Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Pistlar | 8.12.2008 | Agnar Gunnarsson
Hugvekja á hundrað ára afmæli Hólskirkju

Góðir gestir, gleðilega hátíð

Það er stór stund að fagna 100 ára afmæli sinnar sóknarkirkju en þessi kirkja var byggð árið 1908 og hennar afmælishátið að jafnaði miðuð við annan sunnudag í aðventu. Kirkjan var teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni en hann teiknaði margrar kirkjur. Það sem merkilegt er við þessa kirkju er auðvitað margt en það sem frá guðfræðilegu sjónarmiði er merkilegast er staðsetningin á predikunarstólnum en hann er settur fyrir miðja kirkju samkvæmt Lúterskri hefð og bendir á það að hið talaða orð á að hafa mikið vægi í starfi kirkjunnar. Ég held að raunin hafi líka verið sú að það hefur verið tekið mark á því sem sagt er í kirkjunni hér í Bolungarvík.

Bolvíkingar hafa alltaf hugsað vel um kirkjuna sína og í gömlum vísitasíum voru kirkjur hér á Hóli oft sagðar í mjög þokkalegu ástandi. Hólskirkja stendur á mjög fallegum stað, hér sér yfir byggðina í Víkinni, sem kúrir sig á og framan við Bolungarvíkur-malir og héðan sér út á Djúpið, þessa matarkistu um allar aldir.

Prestar hafa sjálfsagt setið hér í katólskum sið og verið þá launaðir af bóndanum á Hóli. Í Lúterskum sið sátu prestar ekki í Hólshreppi heldur var Hólssókn þjónað frá Ísafirði. Séra Páll Sigurðsson var ráðinn aðstoðarprestur séra Þorvaldar Jónssonar og sat í Bolungarvík og þjónaði Hólssókn frá 1912-1915. Fríkirkja var í Bolungarvík 1915-1916 og þjónaði þá séra Páll. Hann flutti til Vesturheims en þegar Hólssókn var gerð að prestakalli árið 1925 var séra Páll ráðinn og þjónaði hér alla sína tíð. Ég er alinn upp við það að heyra mikið talað um séra Pál t.d. hvað þar var hátíðlegt á gamlaárskvöld að vera við aftansöng, horfa á Pál taka upp vasaúrið sitt og segja”nú hefur gamla árið kvatt og nú fögnum við nýju ári” og fólk gekk út í nóttina og niður í plássið sitt undir hljómum kirkjuklukknanna.

Ég og mínir foreldrar erum alin upp við það að var ekki hægt að ímynda sér að nokkur gæti verið prestur nema séra Þorbergur Kristjánsson. Við börnin bárum endalausa virðingu fyrir honum og ekki laust við að þeirri virðingu væri blandinn ótti. Þorbergur var strangur kennimaður og vel að sér bæði í guðfræði svo og um önnur efni. Ég man ennþá sumt af því sem ég heyrði í orðum hans, t.d. eftirfarandi setningu “Gengileysi veraldarhyggjunnar á eftir að koma mörgum nýtímamanninum í koll”. Þetta sagði Þorbergur fyrri meir en 40 árum og það er svolítið átakanlegt hvað hann hefur haft rétt fyrir sér.

Ég fór oft í kirkju þegar ég var ungur og það var alltaf jafn merkilegt að horfa á þegar presturinn kom fyrir altarið og dró tjöldin fyrir dyrnar. Þetta var sveipað einhverri dulúð. Ræðurnar voru alltaf nokkuð langar og ég get ekki neitað því að það fylgdi því ákveðinn léttir þegar þær voru búnar. Þegar ég hugsa til baka man ég eftir nokkrum mönnum sem mættu alltaf og sjálfsagt voru fleiri sem alltaf komu til messu en ég man ekki eftir. En Jakob Þorláksson og Hálfdán Einarsson mættur alltaf. Einar Guðfinnsson og Sigurgeir Sigurðsson sömuleiðis áttu sín sæti í kirkjunni. Kitti Kitt sat alltaf undir stiganum vinstra megin þegar maður kemur inn í kirkjuna. Það er gott að dvelja við gamlar minningar þá kemur hin gamla tíð ljóslifandi. Ég sé fyrir mér Ingimund Stefánsson meðhjálpara vera að hringja gömlu klukkunum og það er til að sjá mikið verk. Ég sé Hraunberg fyrir mér á harða spretti um kirkjuna um jól og reyna að tryggja öllum sæti, svo sest hann við stoðina hægra megin og svo byrjar messan. Organistinn sem alltaf var Sigga Nóa og kórinn áttu sinn stóra hlut í guðsþjónustunni og þegar ég lít yfir kórinn sé ég að það virðist vera talsvert arfgengt að syngja í kirkjukór, og er það vel.

Ég man eftir messu á skírdag, ég sat fyrir framan Jóns Ella og hans fólk. Það var verið að syngja sálminn undurfagra við texta Davíðs Stefánssonar “ Ég kveiki á kertum mínum við krossins helga tré”. Texti þessa sálms er sagður svo magnaður að þó Davíð hefði bara gert þennan eina sálm þá væri hann stórskáld. En sem sagt þarna var sunginn sálmur og þegar kemur að því að í einu versinu að sagt er “ Nú hallar helgum degi á hausaskeljastað”, þá renndi Nonni Elli neðri gómnum fram eins og hann gerði svo oft að við munum sem eldri erum. Og alltaf þegar ég heyri þennan fallega sálm dettur mér í hug Jónsi Elli og þá fara að streyma fram fallegar minningar úr Víkinni.

Ég sé fyrir mér trillur koma drekkhlaðnar að landi á sólríku sumarkvöldi, krakka á leið niður á Brjót að taka á móti feðrum sínum, jafnvel að fá lítinn bita úr kassanum. Ég sér Gísla Hjalta fyrir mér kalla út um gluggann á viktinni eitthvað ti þeirra sem eru að láta vikta. Ég sé fyrri mér sjómannadag, allir í sínum fínustu fötum, skrúðganga frá Íshúsinu og upp í kirkju, stór hópur, presturinn með í sinni fallegu hempu. Í kirkju syngja á sjómannadag oft karlar og fyrir eyrum hér hljóma tómar úr sálminum “ Ég er á hringferð um lífsins haf”. Eftir messu er farið í kirkjugarðinn, þar er lagður blómsveigur til minningar um þá sem hafa farist í hafi. Þessi hluti af sjómannadegi sem er tengdur kirkjunni gerir daginn stærri og merkilegri og það er nauðsynlegt að leggja rækt við góðar hefðir sem reynst hafa vel, ekki bara breyta breytinganna vegna.

Barnaguðsþjónustur voru haldnar annan hvern sunnudag að vetrinum. Þetta var allt í föstum skorðum. Að hausti fengum við bók til að safna í helgimyndum, myndirnar voru festar í bækurnar undir úrklipptum hornunum. Í hverri barnaguðsþjónustu fengum við nýja mynd og það var mikið keppikefli að láta sig aldrei vanta til að missa ekki af því að fá nýja mynd, svo var lesin framhaldssaga, og fullorðnu karlarnir kímdu ef sagan var fyndin og ég man að stundum tísti í Sigurgeiri Sigurðssyni. Stundum komu stúlkur og spiluðu á gítara og sungu, mig minnir að þetta hafi verið dætur Möggu og Kela og fleiri stúlkur. Þetta þótti gríðarlega nútímalegt og við hlustuðum hugfangin á þessa kirkjulegu nútímatónlist.

Jólin voru sérstök, þá fórum við heima alltaf í kirkju á aðfangadag kl. 6. Í minningunni er snjór og þar marrar í minningunni þegar séra Þorbergur tónaði “ Að kvöldi dags skuluð þér vita að Drottinn kemur” þá voru jólin komin fyrir alvöru.

Það hefur verið sagt að sá staður sem hugsar vel um kirkjuna sína eigi sér alltaf framtíð og eins og ég nefndi fyrr hafa Bolvíkingar alltaf hugsað vel um kirkjuna sína enda alltaf átt framtíð. Þeir hafa með seiglu og dugnaði unnið bug á margskonar erfiðleikum t.d. hafnleysi, þeir hafa fengið góða höfn. Það var kreppa rétt fyrir 1970, á fóru þeir að veiða hörpudisk og hægt var að tryggja öllum vinnu meðan aðrir staðir bjuggu við atvinnuleysi. Bolvíkingar hafa búið við slæmar samgöngur, nú sjá þeir fram á að fá jarðgöng sem mun verða mjög til að tryggja búsetu í Bolungarvík. Bolvíkingar hafa alltaf haft gaman af að skemmta sér og nú smíða þeir Félagsheimilið upp og eiga þar vonandi margar skemmtistundir í framtíðinni.

Ég las nýleg bók eftir Jakobínu Sigurðardóttir, sem heitir “ Í barndómi”. Í þessari bók er hún að rýna í gegnum mistur áranna að ganga inn í hús bernsku sinnar, en Jakobína var fædd og uppalin í Halavík. Sumt getur hún séð en um annað ríkir mistur og hún getur ekki séð allt. Þegar ég fór að hugsa um hvað væri við hæfi að segja á 100 ára afmæli gömlu kirkjunnar minnar reyndi ég að fara á vit bernskunnar til þess tíma sem oft ræður úrslitum um það hvernig líf manna verður. Ég fann að boðskapur kirkjunnar hefur haft góð áhrif á mig, hvatt mig til að breyta við aðra eins og ég óska að aðrir breyti við mig. Munum eftir andlegum verðmætum sem geta t.d. verið fólgin í því að sitja í kirkju með sínu fólki, hlusta á talað orð og njóta tónlistar og þeirrar endurnæringar sem samvist manna er. Það á að vera keppikefli hverrar kynslóðar að skapa börnunum góðar minningar og hollt vegnesti á lífsins veg. Kirkjan og þær fyrirmyndir sem við færum uppvaxandi æsku eiga að vera þannig að börn framtíðar geti ferðast til bernsku sinnar og fundið í sínum barndómi gleði og hvatningu til að takast á við lífið.

Íslenska þjóðkirkjan reynir ekki að drottna yfir fólki heldur bara bjóða því til sín til samferðar um lífið og til að segja okkur að við séum ekki ein á ferð og að yfir okkur sé máttur okkur stærri og við getum treyst á hann. Það er merkilegt til þess að hugsa að kirkjan á Hóli, þetta kirkjulegasta hús af öllum húsum, hefur verið í notkun hér um bil jafnlengi og stunduð hefur verið vélbátaútgerð frá Bolungarvík. Kirkjan hefur staðið af sér öll umsát á hverjum samtíma, hér hefur hún staðið og horft yfir Víkina og hvíslað út í nóttina” Þetta er víkin mín, þið eruð fólkið mitt og ég er ykkar kirkja”.

Bolvíkingar hafa verið heppnir með presta og það er ekki tilviljun, því Bolvíkingar hafa lagt sig fram um að láta prestum sínum líða vel og reynt að gera þeim eins vel og þeir hafa getað. Það hafa sagt mér prestar að það sé gott að vera prestur í Bolungarvík.

Þegar ég var að alast upp þá vorkenndi ég ekki mörgum en þó var ein manngerð sem ég vorkenndi, en það voru Bolvíkingar sem fluttu burt og bjuggu annarsstaðar. Þetta fólk kom stundum í heimsókn á sumrin. Ég var stundum að velta því fyrir mér hvort þetta fólk væri ekki með fullu viti. Mér fannst það svo fjarstæðukennt að eiga þess kost að búa í Bolungarvik en setjast að á öðrum stöðum. Þetta hefur orðið hlutskipti mitt að vera burtfluttur Bolvíkingur. Ég veit að það er á vissan hátt forréttindi að búa í sínu plássi og geta hvern morgun litið norður yfir Djúp og heilsað Þuríði tignalegri framan í Óshyrnunni.

Ég vil ljúka þessum hugleiðingum mínum með því að færa fáeinar línur úr ljóði Jóns úr Vör, en Jón var drengur úr plássinu Patreksfirði. Ljóðið heitir “ Ég er svona stór”:

Engin slítur þau bönd
sem hann er bundinn heimahögum sínum.
Móðir þín fylgir þér á götu er þú
leggur af stað út í heiminn
en þorpið fer með þér alla leið.

Megi Bolungarvík og Bolvíkingar allir eiga góða daga

Agnar Gunnarsson


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.