Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Saga Bolungarvíkur | 1.1.2008 | Finnbogi Bernódusson
Landnám Bolungavíkur

Það er fagurt veður, sólbjartur sumardagur. Fjallagolan er svo hæg, að hún ýrir ekki hafflötinn. Aðeins hér og þar sjást gárar eða dökkir blettir. Víkin milli hinna háu, sæbröttu fjalla, er böðuð í sól. Sandurinn fyrir víkurbotninum morar af fugli. Ós mikill fellur til sjávar úr vatninu í dalnum. En frá vatninu breiðist grasslétta mikil og fögur, vaxin háu dimmgrænu kjarngresi, og nær fram að háum malarkambi við ströndina. Sléttu þessa hina fögru hafa fuglar ræktað um aldaraðir. Undir háu fjalli í miðri víkinni, þar sem örninn býr, konungur fjallanna, rís úr umhverfinu hár og ummálsmikill hóll, lyngi vaxinn. Þar gengur dalur til vesturs. Eftir dal þessum rennur á. Sjór fellur upp í ána með flóðum og myndar þar stöðuvatn, sem svo fjarar er sjór lækkar. Vogur skerst inn, utan við hólinn mikla. Utar taka við lynggróin holt og grasi vaxnar lautir. Mikið og breitt malarrif er fram undan holtum þessum, en lón alldjúpt fyrir ofan. Í brimum og álandsveðrum berast stórir trjábolir inn fyrir rifið og upp í lónið og safnast þar fyrir, því ekkert kemst út aftur, sem upp rekur yfir rifið það hið mikla. Allt er því fullt af rekaviði. Þegar utar kemur í víkina er rifið landfast og mun hærra. Einig þar eru viðarkestir. Fjöllin eru sérkennileg, lík risavöxnum húsaburstum, sem snúa stöfnum að víkinni.


Eitthvað er á hreyfingu frammi á sjónum. Það þokast hægt inn víkina. Þetta er knörr einn, allmikill. Er honum róið því logn er og seglum hefur verið heflað, en sigla felld. Kona ein, mikil og glæsileg stendur í stafni og rennir arnhvössum sjónum til lands og virðir fyrir sér strönd og umhverfi. Eftir að hafa skyggnst eftir landtöku, lengi og vandlega, bendir hún víkina. Skipið þokast austur á við og inn. Þá opnast ósinn, lygn og breiður. Haldið er inn á hann og upp eftir honum. Dökkgræna sléttan liggur á hægri hönd. Þegar konan lítur yfir sléttuna, hefjast brýrnar og bros færist yfir andlitið, frítt og svipmikið. Hún snýr sér að ungum manni, sem stendur við hlið hennar og segir brosandi;
“Hversu lízt þér, sonur?”


Sonurinn, hávaxinn, grannur en herðabreiður, hrekkur við. Honum er gjarnt til að dreyma í vöku og sjá hugsýnir, og gleymir þá oft stund og stað. Móðir hans hefur nú hrifið hann út úr þessum draumaheimi með ávarpi sínu. Hann kemur til sjálfs síns og litast um. Hann virðir fyrir sér umhverfið með augum skáldsins, snillingsins og djúphyggjumannsins. Móðir hans bíður róleg eftir svari og brosir. Hún þekkir drenginn sinn, þennan djúpvitra, hlédræga og draumlynda pilt. Sjálf hefur hún vakað yfir þessum dýrmæta syni með allri sinni móðurást. Hún hefur af vizku sinni séð hvað í honum bjó og hlúð að gáfum hans og glætt þær og kennt honum öll duldu vísindi, og séð sér til gleði hinn ríkulega árangur af starfi sínu. Verk hans mundu lifa og hann mundi verða þjóð sinni til sóma með óbornum kynslóðum. Hinn ungi maður bregður þögninni. Hið hljómfagra, stælta norræna mál streymir af vörum hans í litauðgum lýsingum. Hann hefur hrifist af fegurð umhverfisins og þeirri djúpu kyrrð og friði, sem allstaðar ríkir og mikilúðleik og ægifegurð hinna hriklegu fjallabursta, sem rísa tignarlegar yfir hið fagra umhverfi. Þegar hann hefur lokið máli sínu, segir Þuríður, því sú er konan.


“Það ætla ég að hér muni fagurt og veiðisæld mikil, og hygg ég hér kosti góða til lands og sjávar. Mun ég hér land nema og bú reisa og munum við svo nytja hér gæði lands og sjávar sem til vinnst. Mun ég stað þessum víst nafn gefa og kalla Bolungavík og þykir mér vel til fallið, því hér hefur mikil firn trjábola að landi borið og mun oss hér ekki timbur skorta til hver er hafa þarf.”
“Vel er það, móðir,” mælti Steinn sonur hennar, “en lít fram lengra. Hér opnast landsýn enn, ný og fögur.”


Meðan þau mæðgin höfðu ræðst við, hafði skipið skriðið ósinn, og blasti nú við sjónum dalur, með kjarri vöxnum hlíðum og vatni spegilsléttu. Gekk þarna fram nes eitt slétt og fagurt. Þar lét Þuríður að leggja og skjóta bryggjum á land. Gengu þau mæðgin fyrst allra á land upp. Þuríður gaf nesi þessu nafn og kallaði Vatnsnes. Helgaði hún sér land allt til yztu andnesja og sló á eign sinni. Lét hún bera af skipi varnað allan og tjöld reisa. En nokkrir lögðu út net í vatnið. Og þann dag var sezt að hinni fyrstu máltíð, sem fiskur hafði aflast til í Bolungavík.


Meðan húskarlar og griðkonur störfuðu að búslóðinni, gengu þau mæðgin um hina fögru sléttu og allt til strandar. Fuglar flestir voru svo spakir að þeir fluttu sig aðein frá fótum þeirra, því þeir þekktu ekki þá furðuskepnu, sem maður kallast. Margir flugu þó upp með gargi; fannst þeim þessir óboðnu gestir gera sér ónæði, hér í þeirra ríki, ríkinu sem þeir höfðu byggt allt frá ísöld. Þau mæðgin ræddu um margt á göngu þessari. Voru þau á einu máli um fegurð og landkosti. Þau skyggndust víða um og gáfu örnefni, sem enn eru vel þekkt.


Þuríður var starfsöm kona, þótt nú væri hún af léttasta skeiði. Hún var kölluð völva, forspá og framsýn. Hún lét draga að viðu stóra af reka þeim hinum mikla, og telgja til húsasmiðar. En þiljuvið hafði hún nokkurn haft frá Noregi. Reistu hún bæ sinn í Vatnsnesi. Þar lét hún einni reisa hús yfir kvikfé sitt og afla heyja sem til vannst, því hún kvað vetrarþungt vera mundi hér, líkt sem á Hálogalandi, heimabyggð sinni í Noregi. En þar varð hún fræg fyrir það, að hún seiddi til í hallæri, að öll sund skyldu fyllast af fiskum, og barg þannig fólki frá hörmulegum hungurdauða. Hlaut hún af þessu afreki nafnbótina “sundafyllir”. Og þótti virðing hennar vaxa mjög, líkt og þegar nútímamenn eru krossaðir fyrir vel unnin störf.


Til marks um mannvit og manndóm Þuríðar og Steins sonar hennar, má geta þess, að Gestur hinn spaki Oddleifsson var mikill vinur þeirra mæðgina. Dvaldi Völu-Steinn tíðum með honum og hafði Gestur, eftir því sem frekast verður ráðið, hinar mestu mætur á þessum fluggáfaða, unga manni, og mun hafa kennt honum margt, bæði í lögum og fornum fræðum. Völu-Steinn hefur verið skáld og dulspekingur. Lítið er nú vitað um ævi hans, því saga hans er týnd, eins og fleiri fornar sögur, er ritaðar hafa verið. Einhver saga var þó til um hann, og slitur úr henni jafnvel fram á síðustu öld. Og hefi ég heyrt tvö atriði sögð úr þeirri sögu.
Þuríður var mikilhæf kona og framsýn. Lét hún húskarla sína starfa að skipasmíðum strax hinn fyrsta vetur. Og á næsta vori var hafin veiði og sóttur sjórinn kappsamlega. Lét Þuríður byggja naust og verbúð og annað sem til þurfti vegna nýtingar sjávaraflans, sem strax á fyrsta ári var bæði mikill og góður. Uppsátur hafði Þuríður á Sandinum. Og var þaðan útræði langt fram yfir hennar daga, eða þar til rif það er fram til við lónið var, hækkaði svo og breikkaði að sjór hætti að hanga yfir það, en þá færðist útræðið smám saman þangað. Sér enn glögglega fyrir tóftum búða þeirra er fyrst stóðu á rifi þessu, sem nú heitir Bolungavíkurmalir.


Frásagnir af aflafeng Þuríðar bárust skjótt um allar byggðir við Djúpið. Komu því menn víða að, til að fá viðlegupláss hjá Þuríði fyrir skip sín, og byggðu sér búðir. En Þuríður mun sjálf hafa staðsett og skammtað hverjum litla landræmu til afnota fyrir föng sín. Hefur sú skipan orðið all lífseig, og lifað allt fram á þessa öld, eða um þúsund ár. Sama skipting gilti svo, er Malirnar tóku að byggjast. Sennilegt er að Þuríður hafi strax tekið vertolla af bændum þeim er hún leigði uppsátur. Þannig fastmótaði Þuríður hina, að líkindum, fyrstu verstöð á Íslandi, og að jafnframt þá stærstu um aldaraðir.


Liðu nú tímar fram og fjölgaði skipum ört, enda fékkst hér skreið mikil. Til gamans má geta þess, að Þormóður Kolbrúnarskáld sótti skreið til Bolungavíkur eitt skipti sem vitað er með vissu. En svo var það eitthvert sinn, að veiði brást nokkuð. Setti þá geig að útvegsbændum og báru þeir vandamál þetta undir Þuríði. Hún sá strax að ekki mundi einhlýtt til frambúðar að afla fiskjar við landsteina. Lét hún því róa með sig á haf út og setti Kvíarmið og mælti svo um, að þar skyldi aldrei með öllu fisklaust vera. Og svo var mikil trú manna á mátt hennar, og vald yfir hinum duldu öflum, að hver bóndi við Ísafjarðardjúp galt henni á kollótta að launum. Má og segja að Kvíarmið standi enn í góðu gildi, því vart mun svo með öllu fisklaust verða á grunni eða í ál, að ekki finnist líf á Kvíarmiði, svo víða sem á því má miða, eins og sjómenn bezt þekkja.


Þuríður er ein af allra stórbrotnustu konum, sem landnámssagan getur um. Hún ræður sjálf skipi fyrir opið haf og leitar sér byggðar í nýnumdu landi, sem þá þótti ekki á annara færi en hraustustu, hugdjörfustu víkinga og þrautreyndra sægarpa. Hún bar gæfu til að reisa byggð sína þar sem landkostir voru þá með ágætum, og sjávarafli svo góður, að byggðarlag hennar aflaði mestra sjávarverðmæta há landi hér um aldaraðir, og hafði og hefur enn notadrýgstu og nærtækustu fiskimið á þrjá vegu við sig, vestur, austur og út til hafs, allt á Halamið, sem er eitt af mestu fiskigrunnum heims. Fyrir miðju allra þessara miklu fiskifláka liggur Bolungavík, byggð Þuríðar sundafyllis. Og ég hefi ríkt hugboð um að þetta muni ekki vera nein tilviljun. Því það má ljóst vera, að Þuríður hefir verið í fremstu röð hinna stórbrotnustu og ágætustu kvenna, er byggt hafa þetta land og öllum íslenzkum konum til hins mesta sóma. Og víst tel ég það, að Þuríður vaki enn sem hollvættur yfir byggðarlagi sínu og eigi sinn ríka þátt í gæfu þess og gengi, svo fremi að við eigum að trúa því að nokkurt framlíf sé til, og að góður hugur megi nokkru þoka til farsælli og betri lífskjara í þessarar jarðar tilveru.

Finnbogi Bernódusson - Erindi flutt í Bolungavík á sjómannadaginn 1950


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.