Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Hugrenningar úr Hólshreppi | 4.11.2011 20:37:54 |
Í tilefni af 130 ára afmælis skólahalds í Bolungarvík – minningarbrot

Valdimar Víðisson flutti stórskemmtilega ræðu í tilefni af afmæli skólahalds í Bolungarvík. Hann sendi Víkara hugleiðingar sínar sem fara hér á eftir:

Valdimar Víðisson heiti ég, sonur Víðis Jónssonar og Jónu Arnórsdóttur. Þeir sem þekkja mig ekki þrátt fyrir þessar upplýsingar þá var afi Jón Eggert Sigurgeirsson og amma Jóna Kjartansdóttir. Ef þetta er ekki nóg, þá er ég á facebook. Býst þá við mörgum vinabeiðnum í kvöld, klárlega. En ég er Bolvíkingur alveg í húð og hár, eða samt ekki alveg, mamma er víst Ísfirðingur en við fyrirgefum henni það alveg. Ég hef mikla tengingu við þennan bæ og finnst alltaf eins og ég sé kominn heim þegar ég kem í víkina fögru. Var öll mín ár hér í grunnskóla og á margar góðar minningar sem ég kem nánar að hér á eftir.

En ástæðan fyrir því að ég er að tala hér í kvöld er sú að afmælisnefndin hafði samband við mig og bað mig um að vera með erindi í tilefni af 130 ára afmæli skólahalds í Bolungarvík. Erindið átti að vera um skóla í dreifbýli og skóla í þéttbýli og möguleika á sveigjanlegu skólastarfi með hliðsjón af aðalnámskrá og bla bla. Man varla hvað það var og enn síður hvernig ég átti að fara að því að ræða um það. En athyglissýkin tók yfir og ég ákvað að slá til. Fjórum dögum seinna fékk ég svo annan tölvupóst þar sem stóð bara: Heyrðu, við ákváðum að breyta þessu aðeins. Sleppa því að tala um þéttbýli og dreifbýli og það, komdu bara og vertu skemmtilegur. Og auðvitað var það nú lítið mál.

Skólastarf hefur breyst mikið frá því ég var hér í skóla. Eða eins og pabbi segir: Hérna Valdimar, hvað eruð þið alltaf að gera með alla þessa foreldra í skólanum. En auðvitað er samstarfið mikilvægt og allt það. En eitt sinn þá hringdi nú Gunnar skólastjóri í afa. Eitthvað var hann óhress með skriftina hjá þeim bræðrum, Víði og Guðmundi. ,,Já er það Jón Eggert? Heyrðu, það þarf eitthvað að athuga með skriftina hjá þeim bræðrum, geta varla dregið rétt til stafs“. Það kom smá þögn í símann og afi sagði svo: ,,Gunnar minn, ég er skipstjóri á mínu skipi og ekki ert þú að skipta þér að því hvernig ég stjórna um borð og því ætla ég ekki að skipta mér að því hvernig þú stjórnar í skólanum. Þú sérð bara um þetta Gunnar“, og þar með lauk því samtali.

Ég var í þessum skóla í 10 ár. Öll þessi ár þá tók ég að mér eitt ákveðið verkefni, og ég tók það að mér að eigin frumkvæði. Ég ákvað það strax í 1.bekk að hjálpa Stínu gangó. Þannig var að það var alltaf hleypt inn úr frímínútum 2 mínútum áður en bjallan hringdi. Ég beið því alltaf við dyrnar eftir að Stína opnaði og þegar það gerðist þá þaut litli rauðhausinn út í dyr og gargaði yfir skólalóðina þannig það bergmálaði í fjöllunum í kring: ÞAÐ ER BÚIÐ AÐ HLEYPA INN….. og þetta gerði ég upp í 10. bekk. Af hverju stoppaði mig engin? Ég meina, það er verið að greina börn hægri vinstri í dag, hefði ekki átt að vera fyrir löngu búið að athuga með mig?

En ég man eftir mörgum eftirminnilegum kennurum. Hún Helga Svana kenndi mér til dæmis dönsku og hún afrekaði það að kenna afa, pabba og mér. Er hún ekki annars enn að kenna? Ég man þegar við útskrifuðumst árið 1994 þá ætlaði Helga að hætta og við héldum svaka kveðjuveislu fyrir hana, keyptum blóm og allt…en hún kenndi í mörg ár eftir það…

Anna Edvards var umsjónarkennari minn í mörg ár. Í dag eru kennarar að finna svona athyglimerki til að fá þögn í bekkinn. Oftast er það lítið sætt klapp eða lítil bjalla og svona huggulegheit…En Anna Edvards var nú ekkert í neinu svoleiðis rugli. Ef henni fannst of mikill óróleiki í okkar, sem gerðist nú stundum, þá ýtti hún sér frá kennaraborðinu og negldi upp undir borðið í tréklossunum svo það glumdi um allan skóla…og hún fékk vissulega þögn enda vorum við ein taugahrúga eftir skellinn sem þessir fínu tréklossar kölluðu fram.

Eins er mér minnistætt að þegar ég var í þessum skóla þá leið yfir mig öll árin. Þegar Magga hjúkka kom með sprauturnar þá steinleið yfir mig enda með blóð- og sprautufóbíu á hæsta stigi. Mesta spennan í bekknum var sú að bíða eftir því að það leið yfir mig, og það brást ekki, þegar það var spraututími þá leið yfir mig. Það var bara þannig. Og það þurfti ekki einu sinni að vera sprauta í stofunni. Þegar stelpurnar fóru í svona tékk fyrir rauðum hundum eða hvað það var þá þurftu þær að fara í blóðprufu. Þá ákvað sessunautur minn, frændi og vinur Trausti Salvar Kristjánsson að útskýra það vel fyrir mér hvað gerist þegar farið er í blóðprufu…og það steinleið yfir mig. Svo þegar ég var á kominn á unglingastig þá fórum við á skyndihjálparnámskeið…ég gat náttúrulega ekki lokið því vegna þess að þegar að koma að kaflanum um það að stöðva blæðingar þá leið yfir mig…og ath. að myndirnar í bókinni voru teiknaðar…En kennari sá sér leik á borði þar sem ég lá og sagði víst: Hey krakkar, æfum núna læsta hliðarlegu…og ég settur í læsta hliðarlegu og gat mig hvergi hreyft þegar ég rankaði við mér…En ég var samt alveg vinsæll í skóla sko.

Ég var áberandi góður krakki. En mamma sagði reyndar í viðtali einu sinni við umsjónarkennarann minn: Æi Anna Rós, ef hann Valdimar væri nú eitthvað svipaður heima og í skólanum þá væri lífið nú einfaldara. Svo á unglingsárum þá fékk mamma símtal frá Rúnari Vífils og hugsaði þá með sér, jæja, loksins einhver óþekkt í drengnum víst skólastjórinn er að hringja…en þá sagði Rúnar: ,,Heyrðu Jóna, varðandi hann Valdimar, það væri gott ef þið hélduð honum aðeins lengur heima, hann er alltaf mættur svo snemma í skólann“…en þá var ég alltaf mættur á undan húsverðinum. Skil nú ekki í þeim að hafa ekki nýtt það á þeim tíma, hefði getað opnað og svona. Var áberandi stundvís og mætti alltaf…enda fór maður líka í skólann í hvaða veðri sem var…oftar en ekki var snjór vel yfir miðja hurð í Heiðarbrún 8…en þá var bara gripið í axlirnar á okkur systkinunum, okkur vippað upp á skaflinn, hurðinni lokað og svo bara vonað að við kæmumst í skólann…já, breyttir tímar í dag.

En kæru gestir. Á frábærar minningar héðan, Bolungarvík er yndislegur bær, hér býr frábært fólk og hér er gott að vera…er ég ekki búinn að hrósa ykkur nóg???

Takk fyrir mig.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.