Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Pistlar | 5.2.2013 20:18:23 |
Stuðningurinn, í allri sinni dýrð, er ómetanlegur

Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir, formaður meistaraflokksráðs kvenna BÍ/Bolungarvík í knattspyrnu flutti eftirfarandi ræðu á kjöri íþróttamanni ársins í Bolungarvík.

 

Ágætu gestir, gleðilega hátíð.

Þegar það fréttist af mér heima hjá mér í gær, sveittri að hnoða saman ræðu, varð ágætum manni að orði að eflaust myndi ég nú mæta með bunka af auðum blöðum, koma mér fyrir í púlti og tala endalaust. Ég get huggað ykkur við það að ég mun ljúka máli mínu, þetta verður ekki endalaust og þetta er nú ekki mikill bunki af blöðum sem ég er með.

Það er mér sannur heiður að fá að standa hér í dag og tala um meistaraflokk kvenna BÍ/Bolungarvík. Það getur reynst manni erfitt að koma einhversstaðar fram og segja frá því sem manni er hjartans mál, segja frá því sem skiptir mann miklu máli að gangi upp og gangi vel, þá sérstaklega vegna þeirra áhrifa sem það hefur á samfélagið. Hvar á maður að byrja? Auðveldasta svarið við þeirri spurningu er, byrjaðu á byrjuninni.

Hér í gamla daga, nú tala ég eins og ég sé aldagömul, þá var ég nokkuð liðtæk í fótboltanum. Ég var varnarmaður og sýndi einnig mikla leikni sem markvörður. Áhuginn á fótbolta var mikill og stefnan tekinn hátt – en tímarnir breytast og mennirnir með. Þegar ég lít til baka þá er ég þess fullviss að kvennaknattspyrnu hafi ekki verið gert nógu hátt undir höfði, að það hafi ekki verið nægilega mikill stuðningur til þess að halda áhugasömum stúlkum að íþróttinni, fótbolta. Sem betur fer eigum við hér á þessu svæði stelpur sem byrjuðu aftur í boltanum, eftir mislangt hlé, þegar þær fóru t.d. suður í háskóla og komust í lið þar sem metnaður var lagður í að láta allt ganga. Mér finnst miður hve mikið brottfall er hjá stúlkum og börnum yfir höfuð úr íþróttum, gerðar hafa verið hinar ýmsu rannsóknir hvers vegna þetta brottfall á sér stað en ég ætla ekki að tíunda þær ástæður hér í dag. Ég tel að einna mikilvægast þegar kemur að því að sporna við brottfalli barna úr íþróttum sé metnaðarfullt starf, allt frá barnæsku og upp í meistaraflokk, allt eftir því hvað hentar hverri íþrótt fyrir sig.

Þegar ég sá það auglýst að stofna ætti meistaraflokk kvenna í BÍ/Bolungarvík ákvað ég strax að ég vildi leggja mitt að mörkum – leggja mitt af mörkum til knattspyrnunnar og samfélagsins, þannig að ég mætti á fundinn.

Á haustdögum árið 2011 var haldinn kynningarfundur sem Hálfdán Óskarsson, Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir og Stella Hjaltadóttir stóðu fyrir. Fundurinn var haldinn í þeim tilgangi að setja á laggirnar meistaraflokk kvenna í BÍ/Bolungarvík. Á fundinn mættu knattspyrnustúlkur, aðstandendur þeirra sem og aðrir sem sýndu stofnun flokksins áhuga. Sú sem hér stendur fékk að slást í hóp þeirra Þórdísar Jensdóttur, Margrétar Högnadóttur, Sigríðar Láru Gunnlaugsdóttur, Hálfdáns Óskarssonar og Huldu Guðmundsdóttur. Til varð meistaraflokkur kvenna BÍ/Bolungarvík, eftir fimm ára hlé!

Ein af megin ástæðum þess að farið var í það að stofna meistaraflokk á þessum tímapunkti var sú að margar stúlkur voru að fara upp úr 3. flokki, þó nokkrar stúlkur voru einnig á 2. flokks aldri og var því ákveðið að stofna meistaraflokk í stað þess að halda úti 2. flokki. Þannig áttum við meðal annars kost á því að geta valið úr fleiri leikmönnum. Farið var í það verkefni að tala við leikmenn og afla styrkja í þetta verkefni en peningahliðin er einn stærsti parturinn í þessu batteríi og má segja að róðurinn sé þungur án ríkulegs stuðnings. Upphafið fyrir flokkinn var kostnaðasamt þar sem flokkurinn þarfnaðist m.a. keppnisbúninga og ýmis gjöld þurfti að greiða, bara svo fátt eitt sé nefnt. Svo kallar þátttaka í mótum á mikil ferðalög vegna útileikja og kostar það skildinginn að ferðast héðan, suður eða norður. Sem betur fer fékk flokkurinn mikinn fjárhagslegan stuðning og margir sýndu honum áhuga þar sem þetta verkefni var að fara af stað og vonumst við til þess að áhuginn og stuðningurinn sé enn til staðar, þá sérstaklega eftir frábært gengi flokksins í fyrstu deild. Ég get ekki lýst þeirri tilfinningu sem braust út innra með mér þegar fyrsti heimaleikur stúlknanna, fyrsti heimaleikur meistaraflokks kvenna í BÍ/Bolungarvík var haldinn á Torfnesvelli á Ísafirði, tilfinningin var ólýsanleg. Full brekka af áhorfendum, full brekka af áhugasömu fólki, full brekka af stuðningsmönnum. Stuðningsmaðurinn er oftar en ekki sagður hinn tólfti maður í knattspyrnuliðinu. Stuðningurinn er einn stærsti þáttur liðsins, að finna að maður hafi stuðning að finna að það sé áhugi fyrir því sem maður er að gera er ómetanlegt.

Síðasta sumar spilaði liðið í 1. deild kvenna og má segja að bæði stjórn og leikmenn flokksins hafi rennt blint í sjóinn þegar tímabilið hófst. Stjórnarmeðlimir tóku að sér allskyns verkefni svo sem fararstjórn, aðstoðarþjálfara, sjúkraflutninga og hjúkrun sem og skutl, matreiðslu og allt það sem tilfallandi var. Það verður að segjast að það komu fáar hendur að liðinu, það voru allavega oft þær sömu sem fengust til þess að taka til starfa. Ekki veit ég hvers vegna það er, einhverjar stelpur í liðinu höfðu náð 18 ára aldri og ef til vill telja foreldrar sig til dæmis vera orðin stikkfrí hvað varðar íþróttaiðkunn dætra sinna. Sem foreldrar verðum við aldrei stikkfrí hvað varðar það sem börnin okkar taka sér fyrir hendur, við verðum alltaf að vera til staðar fyrir þau, þó að sumum geti þótt það erfitt, tímafrekt eða jafnvel tilgangslaust. Okkar stuðningur fellst í því að halda börnum okkur að því sem telst gott og heilbrigt og hvað er betra í þeim efnum en að styðja þau í sinni íþróttaiðkun?

Jónas Leifur Sigursteinsson, sá ágæti maður, hefur þjálfað og stjórnað liðinu með stakri prýði og teljum við það gleðiefni að hann hafi verið tilbúinn að halda áfram í þessu verkefni með okkur þar sem hann mun halda áfram að stjórna liðinu á komandi tímabili. Reynsla leikmanna af því að spila 11 manna bolta var ekki mikil og segir það sig kannski sjálft þegar horft er á meðalaldur liðsins en sú elsta í liðinu er fædd 1988 og sú yngsta sem komst á leikskýrslu er á 14. ári. Við byggðum liðið að stórum hluta upp á heimastúlkum, sem er mjög gleðilegt. Gamlar en samt svo ungar kempur tóku fram skóna að nýju og spiluðu með sínu gamla en samt nýja félagi, líkt og þær Helga Guðrún Magnúsdóttir, Silja Runólfsdóttir og Anna Marzellíusardóttir. Til þess að auka reynslu leikmanna liðsins enn frekar fengum við til liðs við okkur tvo erlenda leikmenn, þær Marila Gabriela Vigira De Melo og Talita Pereira og svo fengum við markvörð frá Akureyri, Kristínu Geirsdóttur. Ástæða þess að leitað var utan landssteinana að liðsstyrk var sú að við eigum í sömu vandræðum og karlalið BÍ/Bolungarvíkur, það er erfitt að fá Íslendinga hingað vestur. Þær Gabi og Talita styrktu liðið mjög mikið, bæði utan vallar sem og innan og gáfu þær liðsfélögum sínum aukið sjálfstraust. Stefnan er að leika sama leik og síðasta sumar á komandi tímabili þ.e. að fá þær Talita og Gabi aftur hingað til okkar. Þó er sett spurningarmerki um þátttöku Gabi því hún meiddist í vetur úti í Bandaríkjunum, þar sem hún stundar nám og spilar knattspyrnu. Við erum að þreifa fyrir okkur að fá innlendan liðsstyrk en enn og aftur verður það að segjast að fjarlægð Vestfjarða við höfuðborgina gerir okkur erfitt fyrir, einnig kærastar, sambýlismenn og barneignir. En við megum ekki setja okkur upp á móti því að það sé verið að fjölga fótboltasnillingum landsins, allavega hef ég lagt mitt af mörkum og mun gera allt sem í mínu valdi stendur að halda framleiðslunni áfram og fylgi öllu mínu vel eftir, þó ég sé ekki með neinar yfirlýsingar.

Gengi liðsins síðasta sumar fór fram úr björtustu vonum. Liðið endaði í fimmta sæti B-riðils 1. deildar, á tímabili voru stelpurnar í toppbaráttu riðilsins sem verður að teljast nokkuð gott miðað við aldur og reynslu liðsins. Í upphafi tímabilsins var liðinu spáð neðsta sæti riðilsins svo það má segja að liðið hafi komið mörgum á óvart.

Ég hef fulla trú á framtíð kvennaliðsins sem við eigum og ég vona að ég sé ekki ein um það. Framtíð meistaraflokks kvenna hjá BÍ/Bolungarvík er björt, til að mynda á liðið landsliðskonu í U17 en hún Sigrún Gunndís Harðardóttir spilaði sinn fyrsta landsliðsleik fyrir skemmstu þegar Ísland tók á móti Danmörku. Þær Elín Ólöf Sveinsdóttir, Kolfinna Brá Einarsdóttir og Aldís Huld Höskuldsdóttir hafa einnig verið kallaðar á úrtökuæfingar landsliða í sínum aldursflokki. Til þess að efla þær stelpur sem hafa spilað fyrir BÍ/Bolungarvík, sýna þeim stuðning til þess að halda áfram var ákveðið að skrifa undir leikmannasamninga við allar þær sem vildu, nú þegar höfum við skrifað undir samninga við sjö leikmenn og erum við búin að ná samningum við fleiri leikmenn. Stuðningur, meðbyr og áhugi, þetta erum við að reyna að sýna þessum stelpum.

Ég tel að ég hafi komið meistaraflokki kvenna hjá BÍ/Bolungarvík ansi vel til skila og það er ekki laust við að ég sé stolt - stolt að vera þátttakandi í þessu verkefni, stolt að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem fram undan er.

Áður en ég lýk máli mínu langar mig að nefna hve mikilvæg stofnun flokksins er. Á eins litlu svæði og hér á Vestfjörðum er verið að efla það starf sem fram fer í yngri flokkum félaganna. Yngri flokkar kvenna eru stórir og það er samfélagsleg skylda okkur að halda íþróttaiðkun að börnum okkar, sama hver íþróttin er og það sem meira er þá þarf að halda báðum kynjum við efnið, þó svo að ég sé að ræða um stelpurnar, og styrkja starf allra aldursflokka. Með stofnun flokksins höfum við gefið þessum ungu fótboltastelpum markmið, stefnu að framtíðinni. Með því að hlúa að flokknum, styrkja hann á allan hátt og sýna honum stuðning erum við að styrkja framtíðina, styrkja hugsun ungu fótboltastelpnanna um að einn daginn muni þær ganga inn á völl uppeldisfélags síns og spila 90 mínútna fótboltaleik fyrir framan fulla stúku stuðningsmanna. Við höfum val um að hafa áhrif á framtíðina, við höfum val um hvernig stuðningsmenn við viljum vera. Stuðningurinn, í allri sinni dýrð og í hinum ýmsu myndum er mikilvægasta vopnið sem við eigum í eins stórkostlegri uppbyggingu og íþróttastarfsemi er.

Kæru gestir. Það var mikill heiður að fá að standa hér í dag, segja frá því sem manni er hjartfólgið og mikilvægt að gangi vel. Það er mér mikill heiður að hafa staðið hér í dag, sem formaður meistaraflokks kvenna í BÍ/Bolungarvík og þátttakandi í því starfi sem framtíðin ber í skauti sér. Ég er stuðningsmaður, hvað ert þú?

Takk fyrir


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.