppi í Noregi, strákarnir okkar hafa unnið með mér meira og minna, Simmi er trésmiður og stúderar nú byggingafræðina en Siggi hefur ekki haft neina þörf fyrir titla. Dóttirin Steina er hjúkrunarkona og vinnur á sjúkrahúsi. Við erum búin að fá 8 barnabörn. Afkoman og efnin hafa aukist og í heildina tekið höfum við það mjög gott.


Árin okkar Unu í Víkinni eru bestu árin okkar og sjálfsagt hefðum við getað átt þarna miklu fleiri góð ár, en ég lét glépjast af einskiverðum gylliboðum, nú en það er jú ríkt í mannskepnunni að telja alltaf búsældarlegra hinumegin í dalnum .


Bestu kveðjur til allra okkar gömlu vina Í Bolungavik.


Að endingu vil ég skora á Hanhólssyskinin að senda einhvern úr sínum hópi með nokkrar línur.
Sigurður Eggertsson.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.