Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Pistlar | 20.3.2013 18:14:41 |
Frásögn frá Comeniusarferð

Nú í mars fóru þær Elín Þóra Stefánsdóttir og Auður Hanna Ragnarsdóttir, kennarar við Grunnskóla Bolungarvíkur, til Exeter í Englandi, til fundar við samstarfsmenn sína í Comeniusarverkefninu „The art is in our hands“. Hér er frásögn þeirra frá ferðinni.

 

Við vorum mjög heppnar að fundurinn var á þessum tíma en ekki vikunni á undan því þá hefðum við ekkert geta komist enda hvorki fært landleið né flugleið í tæpa viku.  Við flugum til Heathrow og tókum rútu á flugvellinum beint til Exeter.  Skólinn sem við erum í samstarfi við er í 45 mínútna akstursfjarlægð frá Exeter svo ákveðið var að funda í Exeter annan daginn.  Fundurinn var haldinn í mjög gömlu hóteli, þar sem veggir og gólf höfði sigið á mis og rangalar voru hvert sem farið var.

Á fundinum kynntu þátttökulöndin Finnland, Spánn, England, Pólland, Ítalía, Grikkland, Tyrkland og Ísland  verkefni um listamennina Quinten Blake og Osman Hamdi Bey sem unnið hefur verið að síðan hópurinn hittist síðast, en það var í október 2012 í Tyrklandi.  Quinten Blake er enskur listamaður sem frægur er fyrir  bókaskreytingar sínar.   Myndir hans eru mjög oft spaugilegar enda hentar honum vel að skreyta ævintýri. Blake var kynntur fyrir nemendum í þátttökulöndunum, sem síðan áttu að semja sögur á ensku, sem voru með ævintýrablæ.  Í okkar skóla voru það nemendur í 6. og 7. bekk sem sömdu sögurnar, en sums staðar annars staðar voru það yngri nemendur sem sömdu og eldri þýddu á ensku.   Sögurnar sem okkar börn skrifuðu voru síðan sendar til samstarfsskólans í Englandi og nemendur frá 4- 11 ára myndskreyttu þær sögur í anda Quinten Blake.  Við fengum aftur á móti senda sögu frá gríska skólanum og okkar börn myndskreyttu hana.  Hver skóli kynnti síðan hvaða tækni var notuð við skreytingarnar og afhenti kennurunum eintök til að fara með heim. 

Eins og áður sagði voru listamennirnir tveir sem unnið var með frá því að hópurinn hittist síðast.  Hinn listamaðurinn var hinn tyrkneski Osman Hamdi Bey.  Tyrkirnir höfðu fært okkur pússluspil með mynd af einu verka Bey sem nefnist Skjaldbökutemjarinn.  Flestir höfðu látið nemendur mála sambærilega mynd og föndrað skjaldbökur úr ýmsum efnum.  Við ásamt Ítalíu höfðum málað bakgrunn myndarinnar í fullri stærð og klætt einn nemanda upp sem skjaldbökutemjarann.  Það var mjög gaman að útfæra þetta því að í okkar menningarheimi er klæðnaður annar en í Tyrklandi.  Síðir sloppar eru lítið notaðir hér, en við vorum svo heppnar að í leikmunageymslu skólans leyndist síður dumbrauður náttsloppur og gullskór.

Þegar allir voru búnir að kynna sína vinnu var komið að því að kynna þau verkefni sem verða unnin fram á vor.  Annað þeirra er okkar verkefni, en það er stórt og fjölbreytt verkefni um listamanninn Gunnellu.  Það er samþætt verkefni um myndlist, leik og störf.  Mikið er unnið með það sem er að gerast á myndum Gunnellu. Þar er t.d. sería um konur sem eru að leika sér að húlla, svippa og ganga á töltum.  Ein af myndum hennar sem er í appelsínugulum litum er af manninum hennar sem kann lítið að elda og er hann að lesa sér til um hvernig eigi að sjóða egg. Út frá þessari mynd unnum við verkefni þar sem börnin harðsuðu, linsuðu og steiktu egg.  Þau gerðu eggjamjólk og fengu að smakka og voru mörg að bragða á henni í fyrsta skipti.  Einnig lituðu þau eggjaskurnina og notuðu hana til að skreyta ramma.  Í upphafi samstarfsins vann hvert land sitt verkefni svo við eigum einungis eftir að vinna ítalska verkefnið sem einnig var kynnt á þessum fundi.

Ítalski málarinn hét Arcimboldo.  Hann er þekktur fyrir andlitsmyndir sínar, þar sem hann raðar saman ávöxtum og grænmeti.  Því miður eru ávextir og grænmeti miklu dýrari hér en á Ítalíu, en við munum nota plast, tré og leirávexti auk þess að klippa út og búa ef til vill líkön.

Eftir þetta skiptumst við á gjöfum frá löndunum og færðum við þeim harðfisk og Eimskipsdagatöl. Mjög algengt er að fá annaðhvort sælgæti eða kökur frá hinum löndunum. Finnarnir sendu ensku börnunum Angry Birds leikfang því að hann er finnskur.

Um kvöldið snæddum við saman á kínversku veitingahlaðborði.

Morguninn eftir fórum við með rútu til Hawkchurch þar sem samstarfsskóli okkar er.  Þetta er dreifbýliskjarni með um 800 íbúum, þar sem fólk hefur ýmist  sest að í ellinni eða eru bændur.  Í skólanum eru 35 börn á aldrinum 4-11 ára. Þar eru tvær bekkjardeildir.  Í hverjum bekk er einn kennari og einn stuðningsfulltrúi. Skólastjórinn hefur kennsluskyldu einn dag í viku og eru laun hans að eigin sögn um 4000 pund. Hægt er að opna á milli skólastofa auk þess er rúmgóð stofa sem notuð er til ýmissa verkefna.  Í skólanum eru rafrænar töflur. Börnunum stendur til boða að kaupa heitan mat í hádeginu og eru um helmingur þeirra sem nýtir sér það, önnur koma með nesti að heiman.  Mikið er lagt upp úr vatnsdrykkju og hefur hvert barn sinn vatnsbrúsa.  Skólalóðin er mjög stór. Þar er bæði stórt tún sem hægt er að spila fótbolta á, trjágarður, trjáhús og grænmetisgarður.  Þar var einnig steypt lóð með leiktækjum, máluðum parísum, tölustöfum, áttavita og vinabekkjum.  Í skólanum voru allar þátttökuþjóðirnar með kynningu á sínu landi fyrir ensku nemendurna.

Eftir heimsóknina í skólann fórum við á þorpspöbbinn til að borða roastbeef sem er einn vinsælasti maturinn í Devon héraði.  Eftir matinn var haldið í kirkjuna sem var hinummegin við götuna.  Þetta var mjög gömul Hvítasunnukirkja.  Í tilefni af komu okkar höfðu þau hitað kirkjuna upp sem þó var svo köld að ekki var hægt að fara úr yfirhöfnum.  Þarna var mættur hópur af foreldrum ásamt öllum börnunum 35 til að skemmta okkur. Yngstu börnin túlkuðu við tónlist lífsbaráttuna í sveitinni, þar sem kindur og önnur dýr þurfa að verjast úlfinum ógurlega.  Eftir það voru eldri nemendur með dansverk sem flutt var undir Ólympíulaginu og sýndu margar af þeim greinum sem keppt var í á Ólympíuleikunum í London 2012.  Að lokum söng allur hópurinn lag með ensku söngkonunni Adele.

Að kirkjudvölinni lokinni fórum við í samkomusal bæjarins þar sem okkur ásamt börnum og foreldrum var boðið í te og heimabakaðar bollur með smjöri og sultu.  Eftir teið gengu eldri börnin á milli borðanna og tóku viðtöl sem þau voru búin að undirbúa mjög vel um ýmsilegt sem þau vildu vita nánar um skólana okkar.

Um kvöldið fórum við saman út að borða á mjög stórum veitingarstað sem er vel sóttur af háskólanemum í Exeter.  Veitingastaðurinn sem stendur í jaðri háskólasvæðisins var upphaflega herragarður, síðan hótel en hefur verið veitingastaður undanfarin ár.

Næsta dag hitti skólastjórinn, sem er búsettur í Exeter okkur og gekk með okkur um bæinn. Það er reyndar mjög merkilegt að starfsmenn skólans eru í fæstum tilfellum búsettir í eða í nágreni við Hawkchurch.  Húsnæði þar er mjög dýrt og starfsmenn keyra sumir í klukkutíma til vinnu.   Hjá þeim var það viðhorf að ef þú á annað borð ert kominn með kennarastöðu þá eru mjög litlar líkur á því að þú getir fengið aðra stöðu nær heimilinu þínu þér til hægðarauka.  Skólastjórinn fór með okkur niður að Exe en það er áin sem Exeter stendur við og sýndi okkur gamlar byggingar sem standa við ána.  Hann kynnti okkur einnig sögu staðarins sem  byggir á útflutningi ullar.  Við fengum að sjá kynningarmyndband fyrir svæðið sem var mjög fróðlegt því þarna voru Rómverjarnir á sínum tíma og mikið af minjum. Eftir það gekk hann með okkur og sýndi hluta af þeim stöðum sem fram koma í myndbandinu.  Í Exeter er t.d. þrengsta gata í heiminum c.a. 50 sm breið og heitir Alþingisstræti. Við sáum einnig kastalann og garðinn. Í dýflissu þessa kastala voru síðustu nornirnar geymdar sem drepnar voru í Englandi. Hluti af sögusviði Harry Potter myndanna er einnig í gamla bænum í Exeter.  Eitt elsta húsið í Exeter er nú notað fyrir gestamóttökur og vorum við svo heppin, þegar við kíktum þar inn, að bæjarstjórinn var með opið hús og gat frætt okkur um ýmislegt, m.a. hversu hjálpsamir Pólverjar voru við íbúa Exeter á stríðsárunum.  Sérstakar athafnir eru haldnar reglulega með afkomendum pólsku hermannanna sem sem hjálpuðu þeim.  Í Exeter er mjög flott safn sem kosið var safn ársins í Bretlandi. Það heitir Royal Albert Memorial museum og er aðgangur ókeypis.  Safnið er mjög fjölbreytt, bæði listaverk, fornminjar, steingerfingar, uppstoppuð dýr og margt fleira.

Morguninn eftir kl. 6:30 var haldið af stað með rútu á Heathrowflugvöll. Veðrið var ágætt í byrjun en versnaði þegar leið á morguninn.  Miðja vegu var allt orðið hvítt og rútan bara í hægagangi.  Á leiðinni var öll umferð mjög hæg, vegna þess að slys hafði orðið á hraðbrautinni og vorum við farin að óttast um að við yrðum mjög seinar á flugvöllinn.   En allt gekk þetta vel og var ekki mikil umferð á Heathrow.  Við lentum svo í Keflavík um kl. 16 en þá vorum við því miður búnar að missa af síðustu ferð til Ísafjarðar svo heimkoman beið næsta dags.

Elín Þóra Stefánsdóttir og Auður Hanna Ragnarsdóttir, kennarar við Grunnskóla Bolungarvíkur


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.