Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Pistlar | 15.12.2012 07:22:23 |
Jólahugvekja Víðis Benediktssonar

Þegar tendrað var á jólatré okkar Bolvíkinga hélt Víðir Benediktsson fallega hugvekju.  Hugvekjan er falleg og nauðsynlegt að sem flestir fái hana lesið og þannig hlakkað enn frekar til jólanna, hugsað til liðinna tíma, hlakkað til framtíðar og umfram allt, notið dagsins í dag.

- - - - - 

 

Kæru Bolvíkingar nær og fjær,góðir gestir.

Þegar ég var beðinn um að flytja stutta hugvekju hér í dag,leitaði hugurinn strax til æskuáranna,en í fljótu bragði mundi ég lítið eftir jólunum,það er að seigja áður en ég fór sjálfur að halda heimili með Bíbí, en svo fór það að rifjast upp og ég man  að það var mikið fjör á heimilinu enda barnahópurinn stór.Við áttum heima inn við ána þar sem verkstæðið okkar Benna stendur þannig að við fórum aldrei langt,og krakkar og unglingar sem áttu heima innarlega í bænum voru kallaðir inná malapúkar og þeir sem áttu heima utarlega í bænum voru kallaðir útá malapúkar.Um miðjan desember var farið að skreyta með músastigum,en músastigar voru gerðir úr krepp pappír sem var klipptur niður í passlegar ræmur og honum var svo snúið saman þannig að úr var lengja.Jólatréð sem pabbi hafði búið til úr spýtum og mamma skreytt með  krepp pappír,  bómull og  lifandi kertum var sett upp á Þorláksmessu kvöld.Á greinarnar var hengt kramarhús sem var fyllt með sælgæti og þegar búið var að syngja og dansa kringum jólatréð fengum við sælgætið.Á jólunum var alltaf haldið í fastar hefðir með mat og drykk,en áður en borðað var á aðfangadag fóru allir á bað þá gjarnan í stórum þvottabala og í sin bestu föt og þá voru allir tilbúnir að borða sviðin og á jóladag var það hangikjöt.Þegar pakkarnir höfðu verið opnaðir  var mikið spilað á spil,farið í ýmsa leiki, bækur lesnar, strákar léku sér að bílum og stelpurnar léku sér að dúkkulísum.En fyrst og fremst er tími aðventunnar og jólanna tími barnanna og spennan magnast þegar jólasveinarnir fara að koma til byggða og setja eitthvað góðgæti í skóinn hjá  þeim sem hafa verið þæg og góð og dugleg að læra í skólanum en vonbrigðin geta verið mikil þegar það er bara kartafla í skónum en krakkarnir vita þá að það eru skilaboð um að þau þurfa að gera betur.

Mörgum finnst aðventan öðru nafni jólafastan besti tími ársins þá líta menn í eigin barm og gera gjarnan upp liðna tíð og gera sér grein fyrir því hvað gefur lífinu gildi og hvað höfum við gert rétt og hvað  rangt og hugurinn leitar til jólanna,fólk er farið að þrífa,baka,sauma og hengja upp jólaljós í  dimmasta skammdeiginu ,setja ljós á leiði ástvinanna og allt snýst einhvern vegin um þessar vikur sem framundan eru til jóla,kaupa þarf jólagjafir,senda jólakveðjur,og margir sækja jólahlaðborðin jólatónleikana og að lokum koma jólin með allri sinni hátíð og gleði.Menn sækja kirkjur og fara í fjölskylduboð og menn kalla frídagana um jólin annað hvort launþega jól eða atvinnurekanda jól allt eftir því hvað margir hátíðisdagar falla á virka daga.Nú eru launþega jól og ég get vel viðurkennt það að ég vil fá marga frídaga um jólin.  

En það búa ekki allir við þá gæfu sem við búum við að eiga heima á svona góðum stað og geta safnast saman til að fagna aðventunni,upphafi jólahátíðarinnar,hugsum líka til þeirra sem veikir eru og lasburða hugsum til þeirra sem búa við fátækt og armæðu og til þeirra sem stöðugt búa við hungur og stríðsástand og til allra saklausu barnanna sem ekkert hafa til sakar unnið og láta lífið eða örkumlast vegna illsku og  heimsku mannanna.Við skulum leita friðar og fagnaðar á aðventunni og verum þakklát og lítillát og þökkum fyrir það sem við höfum  og við sem getum gefið eitthvað af okkur skulum nota jólaföstuna til að aðstoða þá sem minna mega sín svo allir geti átt ánægjulega jólahátíð.

Ein af mínum bestu minningum sem tengd eru aðventunni er bundin við að bera út dagblað en við systkinin bárum út Morgunblaðið í mörg ár og eins og þeir sem eldri eru vita að þá voru epli og appelsínur ekki fáanlegar nema rétt fyrir jólin og þegar líða fór að jólum var gósentíð hjá okkur því við bönkuðum alltaf á hurðina í stað þess að henda blaðinu inn í ganginn eða setja það inn um bréfalúguna í von um að fá eitthvað í lófann og þetta herbragð heppnaðist yfirleitt og við komum með blaðburðarpokann hálffullan heim af kökum  eplum,appelsínum eða öðru góðgæti.

Þegar við litum hér í kringum okkur og fjallahringurinn blasir við er ekki ofmælt að seigja að það eru forréttindi að hafa alist hér upp og alltaf átt hér heima á stað eins og Bolungarvík og   getað búið börnum sínum gott heimili og lagt grunn að menntun þeirra og framtíð og þannig hefur það gengið mann fram af manni,þó það séu ekki svo mörg ár síðan Víkin okkar fagra varð eins og hún er í dag

Í Sögu Bolungarvíkur er sagt að um 1920 hafi íbúðarhúsnæði verið með því lakasta sem þekktist hér á landi  hús óhrjáleg og þeim hróflað upp af litlum efnum og ekkert sértakt skipulag á þeim. Í Landnámsbók er þess ekki getið hvenær Þuríður  sundafyllir og sonur hennar Völu-Steinn settust hér að í víkinni á milli Ófæru og Óshóla.Þó er  talið  að upphaf byggðar hér hafi hafist í kringum  930-940 eða þar um bil eins og sagt er.Allt síðan þá  hefur hér verið stunduð sjósókn og þá gert út frá verbúðum ekki ósvipaðri og Ósvör  Margt hefur gerst í Bolungarvík  síðan þá og er talið að framfarir hér hafi hafist af einhverjum krafti um og eftir 1880 sem vaxa svo enn frekar alla síðustu öld með tilkomu vélbátanna og margra fyrirtækja ,því Bolungarvík hefur verið og er enn ein fengsælasta verstöð landsins.

En umfram allt er aðventan og jólin hátíð ljóss og friðar.

Ég ætla að ljúka þessum orðum mínum með nokkrum ljóðlínum eftir Ágúst Vigfússon kennara.

Víkin kæra Víkin mín,
við þig hef ég tryggðir bundið.
Hafið fríða,fjöllin þín,
fegurst þegar kvöldsól skín.
Eilíft vara áhrif þín,
æ það hef ég betur fundið.
Víkin kæra,Víkin mín,
við þig hef ég tryggðir bundið.

Verum góð hvort við annað og förum aldrei ósátt að sofa.

Ég óska öllum nær og fjær gleðilega aðventu og jólahátíðar.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.