Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Virkjum Víkara | 1.11.2011 22:32:41 | Trausti Salvar Kristjánsson
Trausti Salvar Kristjánsson

Ég heiti Trausti Salvar Kristjánsson, sonur Kristjáns Jónatanssonar og Þorbjargar Magnúsdóttur. Ég er fæddur þann 4. maí 1978, á Landsspítalanum í Reykjavík.

Í þessari tveggja setninga staðhæfingu felst uppljóstrun einhverrar þeirrar mestu skammar sem undirritaður hefur uppljóstrað á sinni tiltölulega stuttu ævi, sem er þó, líkt og þessi pistill mun leiða í ljós, uppfull af allskyns skömm. Skömmin er þess eðlis að í hvert skipti sem ég er spurður að því hvaðan ég sé, emjar mitt innra sjálf og engist um af stingandi sársauka og smán, líkt og hálfnakinn unglingsstrákur með holdris í kynjablönduðu skólasundi.

Skömmin er fráleitt sú að vera undan merkishjónum þeim er foreldar mínir eru. Annað eins sómafólk er varla til, nema þá helst afar mínir og ömmur. Skömmin er heldur ekki nafnið sem mér var gefið, enda einstakt; enginn annar í heiminum heitir því nafni. Ekki er það heldur dagsetningin á fæðingu minni, þó svo hún hafi borið upp á uppstigningardag, enda er sá er þetta ritar sannheiðinn með endemum. Nei, mín mesta skömm er einfaldlega sú, að vera fæddur í Reykjavík! (drungalegt tónlistarstef)

Já, það er rétt. Ég, sem kalla mig Bolvíking er fæddur í borg óttans, miðstöð malbiksins, höfuðstaðs heimskunnar. Seint mun ég fyrirgefa móður minni þessi afglöp. (eða sirka þangað til ég þarf pössun næst).

En það er kannski ekki endilega fæðingarstaðurinn sem ákvarðar hvaðan maður kemur. Eflaust er það tengingin sem viðkomandi nær við hvern þann stað er hann elst upp á, ekki síst ef minningarnar þaðan eru jákvæðar. Og þær eru sannarlega jákvæðar í mínu tilfelli, þó svo mikið hafi gengið á.

Það er skrítið til þess að hugsa, en lunga ævi minnar, sem spannar nú 33 ár, hef ég búið utan Bolungarvíkur. Fyrstu þrjú árin voru vissulega á Skólastíg 21, hvar ég var einnig getinn. Næstu tvö voru í Árósum í Danmörku. Næstu 12 voru í Heiðarbrún 7, en það eru einmitt árin sem mótuðu mig hvað mest og skópu þessa firnarsterku tengingu við Víkina. Restina hef ég verið syðra, nyrðra, eða erlendis.

Ég tel mig hafa verið nokkuð venjulegan krakka á þessum árum. Aðrir hafa kannski ekki sömu sögu að segja. Ég þótti frekar prúður og góður mömmustrákur heima við, en gat verið svolítill götustrákur utan veggja heimilissins. Því kenni ég alfarið nágrannakrökkunum um, enda kannski ekki furða, þegar nágrannakrakkarnir voru menn á borð við Valdimar Víðisson, Sigurbjörn og Jón Atla Magnússyni, Ómar Skúlason og Kristján Heiðberg Benediktsson. (Æ fjandinn, ég var nú sennilega verstur af þeim...)

En sem betur fer fyrir mig var barnasálardrápslyfið Rítalín ekki til í þá daga, því miður fyrir Önnu G. Edvardsdóttur, sem lengst af var kennarinn minn í grunnskóla og ber stærsta ábyrgð á því hvernig „rættist“ úr mér, a.m.k. í akademískum skilningi. Miðað við efniviðinn tókst henni þó ansi vel til, því ég var nú eflaust ekki auðveldasti nemandinn hennar. Anna hafði reyndar merkilega gott taumhald á bekknum, eða öllu heldur klossinn hennar,  er honum var sparkað þéttingsfast upp-undir kennaraborðið með tilheyrandi hvelli, að jafnvel Egill Gunn hætti að tala, og var hann þó staddur í Shell skálanum.

Er ég lít um öxl er engum blöðum um það að fletta, að ég var trúðurinn í bekknum. Sífelldar mis-hnyttnar athugasemdir og brandarar, sem færðust nær mannsklofinu eftir því sem röddin dýpkaði. Að standa undir slíku skemmtanahaldi krafðist auðvitað vinnu og einbeitingar, sem eflaust kom örlítið niður á hinu bóklega námi. Sem betur fer þjáðist ég þó ekki af tilfinnanlegum greindarskorti og gat nú alltaf bjargað mér þegar þurfa þótti. Þó verður að segja að rithöndin ber skólagöngu minni ekki fagran vitnisburð, þó kannski megi skella helmingi skuldarinnar á örvhentu mína. Ódælni mín var þó ekki takmörkuð við gjamm, sýndarmennsku og látalæti. Hún  fólst einnig í losun á lífrænum úrgangi á eignir skólans, og þá er ekki átt við postulínsleikfimi. Nei, þar sem ég sat gjarnan á aftasta bekk í skólastofunni (svo að allir heyrðu nú örugglega brandarana mína) þá var ég löngum lengst í burtu frá vaskinum, þar sem bréfþurrkurnar voru geymdar. Og þar sem vinstri hönd mín var gjarnan með blýant í hendi, þurfti ég að finna eitthvað til að gera með þeirri hægri, svona til að halda uppi líkamlegri framleiðni. Og þá brá ég gjarnan á þá vanmetnu dægrastyttingu að bora í nefið. Var ég nokkuð hæfileikaríkur við þá iðju, þótt ég segi sjálfur frá og „fiskinn“eftir því. En þegar kom að því að „landa aflanum“ bjó ég ekki við sama lúxus og bolvískir sjómenn, enda löng leið í „frystigeymsluna“ í skólastofunni. Því brá ég á það snjallræði að klína „aflanum“ undir borðið mitt, og má því segja að ég hafi í raun stundað það í mörg ár að „landa framhjá vigt“. Varla þarf að taka fram, að við lok skólagöngu minnar, var neðri hlið skólaskrifborðsins míns orðin að sannkölluðu  „sjávarréttarhlaðborði“.

Félagar mínir í þá daga voru helstir Reynir Skarsgård, Albert Snær, Sigurjón Jónsson og seinna Fannar Jónsson. Einnig undi ég mér vel einsamall, með Legókubbunum. Helsta leikfangið var þó ímyndunaraflið, sem þótti býsna fjörugt. Við Reynir og Albert stofnuðum til að mynda leynifélagið Svörtu höndina, löngu áður en bláa höndin kom til tals. Og þegar ég labbaði heim úr skólanum átti ég það til að bresta í söng.  Voru aríur og óperur einhverra hluta vegna oft fyrir valinu, sem er einkennilegt, því ég á erfitt með að hlusta á slíka tónlist í dag. En miðað við viðbrögð nágranna míns, Ragnhildar Benediktsdóttur, sem gerði heiðarlega tilraun til að slökkva á öllum útvarpstækjum heimilis síns einn daginn er ég kom sönglandi inn Heiðarbrúnina, þar sem hún hélt að ég væri hluti af dagskrá Rásar 1, hefði ég kannski átt að leggja þetta fyrir mig, alltént hef ég verið sagður líkjast Garðari Cortez.

Leikvöllur minn var bærinn allur, en ég man þó helst eftir Traðarhyrnunni, ruslahaugunum, Einarsbúð og brjótnum, hvar nafn mitt stóð stórum svörtum spreybrúsastöfum löngu eftir brottflutning minn, sem er kaldhæðnislegt, því ég hef aldrei verið á sjó, sem er enn ein skömmin í hatt minn, manns sem kennir sig við Bolungarvík. Einnig get ég viðurkennt nú, sótsvartur af skömm, að það var víst ég ( í slagtogi  við mér eldri stráka) sem kveikti stóra sinueldinn í Traðarhyrnunni, á síðari hluta níunda áratugarins. Svæðið er nokkuð auðkennt enn þann dag í dag, því það er skærasti græni liturinn í fjallinu. (Það skemmdarverk bliknar þó auðvitað í samanburði við hryðjuverkið sem nú er í gangi)

En til merkis um þá sterku tengingu sem ég hef við þennan nyrsta útnára landsins, þá gerast allir mínir draumar enn þann dag í dag í Bolungarvík. Hvort sem það er Traðarhyrnan, Heiðarbrúnin, Einarsbúðin eða kvennaklefinn. Og ég er því afar feginn, því ég hef einnig búið í Kópavogi, í Hlíðunum, stúdentaíbúðum á Akureyri, og nú Árbænum. Ekki beint staðir sem mig dreymir um.

Sem betur fer á ég enn frændfólk og félaga í Bolungarvík, sem hefur orðið til þess að ég hef vanið komur mínar þangað reglulega frá árinu 1997. Og í hvert einasta skipti er ég keyrði Óshlíðina og sá Víkina opnast fyrir augum mér hjá vitanum, fékk ég líka þessa gasalegu gæsahúð. Ekki laust við að ég sakni Óshlíðarinnar einmitt útaf þessu, en ekki blóta ég göngunum.Ég skora á frænda minn og félaga Guðfinn Einarsson til að rita næsta pistil.

 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.