Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Örnefnasögur | 21.11.2007 | Heima í Bolungarvík
Ölver

Á bökkunum inn af Hvassaleiti á Stigahlíð er hóll einn lítill, nefndur Ölver eða Ölvishaugur, eftir formanni eða höfðingja sem þar á að vera heygður. Skip hans á og að vera grafið í barði þar skammt frá. Einhvern tíma átti að hafa verið gerð tilraun til að grafa í hólinn en fljótlega hætt við það, þar eð svo virtist sem hlíðin öll mundi hrynja yfir þá sem að greftinum unnu, svo að þeir urðu hræddir og hættu hið bráðasta.

Sögnin segir, að þeir væru þrír bræður, eða fóstbræður, Ölver, Flosi og Straumur, sem ávallt fylgdust að í víkingaferðum. Lögðu þeir svo fyrir, að þeir skyldu heygðir sinn á hverjum stað, en þó svo, að þeir gætu séð hver til annars. Skyldu þeir svo vera hollvættir þess svæðis, sem á milli þeirra væri. Straumur er heygður á Straumnesi, norðan Ísafjarðardjúps, andspænis Ölvi. En haugur Flosa er inni á Langadalsstrandarfjöllum, upp af Hamri. Frá honum sést einnig til Ölvis. Er þá Ísafjarðardjúpið allt verndarsvæði þeirra.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.