Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Saga Bolungarvíkur | 19.11.2007 |
Um Bolungarvík

Bolungarvík er myndarlegur útgerðarbær við utanvert Ísafjarðardjúp að vestanverðu. Staðurinn fékk kaupstaðarréttindi árið 1974 og íbúafjöldi er þar um 1.000. Víkin sem byggðin dregur nafn af snýr til norðausturs og afmarkast af Óshyrnu að sunnan og Traðarhyrnu að norðan. Vestan Bolungarvíkur heitir Stigahlíð og eru þar hamrar miklir og brattlendi, svo að erfitt er um að fara. Tveir grösugir dalir ganga upp frá víkinni og milli þeirra gnæfir fjallið Ernir. Höfuðbólið og kirkjustaðurinn Hóll stendur fyrir framan mynni dalanna og var fyrrum mikið höfðingjasetur. Landslag í Bolungarvík er stórbrotið og fagurt og víða er þar allmikil gróðursæld. Þá er og mikilfenglegt að horfa frá Bolungarvík út yfir Ísafjarðardjúp til Grænuhlíðar, Jökulfjarða, Vébjarnarnúps og Snæfjallastrandar sem og fleiri kennileita.

Útræði munu menn hafa stundað í Bolungarvík frá elstu tímum, enda stutt að sækja á fengsæl mið. Miklar þyrpingar verbúða stóðu þar við sjóinn á fyrri tíð, þótt ekki festist þar varanleg byggð lengi vel. En svo hófst verslun á staðnum árið 1890 og upp úr því tók fólk að setjast þar að. Löggildingu sem verslunarstaður fékk Bolungarvík árið 1903 og hafnargerð byrjaði þar síðan árið 1911 og stóð lengi yfir. Helsta atvinna íbúanna hefur löngum verið sjósókn og margvísleg fiskvinnsla, þótt sitthvað fleira hafi komið til. Þótt skipaútgerð og öll aðstaða við sjóinn sé nú mjög tæknivædd og með eins nýtískulegum brag og best gerist, þá gefst þarna einnig tækifæri til að gaumgæfa hvernig sjósókn var háttað í Bolungarvík á eldri tímum. Það var árið 1988 sem hafist var handa í Bolungarvík við að endurreisa forna verstöð í Ósvör og nú hefur flest þar verið gert sem líkast því sem var á tímum áraskipanna í gamla daga. Meðal annars hafa verið reistar þar verbúðir í fornum stíl, harðfiskhjallur og salthús og fleira sem minnir á hinn gamla útveg eins og dráttarvinda við sjóinn og sitthvað fleira. Þá sjást líka ummerki um annan horfinn atvinnuveg í nágrenni Bolungarvíkur, því að hjá Gili í Syðridal var grafið eftir surtarbrandi til eldsneytis á árunum 1917-1921.

Á fyrri öldum var Bolungarvík mjög einangraður staður og erfitt að komast þangað nema á sjó. Úr samgöngumálunum rættist verulega, þegar vegurinn til Hnífsdals og Ísafjarðar var lagður um Óshlíð, en hann var formlega tekinn í notkun árið 1950. Sú leið þykir þó harla glæfraleg vegna grjóthruns og snjóflóðahættu og sífellt er unnið þar að endurbótum til að tryggja umferðina sem best. Með þessari vegagerð komst Bolungarvík loks í samband við þjóðvegakerfi landsmanna. Einnig liggur akvegur upp frá Bolungarvík um Skálavíkurheiði og til Skálavíkur, þótt það byggðarlag sé nú komið í eyði nema sem sumarhúsaland. Skálavík á sér annars langa sögu og er merkileg í jarðsögulegu tilliti, því að þar er að finna einhver elstu berglög landsins og eru þau talin 15-16 milljón ára gömul.

Tekið af vef Eddu útgáfu hf.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.