Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Pistlar | 10.5.2013 11:09:35 | Karl Hallgrímsson
Djassgeggjuð hugmynd handa Bolvíkingi

Góði Bolvíkingur,
mér varð hugsað til þín í dag. Ég hef komið auga á tækifæri fyrir þig til að bjóða öllum Bolvíkingum á vandaða tónleika í Félagsheimilinu. Taktu nú eftir:

Ég var að koma af útskriftartónleikum Kristins Gauta Einarssonar trommuleikara frá Tónlistarskóla Félags íslenskra hljómlistarmanna. Í síðasta mánuði var ég svo lánsamur að komast á tónleikana þegar Valdimar Olgeirsson útskrifaðist frá sama skóla. Mér varð hugsað heim í Félagsheimilið í Bolungavík á tónleikunum í dag.

Þarna stóðu þeir báðir, strákarnir (Valdi spilaði á bassann fyrir Kristin Gauta), útlærðir og þrautþjálfaðir hljóðfæraleikarar og tónskáld og léku af fingrum fram í félagi við nokkra af hæfustu hljóðfæraleikurum Íslands á sviði djasstónlistarinnar. Ég held að þeir séu fyrstu Bolvíkingarnir til að ljúka námi við þennan skóla. Nema Edda Borg hafi gert það á sínum tíma. Það má vera. Þessir piltar gengu í Tónlistarskóla Bolungavíkur. Þar fengu þeir hvatningu og mörg tækifæri til að fást við tónlist með mismunandi nálgun. Útskrift þeirra frá Tónlistarskóla FÍH er líka ágætur vitnisburður um gott starf Tónlistarskólans í Bolungavík. Það og aðkoma þeirra að hinum ýmsu menningarviðburðum í bæjarfélaginu á síðustu árum, ásamt skilningsríku og tryggu baklandi og elju þeirra sjálfra við námið í skólanum og utan hans, hefur skilað sér í þessum heilsteyptu karakterum og áreiðanlegu listamönnum sem þessir piltar eru, báðir tveir. Þetta eru piltar sem nú þegar eru orðnir eftirsóttir í hvers kyns samspil í tónlistargeiranum í höfuðstaðnum. Afar færir tónlistarmenn, en líka drengir góðir. Þannig er alla vega rætt um þá í bransanum. Allt plássið á í þessum strákum. Til hamingju með þá, Víkari. Finnst þér ekki að það þurfi að útskrifa þá líka í Víkinni?

Nú hafa Bolvíkingar allir, jafn ungir sem gamlir, margoft séð og heyrt þá Kristin Gauta og Valdimar leika á hljóðfæri. Þeir hafa verið duglegir að spila á síðustu árum. En að sjá þá í þessum aðstæðum, leika djassmúsík í góðri hljómsveit er nokkuð sem ég hefði ekki viljað missa af og á vonandi eftir að verða viðstaddur aftur og aftur þegar slíkt gerist í framtíðinni. Nú hljóta Bolvíkingar og nærsveitungar að vilja heyra í þeim og sjá þá spila það sem þeir hafa lært fyrir sunnan síðustu vetur. Þeir þurfa að komast með þessa útskriftardagskrá sína í Félagsheimilið í Bolungavík. Nú er lag.

Það er hægt að slá tvær flugur í einu höggi. Leggðu þeim Kristni Gauta og Valdimar lið og hjálpaðu Bolvíkingum í leiðinni til við að þakka þessum strákum fyrir öll skiptin sem þeir hafa leikið tónlist eða stjórnað hljómtækjum á stórum og smáum samkomum í Víkinni síðasta áratuginn fyrir ekkert eða lítið kaup. Splæstu í allt vesenið. Fyrirtæki þíns verður minnst fyrir það lengi á eftir, bæði í Víkinni og nærsveitum. Bjóddu Víkurum á tónleika í nafni fyrirtækis þíns. Þó ekki væri nema til að heiðra þessa ungu heiðursmenn.

Ágæti Víkari,

Hvettu piltana til að halda tónleika í Víkinni í sumar. Þeir þurfa að ferja hljómsveit með tilheyrandi græjum vestur, þeir þurfa að fóðra bandið á mat og drykk, þeir þurfa að greiða spilafélögum sínum fyrir vinnu þeirra. Þeir þurfa að greiða fyrir leigu á Félagsheimilinu. Þetta eru helstu kostnaðarliðirnir. Nú skalt þú bjóða þeim að borga brúsann. Það væri flottur verknaður. Heimtaðu svo að þeir fái Óla málara til að taka með þeim eins og einn standard.

Rosalega gæti það orðið flott!

Með kveðju frá stoltum Víkara,
Karl Hallgrímsson


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.