Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Pistlar | 12.7.2012 16:51:02 | Halla Signý Kristjánsdóttir
Heilsugæsla eða tískuvöruverslun?

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þjónar norðanverðum Vestfjörðum, svæði sem telur u.þ.b. 5.000 íbúa í sveitarfélögunum Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhreppi og Bolungarvíkurkaupstað. Eftir því sem undirrituð veit best þá eru heilsugæslustöðvar reknar á Þingeyri, Flateyri, Ísafirði og í Bolungarvík. Frá því að Heilbrigðisstofnunin í Bolungarvík og Ísafjarðarbæjar voru sameinaðar fyrir þremur árum hefur heilsugæslustöðvum fækkað um tvær, í Súðavík og á Suðureyri. Þrátt fyrir loforð um jafna og sömu þjónustu hefur það ekki verið raunin. Vissulega hefur Heilbrigðisstofnunin þurft að glíma við mikinn niðurskurð í fjárveitingum og notendur hennar þurft að taka það á okkur með þögn og þolinmæði.

Í Bolungarvík búa rétt tæplega 900 manns. Á tveimur árum hefur þjónustu heilsugæslu hér verið skorin gróflega niður. Við sameiningu var heilsugæslan opin alla daginn, fimm daga vikunnar og læknir á staðnum. Fljótlega var opnunin skorin niður um helming og bara opin hálfan daginn. En svo hefur kvarnast úr og ætlar ekki að sjá fyrir endann á því. Frá því í fyrra hefur verið opið fjóra daga vikunnar í fjóra tíma. Lyfja fylgir hlýðin i kjölfarið og dregur úr opnunartíma apóteksins í Bolungarvík jafnharðan.

Í sumar var sett upp lítil auglýsing niður í matvörubúð, um að heilsugæslan væri í sumar einungis opin fjóra daga vikunnar frá kl 9-11 eða í átta tíma yfir vikunna.  Þarna er þegar búið að skera niður þjónustuna um 75%. En það er búið að kenna Bolvíkinginum Yoga svo við drögum bara  andann dýpra og treystum á Guð og lukkuna.

Í morgun áttu ég erindi á heilsugæsluna í Bolungarvík á auglýstum opnunartíma stöðvarinnar. Nei !! ég kom að lokuðum dyrum. Mannafli ekki til, var skýringin. Og af hverju er ekki afgreiðslan opin? Jú það fylgir afgreiðslukona lækninum frá Ísafirði og því ekki hægt að hafa afgreiðsluna opna, afgreiðslustúlkan sem býr hér og vinnur niðurfrá er í sumarfríi. Sem sagt göngin ekki opin í báðar áttir eða hvað?

Miðast þjónustustig heilsugæslunnar í Bolungarvík  við þarfir íbúanna að fá afgreidda munaðarvöru eða eigum við að treysta á þetta sem öryggismiðstöð heilbrigðisstofnunar?

Bolvíkingar þurfa að taka á sig niðurskurð hjá ríkinu eins og aðrir þegnar þessa lands en gegn því að kyngja því þegjandi þá viljum við mæta þeirri virðingu að það sé staðið við auglýst loforð. Ef það stendur til að leggja niður þessa þjónustu hérna í Víkinni, þá er bara betra að gera það strax og þá er hægt að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Með núverandi fyrirkomulagi líður Bolvíkingum eins og manninum sem fleygði sér yfir girðinguna til tígrisdýranna í Danmörku á dögunum, Það er verið að éta okkur lifandi.Halla Signý Kristjánsdóttir
Íbúi í Bolungarvík.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.