Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Menning og mannlíf | 18.1.2013 10:05:00 |
Grænlandssetur í Bolungarvík opnar ljósmyndasýningu

Í tengslum við heimsókn Vestnorræna ráðsins í húsakynni áformaðs Grænlandsseturs í Bolungarvík, fimmtudaginn 19. janúar, var sett þar upp og formlega opnuð sýning á um 60 ljósmyndum, sem Þjóðminjasafn Íslands hafði lánaði.

Þetta er fyrsti viðburður á vegum Grænlandssetursins frá því undirbúningsfélag um stofnun þess var stofnað á árinu 2010 og má segja að þessi sýning  marki upphaf starfsemi þess. Meðal viðstaddra voru forseti grænlenska þingsins Josef Motzfeld auk fimm annarra grænlenskra þingmann og þingmanna frá Færeyjum, Íslandi og starfsmanna ráðsins alls um 30 manns.

Ljósmyndirnar eru úr leiðangri sem Vigfús Sigurðsson, póstur og trésmiður, oftast  nefndur Vigfús Grænlandsfari, fór við fjórða mann þvert yfir Grænlandsjökul um 1.200 km leið á árunum 1912-1913 eða fyrir 100 árum. Með í för voru 16 íslenskir reiðhestar og einn hundur, en engir sleðahundar.  Leiðangurinn var farinn til að kanna stórt íslaust landsvæði inni á Grænlandsjökli, kortleggja það og rannsaka lífríki þess, auk þess sem margvíslegar jökla- og veðurfræðilegar mælingar voru gerðar á hájökli Grænlands, sem nær í allt að 3.000 metra hæð. Margar vísindalegar niðurstöður leiðangursins eru í fullu gildi enn í dag og viðurkennt er að með honum hafi verið lagður grunnur að jöklarannsóknum á norðurslóðum.

Með í för var m.a. Dr. Alfred Lothar Wegener veðurfræðingur og kennari við Háskólann í Marburg í Þýskalandi, sem er höfundur landrekskenningarinnar. Þessi ferð var mikil þrekraun fyrir bæði menn og skepnur og mátti litlu muna að ekki færi illa.

Vigfús Grænlandsfari fékk tæplega 100 ljósmyndir á glerplötum að ferð lokinni. Veturinn 1914 ferðaðist hann vítt og breitt um Ísland, oftast fótgangandi, hélt fyrirlestra og sýndi skuggamyndir úr Grænlandsferðinni. Þessar myndir eru úr safni hans.

Sýningin verður í húsnæði Grænlandsseturs að Vitastíg 1, Bolungarvík, 2. hæð og verður opin milli kl. 14:00 og 16.00 laugardag og sunnudag. Aðgangur er ókeypis.

Hafa má samband við Grænlandssetrið í s. 898-6794.

 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.