Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Pistlar | 24.6.2008 | Ragna J. Magnúsdóttir
Ræða forseta Bæjarstjórnar

Ágætu gestir

Ég vil í upphafi máls míns bjóða ykkur öll velkomin hingað í dag í tilefni í af undirrritun verksamnings vegna byggingar snjóflóðavarnargarðs í Bolungarvík. Markmið varnanna er að verja byggðina undir Traðargili og Ytragili gegn snjóflóðum og tryggja í leiðinni öryggi íbúa bæjarins eins og kostur er, en samkvæmt áhættumati sem kynnt var árið 2002 kom fram, að verulegur hluti Bolungarvíkur er á hættusvæði m.t.t ofanflóða.

Aðdragandi að gerð þessa varnarvirkis, sem rísa á hér í hlíð Traðarhyrnu, á sér langa sögu sem ekki er ætlunin að rekja hér nema í stuttu máli. Sú leið sem hefur þurft að ganga, að upphafi þessa verks, hefur oft á tíðum þótt torsótt og reynt á þolrif sveitastjórnamanna og íbúa staðarins, þá sérstaklega þeirra íbúa sem búa undir hlíðinni og hafa þurft að yfirgefa híbýli sín á ögurstundum.

Vinna við gerð hættumats fyrir Bolungarvík hófst árið 1994 samkvæmt þágildandi reglugerð, en vinnu við verkið var frestað vegna snjóflóðaslysa á Ísafirði árið 1994 og á Súðavík og Flateyri árið 1995 sem kostuðu 34 mannslíf og ollu miklu eignartjóni. Gjörbreyttu þessi slys afstöðu landsmanna til snjófljóðahættu og snjóflóðavarna og opnuðu augu manna fyrir því að hættan við snjóflóð var langt umfram það sem telja mátti ásættanlegt.

Árið 1997 féll snjóflóð á þrjú hús við Dísarland í Bolungarvík og var það nokkuð áfall fyrir íbúa staðarins, því fram að þeim tíma má segja að mikill meirihluti Bolvíkinga hafi verið þeirrar skoðunnar að tiltölulega lítil hætta væri af snjóflóðum í hlíðinni neðan Traðarhyrnu, heldur væri frekar hætta af grjóthruni og staksteinum úr fjallinu.

Á þeim tíma þótti hverjum manni ljóst að flýta þyrfti umræðu um varnir í Bolungarvík og ákvað bæjarstjórn á þeim tíma í samráði við umhverfisráðuneytið og Framkvæmdasýslu ríkisins að hefjast þegar handa við tillögugerð og undirbúning að hönnun varnarvirkja í Bolungarvík.

Þá unnu heimamenn í samvinnu við Almannavarnir ríkisins og Veðurstofu Íslands áætlun um rímingu húsnæðis í Bolungarvík sem miðaði að því að forða fólki undan hugsanlegu snjóflóði þegar veðuraðstæður og snjósöfnun í fjallinu bentu til þess að hætta gæti verið á ferðum. Átti rýming húsnæðis að vera meginþáttur í vörnum þar til viðunandi varnarvirki væru risin.

Varnargarðurinn, sem hannaður er af Línuhönnun hf. verkfræðistofu og Landmótun ehf. og rís nú í hlíðum Traðarhyrnu, verður 18 – 22 metra hár og gert er ráð fyrir að framkvæmdatími við reisingu mannvirkjanna verði 2 – 3 ár. Keilurnar sem standa ofar garðsins verða 11 metra háar og áætlað er að um 400 þúsund rúmmetrar af fyllingarefnum fari í garðinn og er framkvæmdasvæðið um 10 ha að stærð.

Skipulag svæðissins gerir ráð fyrir að mannvirkin og svæðið í heild sinni nýtist til útivistar, útsýnis og gönguferða og reynt verður eins og frekast er kostur að fella mannvirkin að sínu nánasta umhverfi.

Er það verktakafyrirtækið Ósafl sf. sem var lægstbjóðandi í gerð varnarvirkjanna sem og gerð jarðganga undir Óshlíð en það verk er þegar byrjað og er það sérstakt ánægjuefni. Það er einnig gleðilegt að náðst hafi hagstæðir samningar við fyrirtækið og hægt verði að samþætta þessi tvö stóru verk sem nú standa fyrir dyrum í Bolungarvík og eiga án efa eftir að hleypa nýju lífi í innviði samfélagsins og efla kjark, dug og þor bæjarbúa.

Ljóst er að skiptar skoðanir eru um tilvist varnargarðsins og sitt sýnist hverjum. Í mínum huga er það sérstakt fagnaðarefni að nú skuli loksins vera farið að sjá fyrir endann á þessu ferli og að framkvæmdir geti hafist til varnar byggð í Bolungarvík.

Ég er þess fullviss að þrátt fyrir þessi varnarvirki sem senn rísa í hlíðum fjallsins, komi Bolvíkingar ennþá til með að eiga fallegustu fjöll í heimi sem veita það öryggi og skjól sem hverjum manni er nauðsynlegt að eiga, jafnt á köldum vetri er norðangarrinn blæs snjónum í skafla í hlíðum fjallanna hér í kring, sem og á fallegum sumardegi sem þessum.

 

 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.