Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Hugrenningar úr Hólshreppi | 31.10.2010 | Guðfinnur Einarsson
Bjarnabúð

Víða leynast hugrenningar í Hólshreppi og nú er gripuð niður í skrif Guðfinns Einarssonar af bloggsíðu hans á veraldarvefnum. Þar kennir ýmissa grasa og sögur hans af viðskiptum sínum við Stefaníu í Bjarnabúð rata inn á vefinn að þessu sinni. Vænta má þess að gripið verið í pistla Guðfinns endrum og eins lesendum Víkara til ánægju og yndisauka.

 

 

"Um daginn var umfjöllun um hjónin Stefaníu og Olgeir, verslunarmenn í verslun Bjarna Eiríkssonar í Bolungarvík. Þetta er ein elsta verslun landsins. Hóf rekstur sinn árið 1927. Í viðtalinu var lögð áhersla á þá persónulegu þjónustu sem alla tíð hefur verið veitt í versluninni.

Við fjölskyldan seldum íbúðina okkar í Bolunagarvík í sumar og keyptum okkur fallegt hús. Hverfisbúðin er núna Bjarnabúð. Í þrjár vikur af sumrinu var ég fyrir vestan í sumar og var mjög reglulegur gestur í Bjarnabúð. Í hvert skipti þegar ég kom inn var mér heilsað með nafni af Stefaníu sem er síbrosandi kona. Ferðin varð alltaf aðeins lengri heldur en hefðbundin verslunarferð. Það þurfti aðeins að ræða málin. Venjulega var Olgeir inn á lager að stússast en stakk þó höfðinu út til að bjóða góðan daginn. Stefanía afgreiddi yfir borðið og aðstoðaði mig svo við að setja vörurnar í poka.

Einu sinni gerðist það að ég átti að kaupa Morgunblaðið fyrir pabba á Ísafirði en hafði gleymt því. Á leiðinni út í Vík fattaði ég það og kom við í Bjarnabúð. Verslunin var þá búin að loka en Stefanía og Olgeir voru á leiðinni heim þegar mig bar að.

Vantar eitthvað Guðfinnur minn? Kallaði Stefanía út um gluggann á bílnum. Ég sagði eins og var, ég átti að kaupa Moggann en hefði gleymt því. En pabbi yrði bara lifa einn Moggalausan dag. En Stefanía vildi ekki heyra það, hoppaði út úr bílnum og opnaði búðina. Náði í eitt Morgunblað og rétti mér inn í bílinn. Þú borgar bara næst þegar þú kemur vinur.

Daginn eftir þegar ég mætti til að versla í morgunkaffið og borga fyrir Moggann var pabbi búinn að vera fyrr um morguninn og borga skuldina mína. Ég verslaði einn pott af mjólk, skinkubréf og annað tilfallandi með morgunkaffinu. Svo tók ég eintak af Frjálsri Verslun og lagði það á borðið. Stefanía tók blaðið og setti það aftur í rekkann. Pabbi þinn keypti blaðið í morgun.

Stefanía og Olgeir eru einungis þriðju eigendurnir á öllum þessum árum. Fyrsti eigandinn var Bjarni Eiríksson og við rekstrinum tók svo sonur hans Benedikt Bjarnason. Ég man mjög vel eftir Benedikt á bak við búðarborðið. Ég var bara lítill patti þegar ég bjó í Víkinni og fór reglulega með mömmu og pabba í Bjarnabúð. En eftir mönnum eins og Benedikt man maður alltaf. Hann var áberandi glæsilegur maður og þau hjónin Benedikt og Hidda frænka afskaplega falleg saman. Það hefur líka alltaf verið mjög gaman í kringum þau og enn þann dag í dag er Hidda frænka einhver skemmtilegasta kona sem ég veit um.

Verslun Bjarna Eiríkssonar er ein af þessum örfáu perlum sem eftir eru í íslenskri verslunarsögu og glæsilegur minnisvarði um ævistarf Benedikts Bjarnasonar. Guð blessi minninguna um góðan mann".

 

Guðfinnur Einarsson

 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.