Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 7.4.2010 | Sigurvin Hannibalsson
Sigurvin Hannibalsson

Sigurvin Hannibalsson hefur verið virkjaður til að skrifa pistil á Víkara. Hann er fæddur 17. febrúar árið 1937 í Þernuvík sem var innsti bærinn (jörðin) í Ögurhreppnum. Ljósmóðir hreppsins var frú Hildur Hjaltadóttir sem bjó á Hrafnabjörgum í Laugardal og þannig stóð á þennan dag að hún var einnig að fæða barn svo sækja varð ljóðmóðir í Reykjafjarðarhrepp sem er næsti bær fyrir innan Ögurhrepp. Bjó hún á Látrum í Mjóafirði og hét hún Hólmfríður Bergsveinsdóttir, hún var gift Þórarni Helgasyni bónda á Látrum en hann var áður ekkill. Giftusamlega tókst að koma báðum þessum nýju íbúum Ögurhrepps í heiminn. Hinn var Helgi Samúelsson en hann varð seinna skólabróðir Sigurvins í Bolungarvík í barnaskólanum og síðar fermdust þeir í Hólskirkju. Helgi hélt til hjá afa sínum Hjalta Einarssyni meðan hann var í Víkinni en seinna fór hann í framhaldsnám og lauk verkfræðiprófum í Þýskalandi.

Saga Sigurvins Hannibalssonar:

Ég fór í nám í Héraðsskólann í Reykjanesi síðan í nám í Reykjavík í plötu og ketilsmíði og þaðan í Vélskóla Íslands. Þaðan lauk ég vélfræðiprófi og starfaði mest sem vélstjóri en er nú sestur að mestu í helgan stein eftir fjölbreyttan starfsvettvang.

Ferðalag sveitastráks til Bolungarvíkur

ÁRið 1944 höfðu foreldrar mínir sem voru Hannibal Guðmundsson og Þorsteina Jónsdóttir ákveðið að flytja búferlum, en þau höfðu stundað búskap í Þernuvík í Ögurhreppi við Ísajarðardjúp. Þau munu hafa haft ca. 1/3 part af jörðinni til sinna afnota. Pabbi hafði byggt nýtt íbúðarhús og fjárhús á jörðinni. Hinn hluta jarðarinnar áttu Þórarinn Dósóteusson og kona hans Dórótea Guðjónsdóttir. Þau bjuggu þar í torfbæ með börnum sínum, sem voru sum farin að heima þegar þetta var. Foreldrar mínir voru búin að búa saman í sjö til átta ár þegar þetta stóð til en áður hafði pabbi búið þar einn um nokkur ár. En þegar þarna var komið við sögu hafði þeim fæðst sjö börn og var ég elstur sjö ára gamall.

Það liggur því í augum upp að ekki myndi vera auðvelt að framfleyta svo stórri fjölskyldu á ekki stærri jörð. Pabba hafði boðist jörð til ábúðar í Bolungarvík sem ríkið átti og var það jörðin Hanhóll í þá Hólshreppi. Jörðin hafði þá staðið auð í tvö ár. Fyrrverandi bóndi, Hjörtur Sturlaugsson hafði selt ríkinu jörðina, en það var algengt á þeim árum til aðstoðar bændum sem fóru illa út úr kreppunni á fjórða áratug síðustu aldar. Hjörtur hafði flutt að Fagrahvammi í Skutulsfirði. Pabbi sá að hann gat haft þarna fleiri kindur og einnig hægara að stunda kúabúskap og selja mjólk í Bolungarvík. Túnið var mikið stærra en því því miður þýft, en engjar á eyrum fyrir neðan túnið voru rennisléttar, svo hægt var að slá þær með vél. Jörðin átti sláttuvél að hálfu á móti Hólsbúinu og var samkomulag um afnotin, fyrstu árin eða þangað til að Hólsmenn eignuðust dráttarvél með sláttuvél. Galli var á engjunum að þær voru svo votlendar að flytja varð heyið á þurrari stað til að þurrka það. Einnig sá pabbi möguleika á að sækja íhlaupavinnu í þorpið til að létta undir með fjárhagnum en mikið þurfti til framfærslu svo stórrar fjölskyldu og ekki var heldur staðarnumið í fólksfjölgun því átta börn bættust í hópinn eftir að til Bolungarvíkur kom.

Í Þernuvík undum við mjög vel okkar haga enda umhverfið afskaplega skemmtileg fyrir börn að alast upp í. Hjallarnir fyrir ofan bæinn mjög fjölbreyttir og leiðin greið yfir hálsinn til Birnustaða í Laugardal en þar bjuggu afi og amma, Jón Jónasson og Guðmundína Hermannsdóttir. Svo var fjaran fyrir norðan túnið, dásamlegur staður og alltaf eitthvað nýtt að skoða og út í Ketey þar sem krían verpti á vorin og þá komst maður á fjörunni en þar mátti ekki vera of lengi því þá gat hafa fallið aftur sjór í sundið. Það gat því orðið hættulegt enda sannaðist það þegar bróðir minn, sem var tveim árum yngri, var nærri drukknaður í fjörunni. Það voru því blendnar tilfinningar með okkur elstu krökkunum þegar til stóð að flytja því við myndum sakna umhverfisins sérstaklega fjörunnar, en á móti kom tilhlökkun að kynnast ýmsu nýju t.d. þéttbýli og bílum, skipum og vélum.´

Í maí rann svo upp hinn langþráði dagur að inn á víkina renndi sér átta lesta mótorbátur með annan bát í lagi, en mótorbáturinn lagðist fyrir ankeri en hinum var rennt upp í fjöruna en hann var svokallaður bringingarbátur en þeir voru notaðir til að flytja vörur úr og fram í flutningaskipin í Bolungarvík því ekki var komin það góð höfn að þau gætu lagst að bryggju. Í þennan bát voru svo látnar kýr og hestar. Búslóðin var svo flutt úr í mótorbátinn en hann hét Max frá Bolungarvík í eigu Einars Guðfinnssonar og líklega að hluta til eign formannsins sem var Þorbergur Magnússon en hann var frændi mömmu og afa, ættaður frá Efstadal og Laugabóli í Laugardal. Eftir mikið umstand var svo lagt af stað, búið að kveðja fólkið í Þernuvík, afa og ömmu og fleira fólk sem hafði komið til að kveðja okkur.

Eitt atvik er mér minnisstætt. Ég hafði verið mikið að sniglast við bringingarbátinn í fjörunni en fullorðna fólkið í óðaönn að bera dót til sjávar. Þá fór ég að stefni bátsins og setti bakið í og reyndi að ýta honum á flot en þá var öskrað á mig ofan af túninu að hætta en líklega var báturinn þyngri en svo að ég gæti bifað honum. Nú að endingu var svo fólkið flutt út í Maxinn og komið fyrir í lúkarnum. Lilja systir var reyndar skilin eftir hjá ömmu og afa að ég held hálf grátandi í fjörunni. En það var afráðið að hún yrði í fóstri hjá afa og ömmu á Birnustöðum. Yngsta barnið Ásdís var aðeins nokkra mánaða og var enn á brjósti. Mamma gag hreiðrað um sig með hana í allgóðri koju í lúkarnum.

Veður var gott þennan dag, alveg logn og léttskýjað um morguninn og frameftir degi. Fljótlega eftir að lagt var af stað kom formaðurinn Þorbergur niður í lúkarinn til okkar og hafði hann pabba til að stýra bátnum. Ég sat á bekk stutt frá kamínunni sem var til að hita upp lúkarinn og elda mat. Formaðurinn fór nú að kveikja upp eld og gekk það eitthvað brösótt í fyrstu. Hellti hann þá góðum slurk af steinolíu niður í eldhólfið og gaus þá upp eldur sem náði alveg upp í loft á lúkarnum, varð ég þá lafhræddur, greip í handlegginn á Þorbergi og kallaði " ætlar þú að kveikja í skipinu" en hann var rólegast og bara brosti sagði þetta vera allt í lagi sem og varð. Logarnir duttu strax niður aftur og kamínan fór að hitna.

Eitthvað hugboð hafði ég um að við færum framhjá stórstaðnum Ísafirði og einnig þorpinu Hnífsdal. Ég hafið mikinn áhuga á að sjá það og bað um að láta mig vita þegar sæist þar í land. Þegar leið á daginn var komin smá vindgola og hafði dregið í loftið og var eins og rigningarúði til dala. Og þegar við fórum svo framhjá Skutulsfirði og Hnífsdal var skyggni ekki mjög gott enda var líklega farið að skyggja um nóttina. Ég fór upp í lúkarsgatið en fannst lítið koma til Ísafjarðar og Hnífsdals. Húsin grámygluleg og ljót. Líklega vegna suddans.

Til Bolungarvíkur var svo komið um morgun, bringingarbátnum brynt upp í Brimbrjótsvörina sem var breiðasti lendingarstaðurinn innan við Brjótinn. Skepnurnar voru svo teknar þar á land. Á kambinum fyrir ofan varirnar stóðu margir bátar uppi á landi. Maxinum var svo lagt við Brjótinn. Margt fólk hafði safnast niður á Brjót til að forvitnast um þetta innrásarlið sem var að koma í sveitarfélagið.

Sunnudagur hafði runnið upp og ég held að staðið hafi yfir kosning um sjálfstæði Íslands þennan dag en pabbi og mamma höfðu kosið í Ögri áður en farið var frá Þernuvík. Fólkið á bryggjunni var þess vegna prúðbúið venju fremur og meira á ferðinni. Nú nema hvað þegar ég hafði klifrað upp á brjótinn og sá allan þennan hóp af ókunnu fólki hóf ég að heilsa því með handabandi af meðfæddri kurteisi en fór svo að ég var farinn að heilsa sumum aftur og ákvað þá að hætta. Mamma fór svo með okkur til vinkonu sinnar úr Djúpinu er hét Sigþrúður Steindórsdóttir, hún var orðin ekkja en bjó enn í þorpinu með börnum sínum og sambýlismanni, hét hann Kristján Stefánsson.

Fékk mamma að leggja sig með kornabarnið en þær höfðu orðið aðeins sjóveikar á leiðinni út Djúpið. Margt nýstárlegt bar þar strax okkur fyrir auga svo sem þeim fjöldi af bátum. Fjórir bílar voru í þorpinu. Tveir voru Ford vörubílar og líklega árgerð 1929 og ein Chervolet 1942. Enginn þessara bíla var með vélsturtur heldur lék pallurinn bara á hjörum í miðju og gæta varð þess að setja ekki of mikinn þunga fremst á pallinn því þá gat orðið of þungt til að sturta þegar splittið var tekið frá. Einn fólksbíll var í þorpinu sem ég held að fjórir ungi menn áttu og höfðu líklega keypt með það í huga að auðveldara yrði að fanga hug ungu stúlknanna. Ekki var vegur kominn á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og af sumum talið vonlaust að leggja bílveg um Óshlíð. Vegur nái hinsvegar um Syðridal að túninu við Hanhól og vegur var kominn út Tungudal og upp á Skálavíkurheiði.

Pabbi var fljótlega ráðinn sem verkstjóri að undirlagi Lýðs Jónssonar vegaumsjónarmanns á Vestfjörðum við áfram haldandi vinnu við ánna sem er á milli Hanhóls og Gils. Pabbi var einnig verkstjóri við framhald vegar á Skálavíkurheiði og höfðust menn við í tjöldum út á Heiðinni. Pabbi hafði verið verkstjóri við vegagerð inn í Laugardal áður en við fluttum út eftir en byrjað var að leggja frá brúnni yfir Laugardalsána sem var byggð niður við sjó í Strandseljavíkinni líklega um árið 1932.

Ekki voru önnur verkfæri til vegagerðar en skóflur og hakar og hestvagnar til flutnings á möl en í Bolungarvík voru notaðir þessir frumstæðu vörubílar. Engar ýtur eða vélskóflur voru til þá. Pabbi hafði læst meðferð sprengiefnis og handboraði hann marga steina í vegastæðunum og sprengdi.

Þegar búið var svo að hlaða Chervolet vörubílinn af búslóðinni vorum við krakkarnir og mamma drifin með. Bílstjóri var Guðfinnur Larsen en eigandi bílsins var Einar Guðfinnsson. Við Nonni heitinn bróðir vorum á pallinum. Við hlökkuðum mikið til að sjá væntanlegt heimili. Einnig vorum við forvitnir um hvaða aðferð væri notuð til að stjórna þessu undratæki sem bíllin var í okkar augum og við höfðum aldrei séð áður. Við spurðum svo mömmu þegar við komum heim hvernig bílstjórinn hagaði sér við aksturinn og urðum undrandi þegar hún sagði að hann hefði notað báðar hendur og líka báðar fætur við aksturinn.

Svo var komið í húsið á bænum og fljótlega kom bóndinn af næsta bæ, Ólafur Zakaríasson til okkar og býður mömmu aðstoð við að flytja dót heim frá veginum í hestakerru. Einnig hjálpaði hann okkur að kveikja upp í ofni og eldavél og man ég að mamma var afskaplega þakklát fyrir hjálp þessa góða nágranna.

Nú tók við rannsókn okkar bræðranna á húsum og landareign og fannst okkur margt nýstárlegt t.d. skoða námurnar og róa út á vatnið til að vitja um silunganetin. En alltaf söknuðum við fjörunnar í Djúpinu og auðvitað ömmu og afa á Birnustöðum og oft var okkur líka hugsað til Lilju systur sem varð eftir hjá þeim. Eitt finnst mér skrítið í dag að oft þegar bílar komu fram undir túnið á Hanhóli og stoppuðu þar sem vegurinn náði ekki þá fundum við megna bensínlykt, ekki reykjarlykt heldur ekta bensínlykt, en núna finnur maður varla lykt af bensíni þó maður standi hjá bensíni. Svona vorum við lyktnæm nýkomin úr Djúpinu.

Á Hanhóli tóku brátt við allskonar sveitastörf og voru að sumu leiti með öðru sniði en á Þernuvík. Nú þurfti t.d. ekki að binda heyið og reiða það á klökkum heldur var því hlaðið á vagna og flutt t.d. frá engjunum heim á hólanna til þurrkunar og síðan í hlöðuna. Einn var votheyið en tvær að okkur fannst stórar votheystóftir voru á Hanhóli. Í Þernuvík þurftir að reiða heyið af engjunum bundið í sátur og settar á klakka til heimreiðar á hestum. Við, ég og Guðríður, systir vorum látin fara með lestina sem var nú ekki nema tveir til fjórir hestar strax og við höfðum getu til, það er svona fimm til sex ára, en hesta vorum við farin að meðhöndla strax þriggja ára.

Engjarnar í Þernuvík voru uppi á svæði sem hét Fögruteigar í Hjarðardal. Pabbi hafði girt þetta svæði til að fá betri sprettu. Frá bænum og þangað var rúmur klukkutíma gangur um fjalllendi að fara og mýrardrög inn á milli og varð að fara með gát. Eins og nærri má geta höfðum við enga burði til að laga mikið ef eitthvað bar útaf t.d ef slitnaði sili eða snarast vildi á hestunum. Eða eins og hjá mér einu sinni, ég var bara með tvo hesta og annar hesturinn sökk í keldu svo sáturnar fóru af klökkunum. Sem betur fer var ég ekki komin langt eða sem svaraði rúmum kílómetra frá engjunum Ég skildi báða hestana eftir í dýinu og hljóp organdi til að sækja pabba og vinnumanninn en hann hét Guðjón og var að fara frá Ísafirði. Komu þeir strax með mér og drógu fasta hestinn upp úr og settu upp sáturnar aftur og ég hélt áfram heim en man að eitthvað vildi hallast á hestinum sem fór ofan í sem var því önnur sátan hafði klofnað meira og varð því þyngri. Ég var að reyna að binda á hina stein og svo að reyna að hanga í henni svo allt snaraðist ekki yfir og heim komst ég heilu á höldnu í það skipti. Ég var sex ára þegar þetta var.

Eitt var það sem við vorum látin gera strax á öðru sumrinu á Hanhóli og það var að fara með mjólk og útbúta til viðskiptavina í þorpinu. Fórum við Guðríður systir saman fyrsta sumarið. Þá vorum við sjö og átta ára gömul. Gat það orðið nokkuð snúið að þekkja allar flöskurnar og brúsana en við þurftum að taka tóm ílát í staðin. Mjög mikilvægt var að villast ekki á flöskunum því máttum við búast við að fá skömm í hattinn hjá frúnum því .ær vildu ekki fá helvítis súrflöskurnar frá hinnum konunum, því þær vildu meina að hinar myndu ekki þrífa sínar flöskur nógu vel. En þær þurftu ekki að óttast því mamma skolaði alltaf flöskurnar vel áður en hún hellti í þær og skolaði þá ef henni fannst þurfa.

Eitt var það sem kom stundum fyrir í mjólkurflutningunum var að hestarnir áttu það til að fælast og það endaði oft með því að flöskurnar brotnuðu og tapaðist úr mjólkinni. Einnig brotnuðu stundumlíka kerrukjálkarnir Var þá reynt að bæta úr eftir bestu föngum. Skaffa nýjar flöskur og laga kerruna eða sleðann ef snjór var. Tekin var mjólkin frá heimilinu og jafnvel mjólkað aftur.

Eftir fyrsta sumarið sem var með systir fór ég einn með mjólkina í nokkur ár en síðan tók Nonni bróðir minn við þar til pabbi hætti mjólkursölu, hann fækkaði kúm en fjölgaði kindum. Síðan hélt tæknin innreið sína með kaupum á dráttarvél með áfastri sláttuvél og öðrum heyvinnuvélum. Einnig keypti Ræktunarsambandið hreppana Hóls, Eyrar og Súðarvíkur tvær jarðýtur sem ollu byltingu í ræktunarmálum. Dráttarvélin sem pabbi fékk var 12 hestafla dísilvél af Bautz gerð framleidd í Þýskalandi. Áður átti Búnaðarfélag Hólshrepps tvær dráttarvélar á járnhjólum, Fordson 1924 og International w 4 líklega árgerð 1946. Ýturnar leistu International TD 14 af hólmi, síðan bættist við TD 9 og var unnið stórvirki í ræktunarmálum með þeim. Seinna var ég ýtustjóri á þeim báðum og vann við að slétta tún í þrem hreppum.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.