Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Saga Bolungarvíkur | 1.1.2008 | Finnbogi Bernódusson
Um Völu-Stein

Lítið er nú vitað um Völu-Stein, son Þuríðar. Þó voru uppi þrálátar sagnir um það, að hann hefði fyrstu reist byggð á Hóli, sem þá var Lynghóll kallaður.


Jóhann Jóhannsson á Hanhóli, afabróðir minn, sagði mér að til mundi hafa verið saga nokkur af Völu-Steini. Kvaðst hann hafa heyrt föður sinn, Jóhann eldri, segja frá því, að hann hefði á yngri árum séð brot eða rifrildi úr einhverri sögu, þar sem Völu-Steini hafi verið lýst nokkuð ýtarlega. Taldi hann ekki ólíklegt að brot þetta hefði verið úr skráðri sögu af Völu-Steini, sem svo hafi glastast eins og flestar sögur og þættir hinna fornu Íslendinga, sem hlotið munu hafa þau örlög. Ég mun nú til gamans setja þessa lýsingu hér, eftir því sem Jóhann minnti að faðir sinn hefði sagt hana.

Völu-Steinn var maður vel á sig kominn, í hærra lagi, grannvaxinn, vel limaður, fríður sýnum, hárið ljósjarpt, augun dökk, oft sem fjarhuga, svipurinn stillilegur, íhugandi, spakur að viti, forspár og sá fram fyrir sig, hollráður og kom fátt eða ekki á óvart, óhlutdeilinn og friðmaður. Vel þótti hann mannaður og umfram aðra, skáld gott og fjölfróður sem móðir hans, hvatur í hreyfingum, kunni vel til vopnaburðar, kastaði spjóti allra manna bezt, svo var mátti auga á festa og hæfði allt það er hann til kastaði. Hann skutlaði og fyrstur hvali á Ísafirði (Ísafjarðardjúpi) og kenndi þá íþrótt sonum sínum.

Munnmæli segja að hann hafi spáð því að Vatnsnes mundi fljótt óbyggilegt verða vegna sandfoks, hvað og síðar sannaðist. Mun því strax hafa verið byrjaður uppblástur þar sem nú er Sandurinn.

Finnbogi Bernódusson


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.