Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Hugrenningar úr Hólshreppi | 26.12.2010 | Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Jólasaga

Hún var vinnukona í sveitinni í þrjú ár og gekk í öll störf sem til féllu hvort sem þau tengdust búskapnum eða heimilinu. Hún vann ætíð vinnuna sína af kostgæfni og reyndi að gera sitt besta enda varð hún að standa sig fyrir foreldra sína sem bjuggu í víkinni handan heiðarinnar. Faðir hennar hafði slasast úti á sjó og gat því ekki lengur aflað bjarga í bú og séð fjölskyldunni farborða. Sár hans náðu ekki að gróa og heilsu hans hrakaði stöðugt og því sáu foreldrarnir þann einn kost nauðugan að senda hana í vist til að létta undir með heimilinu enda var hún elst barnanna.

 

Henni þótti erfitt að sjá á eftir systkinum sínum og tilhugsunin um að hitta þau ekki næstu misserin var nær óbærileg. Verst þótti henni þó að kveðja móður sína en þær voru hændar hvor að annarri og samrýmdar mjög. Hún vissi þó mætavel að hún yrði að fara en hélt ætíð í þá von að sárin myndu gróa hjá föður sínum og allt gæti orðið eins á ný.


Það voru þung sporin er hún gekk upp heiðina um haustið á framandi slóðir. Hauslitirnir vörpuðu ekki eins miklum ævintýraljóma á umhverfið líkt og áður og kirkjan á hólnum var ekki eins glaðleg og vanalega. Það var eins og kirkjuklukkurnar hefðu frosið fastar við tilhugsunina um að hún færi burt og ómur þeirra virtist þagnaður fyrir fullt og fast.


Á leiðinni upp heiðina hugsaði hún til árinnar sem bylgjaðist niður að sjónum í svo blíðum faðmi landslagsins, minnug stundanna sem hún dvaldi við árbakkann með systkinum sínum. Hún hugsaði til sendnu strandarinnar sem tók svo fagnandi á móti haföldunni og hugur hennar reikaði um dalina og fjöllin sem höfðu verið hennar skjól og varðveitt hana frá því hún mundi eftir sér. Minningarnar iljuðu hið innra og það var eins og henni liði betur þegar hún áttaði sig á því hve lánsöm hún væri að eiga svo góðar stundir til að minnast. Hún ákvað að horfa fram á veginn og líta björtum augum til framtíðar þess fullviss að einn daginn kæmi hún aftur heim.


Upp á háheiðinni opnaðist henni nýr heimur er hún sá ofan í víkina sem átti eftir að fóstra hana um hríð og það var eins og allt birti. Fallegir dalir og fjöll birtust í öllu sínu veldi og hafaldan beið hennar niður við ströndina og áin bylgjaðist niður dalinn. Það var bara næstum eins og að koma heim en þó var sársaukinn í hjarta hennar yfir því að kveðja alla þá sem henni þótti mest vænt um svo sár.


Árin liðu og þrátt fyrir að húsbændur hennar sýndu henni fálæti og lítinn kærleik, fannst henni vistin þolanleg. Þegar söknuðurinn eftir fjölskyldunni náði yfirhöndinni fann hún huggun í því að vera í kringum skepnurnar og þótti einna skemmtilegast að komast á bak Skjóna gamla og spretta úr spori sérstaklega að sumarlagi. Þá var eins og hún yrði frjáls er hún fór fetið í fjöruborðinu þegar rauðgullin sólin var að setjast í sæinn og hafflöturinn var baðaður geislunum. Þá glitraði sjóndeildarhringurinn langt í fjarska og himinbláminn gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi.

 

Erfiðast þótti henni að vera án fjölskyldunnar um jólin og leitaði hugur hennar þá heim þegar hún sat í litlu stofunni með fólkinu sínu þegar faðir hennar las jólaævintýrið handa börnunum. Móðir hennar sendi henni ætíð bréf fyrir jólin sem innihélt fréttir af föður hennar og systkinum og þessi bréf lýstu upp skammdegið að það var engu líkara en að sjálf Betlehemstjarnan hefði sest að í baðstofunni. Henni fannst hún heyra kirkjuklukkurnar á hólnum slá taktfast gegnum fréttirnar í bréfinu en það var ómissandi þáttur í jólahaldi fjölskyldunnar að fara í kirkju en þar sem hún bjó nú þótti það ekki til siðs. Hún heyrði í minningunni rödd prestsins fara með Guðsorðið og marrið í hörðu kirkjubekkjunum hljómaði sem notaleg óratoría í hugskotinu. Stundum fannst henni eins og hún væri skorðuð föst við kirkjuvegginn undir guðspjallinu og að allt væri eins og það var. Orðin sem móðir hennar hafði skrifað og sett saman í setningar gerðu jólin bærilegri og hún næstum fann hlýuna úr móðurfaðminum umvefja sig milli línanna.


Á þriðja vetri dvalar hennar hrönnuðust kólguskýin upp á aðventunni og snjóstormurinn buldi á hýbílum manna og dýra og kuldinn hlífði engu. Fréttin barst um sveitina í hríðinni þess efnis að hún væri ekki kona einsömul og bæri barn bóndasonarins undir belti. Það höfðu tekist með þeim ástir og reiðtúrinn á Skjóna gamla hafði oftar en ekki endað í skjólgóðu grasbelti upp í hlíðinni þar sem rauðgullnu sólargeislarnir skinu sem skærast.


Það var henni mikið áfall þegar hún komst að því húsbændum hennar þætti hún ekki syni þeirra samboðin enda þótti vinnukonur ekki heppilegt kvonfang handa bóndasyninum og var hún því send á brott. Hún skyldi vera farin fyrir jólin og taka allt sitt hafurtask með sér. Bóndasonurinn hafði ekkert bein í nefninu til að standa í vegi fyrir ákvörðun foreldra sinna enda hefði það trúlega ekki verið til neins. Tár sást þó á hvarmi hans er hann horfði á eftir henni upp heiðina og vonin um að sjá lítil líf kvikna varð að engu þegar hann sá hana hverfa handan við hæðina.


Henni var ekki fylgt lengra en upp á háheiðina og þaðan yrði hún að ganga heim á leið. Það var aðfangadagskvöld og hún var alein í myrkrinu og var hrædd um að hún kæmist ekki heim í þessum veðurofsa. Hún óð snjóinn í hríðarkófinu og vissi varla í hvað átt hún stefndi enda blés napur vindurinn úr öllum áttum. Hún var við það að gefast upp þegar hún heyrði óminn af kirkjuklukkunum frá kirkjunni á hólnum og í sama bili létti til og djúpið var baðað tunglskini og birtu frá stjörnunni einu og sönnu og það var eins og víkin kallaði hana til sín og hvatti hana til að flýta sér svo hún næði messunni í tíma.


Það var svo í miðju jólaguðspjallinu þegar engill drottins boðaði þann mikla fögnuð sem veitast myndi öllum lýðnum, að hurðin opnaðist á kirkjunni og hún kom örmagna inn kirkjugólfið í átt að altarinu, köld og hrakin eftir gönguna ofan af heiðinni.


Móðir hennar sat á fremsta bekk ásamt systkinum hennar eins og venja var á aðfangadagskvöld og er hún sá hvers kyns var hljóp hún til hennar og faðmaði hana að  sérog leiddi hana til sætis. Blíðlegt augnaráðið gaf til kynna að nú þyrfti hún ekki að hafa neinar áhyggjur því nú væri hún komin heim og bros hennar sagði meira en nokkur orð.


Í sömu svipan hóf presturinn upp rödd sína og hélt áfram með guðpjallið. Hún hjúfraði sig upp að móður sinni sem tók undir með himneskum hersveitum og lofaði Guð fyrir að fá dóttur sína heim og dásamaði dýrð hans í upphæðum og þakkaði velþóknun hans yfir þeim mæðgum. Kirkjubekkurinn var mjúkur og móðurfaðmurinn útbreiddur og systkini hennar grétu gleðitárum. Frelsarinn sjálfur breiddi út faðminn á styttunni á altarinu og brosti til hennar og í augnaráði hans mátti sjá velþóknun á hinu nýja lífi sem hún bar undir belti.

Heiðin lagðist í vetrardvala um leið og hún var komin í öruggt skjól í kirkjunni á hólnum og vaknaði um svipað leiti og drengurinn fæddist. Þá varpaði sólin geislum sínum á heiðina og það glitraði á hafflötinn við sjóndeildarhringinn sem gladdist yfir nýju lífi. Sólin náði þó aldrei að skína í hjarta bóndasonarins sem syrgði alla tíð soninn sem hann fékk aldrei að eiga og hann vissi að hann ætti aldrei eftir að fara fetið í fjöruborðinu þegar sólin væri að setjast við sjóndeildarhring án þess að hugsa til hennar og litla barnsins. Hann bar þó harm sinn í hljóði og heiðin varðveitti leyndarmálið hans þar til yfir lauk.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.