Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Saga Bolungarvíkur | 1.1.2008 |
Þuríður

Landnámskona Bolungavíkur, Þuríður sundafyllir, átti áður heima á Hálogalandi í Noregi. Hún var skörungur mikill og kunni vel að leysa vanda annara. Þjóðtrúin segir hana hafa verið völvu eða seiðakonu, sem þó beitti þekkingu sinni einkum öðrum til góðs.


Landnámabók, sem segir frá landnámi hennar, greini frá þeirri sögn um fjölkynngi Þuríðar að:
Eitthvert ár þraut afla á fiskislóðum heimabyggðar hennar. Sneyddist þá svo um föng öll, að hallæri varð um Hálogaland. Þá settist Þuríður á seiðhjall sinn og efldi seið. Tókst henni svo, að öll sund fylltust af fiski. Með þessu forðaði hún byggðarlagi sínu frá hörmungum yfirvofandi hungursneyðar.
Af þessu fékk Þuríður viðurnefni sitt “sundafyllir”.

Ekki er vitað hvað valdið hefur, en svo fór að hún tók upp bú sitt á Hálogalandi, bjó skip sitt og flutti út til Íslands. Með henni var Völu-Steinn sonur hennar.

Þuríður nam Bolungavík alla og settist að í Vatnsnesi. Líklegt er, að hún hafi fleytt skipi sínu upp í Ósinn, sem þá hefur vafalaust verið víðari og ofar en hann er nú.

Fyrir æva löngu er Vatnsnes, sem jörð, komið í eyði og land mjög breytt frá því er var á landnámsöld. Þar sézt enn móta fyrir tóftarbrotum, sem talið er að séu leifar af bæ Þuríðar.

Afrennsli vatnsins í Syðridal, hefur skilið á milli landa Þuríðar og Völu-Steins sonar hennar, sem bjó á Ósi. Sjálfsagt hefur hún oft átt erindi þar yfir. Á einum stað standa þar steinar tveir hátt upp úr vatninu. Á þessum steinum stiklaði hún þegar hún þurfti að bregða sér yfir. Heita þeir af því Þuríðarstillur. – En lengra er bilið á milli þeirra en svo, að nútíma konum þætti þægilegt að hoppa yfir eftir þeim.

Í Vatnsnesi stendur steinn einn, hár og stór. Þar settist Þuríður upp, þegar hún vildi skyggnast vítt um og líta yfir landnám sitt. Af því heitir hann Þuríðarsæti.

Þuríður beitti nautpeningi sínum niður um Syðridal og yfir á Hólsdal. Kom þá fyrir að gripirnir rásuðu niður í Víkina. Sóttu kýrnar gjarna á hól einn stóran, er Lynghóll nefndist. En lítið var Þuríði um þær ferðir búsmala síns gefið. Þótti henni er hún leit hól þennan, sem þar logaði jafnan ljós svo skært, að birtan skar henni í augum. Fékk það henni grun um, að þar mundu kristnir menn síðar eignast helgistað. Það þótti henni miklu miður, því sjálf var hún heiðin. Fann hún það á mjólkinni úr kúnum ef þær höfðu komið á hólinn, og lét þá hella niður nytinni það málið.

Grunur Þuríðar um hólinn reyndist réttur, því að á þessum hóli byggðu Bolvíkingar kirkju sína í fyrstu kristni, og þar hefur kirkjustaður verið æ síðan.

Þuríður hafði áhyggjur af því hversu fara myndi um átrúnað eftirkomenda sinna. Þóttist hún þess fullviss, að þeir myndu hafna trú feðra sinna og taka upp annan sið sem ekki væri að hennar skapi. Varð henni þungt í skapi að hugsa til þessara trúarskipta og ásetti sér að láta eftirkomendur sína ekki njóta þess auðs er hún átti í dýrgripum og lausu fé. Tók hún sig því til og gróf á laun, fjármuni sína í jörðu einhvers staðar í engjum lands síns. Veit enginn hvar hún kom þeim fyrir. Þó fylgja þau ummæli, að þeim manni, er klifið geti tind þann, Þuríði, sem við hana er kennd, og náð lyklum hennar sem hún geymir við belti sér, muni auðnast að finna staðinn þar sem fjársjóðurinn er falinn og ná honum. Þetta hefur engum tekist, enda er efsti hluti tindsins ókleyft standberg. Reynt hefur verið að klífa hann, en án árangurs.

Ekki förlaðist Þuríði í þekkingu sinni í fornum fræðum við bústaðaskiptin, né heldur lagði hún af not þeirrar þekkingar er hennar var þörf. Traust manna á henni var og hið sama hér sem áður í heimalandi hennar. Á dögum Þuríðar stunduðu menn frá flestum býlum við Ísafjarðardjúp fiskveiðar á miðum Djúpsins. Þá, eins og síðar á öldum, skiptust á gjöful aflaár og önnur tímabil þegar lítið veiddist, og stundum varð jafnvel ördeyða á öllum miðum. Í einu slíku aflaleysisári tóku búaliðar við Ísafjarðardjúp sig saman um að leita ásjár Þuríðar um að freista þess hvort henni mætti takast að neyta hér hinna sömu bragða sem hún beitti á Hálogalandi, þegar hún seiddi þar fisk á mið. Hétu þeir að launa henni vel ef hún gæti leyst þennan vanda og seitt fisk í Djúpið. Þuríður tók málinu vel og hét að reyna hversu sér mætti takast. Settist hún við seið sinn og efldi hann. Seiddi hún til þess að fiskur sneri göngu sinni inn á mið Ísfirðinga. Kom nú í ljós, að Þuríði var ekki allur máttur þorrinn. Nú skipti um, á hin víðu mið Ísafjarðardjúps, sem um lengri tíma höfðu verið snauð af fiski, rann nú gnægð fiskjar, svo að veiði varð öllum næg. Þá setti Þuríður kvíarmið í mynni Ísafjarðardjúps, með þeim ummælum, að þar myndi ei þrjóta fisk. Að launum fyrir þetta verk sitt fékk Þuríður eina á kollótta frá hverjum bónda við Ísafjarðardjúp. Hefur þaðvafalaust verið mikils virði, því að bændur kring um Djúpið hafa verið margir. En sauðfé hefur verið fremur fátt á hverju býli framan af árum.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.